28.07.2007 13:30
Frumvarp til laga...
390. Ég fékk þetta sent frá ágætum vini mínum sem hafði fengið þetta sent frá ágætum vini sínum eins og svo oft gerist í netheimum. Þess vegna er m.a. höfundur með öllu ókunnur.
Frumvarp til laga um kvótaúthlutun og ýmislegt fleira sem færa má til betri vegar.
1. Öllum þorski er hér með bannað að fara í veiðarfæri báta og skipa, nema viðkomandi þorskur hafa tilskilin leyfi sjávarútvegmálaráðherra.
2. Hver sá sjómaður sem fær þorsk í óleyfi, skal henda honum án tafa út fyrir borðstokkinn.
3. Öllum hvölum er með öllu óheimilt að borða þorsk eða aðrar fisktegundir sem eru í útrýmingarhættu samkvæmt reiknilíkönum fiskifræðinga.
4. Útgerðum hvalaskoðunarbáta er skylt að bjóða upp á hvalkjöt sem aðalrétt í öllum skoðunarferðum.
5. Engum er heimilt að verða fyrir slysi af neinu tagi, nema viðkomandi hafi aflað sér til þess tilskilinna leyfa sem fást hjá umferðastofu´gegn hæfilegu gjaldi.
6. Björgunarsveitum er stranglega bannað að bjarga fólki, nema öruggt sé að viðkomandi hafi áðurnefnt leyfi til að slasast.
7. Þrátt fyrir að hinn slasaði hafi slíkt leyfi, er stranglega bannað að fara í björgunarleiðangur hans vegna leiði það til þess að farið verði fram úr fjárlögum ársins.
8. Til að fyrirbyggja að slys geti orðið, er öllum ferðalöngum skylt að tryggja sig hjá einhverju af hinum stóru tryggingafélaga.
9. Til að losna við hvimleiða innbrotsþjófa er öllum sem hyggja á ferðalög, skylt að tryggja sig gegn innbrotum., Þeir sem tryggja verða því hvorki fyrir skemmdum né missi á persónulegum eignum. Sérstaklega skal á það minnt að þér er alveg óhætt að keyra á ef þú ert tryggður! (eða svo má skilja á auglýsingum tryggingafélaga sem alltaf hafa rétt fyrir sér!)
10. Til viðbótar áður tilkomnum lögum um jafnrétti kynjanna, þá er framvegis stranglega bannað að mismuna börnum sem fæðast á sjúkrahúsum. Því skal framvegis annað hvert barn vera kvenkyns (og hitt karlkyns) og viðkomandi heilbrigðisstofnun þarf að sækja um sérstakan kvóta vegna barna sem í framtíðinni má ætla að hneigist til samkynhneigðar.
11. Íbúum Fjallabyggðar er stranglega bannað að skreppa í Bónus á Akureyri til að nálgast þar ódýrari vörur en í heimabyggð, jafnvel þó verð á bensíni á Akureyri sé 6 krónum ódýrara en í Fjallbyggð.
12. Fjölmiðlum, ASÍ og Neytendastofu er framvegis stranglega bannað að birta opinberlega verð á vörum í Bónus og bera það saman við verslanir á landsbyggðinni. Aðeins má birta opinberlega mismuninn á verði í ESB löndum og Reykjavík.
13. Öll vínsala á Siglufirði er óheimil nema vínið verði fyrst blandað vatni í réttu hlutfalli við hraða ADSL-tenginga á staðnum. Leggja skal 5% aukagjald á vínið, sem renni í ferðasjóð utanríkisráðherra.
14. Fjölmiðlum, Símanum, bönkum og öðrum fyrirtækjum er skylt að senda út auglýsingar og gylliboð til allra viðskipta-?vina? sinna eins og þeir hafa gert hingað til án tillits til þess hvort viðskiptavinirnir eigi kost á að njóta þeirrar þjónustu og gylliboða sem þeir bjóða í persónulegum bréfum og eða auglýsingum. Persónuvernd og Neytendastofnunum kemur slíkt ekkert við.
15. Til að sinna eftirliti með því að ofanritað verði framfylgt skal skipa sérstaka nefnd. Hún skal skipuð öllum sitjandi kvenkyns alþingismönnum á þingi og jafnmörgum karl-alþingismönnum völdum af handahófi án tillits til hvort þeir hafa eitthvað vit á ofannefndum lagagreinum.
16. Þungar sektir sem renna skulu í kaffisjóð (risnusjóð) utanríkisþjónustunnar verða innheimtar af þeim sem brjóta ofangreind lög.
17. Lögreglunni á Siglufirði er þó óheimilt að hafa afskipti af brotum ofannefndra laga, alveg eins og brotum á lögum og reglum varðandi það hvernig Siglfirðingar leggja ökutækjum sínum.
Þetta lagafrumvarp er sett upp á þann hátt að auðvelt er að hafa margar og mismunandi skoðanir á því og túlka bæði vítt og þröngt eða eftir smekk hvers og eins. Eins og eðli allra laga stendur til, þarf síðan stóran hóp hálærða spekinga til að túlka og dæma eftir þeim. Að vísu má búast við að flestir skili séráliti í nánast hvert einasta sinn sem reynir á lögin.
Aðeins 17 sérfræðingar komu að gerð þessa lagafrumvarps sem er óvenjulega fámennt, en ástæða þess er hversu fjármagn var takmarkað vegna fyrirhugaðra ferðalaga flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.
En þeir sem kunna að hafa eitthvað við frumvarp þetta að athuga er bent á að þeir geta látið skoðun sína í ljós hér að neðan.