30.07.2007 19:11
Einn af Jónösunum í umferðinni.
391. Það er oft brýnt fyrir okkur að fara varlega, betra sé að fara sér hægt og komast klakklaust á leiðarenda, en öllu má nú ofgera. Sumir taka slíkar umvandanir svo bókstaflega að horfir til stórvandræða, og sá sem ók á undan mér skammt austan við Selfoss fyrr í sumar er án nokkurs vafa einn þeirra. Kílómetra eftir kílómetra hélt hann sig á nákvæmlega 70 km hraða og ekki agnarögn meira en það. Talsverð umferð var á móti svo mér þótti ekki fýsilegur kostur að aka fram úr vegna þess. Nokkur röð var farin að myndast fyrir aftan mig og sá ég í speglinum að það var eins og sumir bílarnir væru að gægjast út á veginn, rétt eins og ökumenn þeirra væru að velta fyrir sér að taka stökkið og þeysa fram úr. En þeir eins og ég mátu aðstæður þannig að slíkt væri ekki með öllu óhætt og héldu sig á sínum stað í sístækkandi lestinni. Loksins sá ég að nú myndi vera óhætt að ýta pinnanum svolítið nær gólfi og geystist fram úr þeim gráa sem hafði verið á undan mér allt of lengi. Ég er ekki frá því að hann hafi aðeins bætt í ferðina meðan ég fór fram úr honum og sendi mér svolítið súrt augnaráð sem var lýsti bæði hneykslan og reiði. Ég stillti mig um að senda honum þekkt merki þar sem langatöng kemur hvað mest við sögu, enda orðinn öllu dannaðri með aldrinum.
Nálin virtist lengi vel vera föst á 70.
Lestarstjórinn sem stjórnaði hraðanum hjá okkur hinum.