13.07.2007 01:15
Í staðin fyrir stígvél.
386. Fyrir nokkrum vikum keypti ég kjallaraíbúð við Hallveigarstíg á hundraðogeinum í Reykjavík. Húsið var tekið í gegn fyrir fáeinum árum að utan og fært að mestu í upprunalegt horf, en það er hundrað ára gamalt á þessu ári. Og auðvitað gerði ég það vegna þess að inni í íbúðinni var varla svo mikið sem ein einasta spýta heil. Allt var í gömlum en grautfúnum og illa lyktandi panel sem var sums staðar horfinn undir óteljandi lög af veggfóðri. Eitt af því sem ég gerði var að fjarlægja innveggi og gera þrjú rými að einu, þ.e. gang, eldhús og stofu. Kom þá í ljós að golf voru mishá svo leggja þurfti í hluta gólfflatarins. Í þann hluta fóru hvorki meira né minna en tvö tonn af steypu sem ég handhrærði í stórum bala með litlum rjómaþeytara. (Reyndar er ég að tala um borvél ásamt tilheyrandi fylgibúnaði.)
Svona leit gólfið út eftir að öll steypan var komin á sinn stað.
En eins og búast mátti við þurfti að ýta aðeins við flotinu svo það settist sæmilega. Og til þess að gera það þurfti að vaða út í steypuna, en ég var bara á gömlu aflögðu spariskónum sem nú gegndu hlutverki vinnuskóbúnaðs. En það varð auðvitað að reyna að bjarga sér þó engin væru stígvélin sem þurfti til þess verkþáttar. Því varð að notast það sem gerði sama gagn eins og Geir sagði forðum og lengi verður í minnum haft.
En nú ætla ég að skreppa á Sigló yfir helgina.