19.08.2007 23:55

Leó Ingi þrítugur.

 

397. Í dag 19. ágúst er Leó jr. þrítugur. Af því tilefni fóru nokkrir vinir og félagar hans ásamt pabba gamla á "Einar Ben" í gærkvöldi og gæddu sér á hvorki meira né minna en helium níu réttum af alíslenskum matseðli þar sem víða var komið við. Mér varð svolítið starsýnt ofan í fyrsta diskinn, en þar gat að líta forréttinn sem var marimeruð Langvía. Dökkrauður vöðvi á stærð við sveskju, svolítið grænmeti og skrautleg teikning í kring um "fuglinn" gerð með fagurlitaðri sósu. Síðan komu þeir hver á fætur öðrum en áttu þó það sameiginlegt að magnið var ekki mikið hverju sinni, en fjöldi réttanna gerði það að verkum að menn fóru bæði saddir og afar sáttir út. Laust fyrir klukkan 11 kom þjónninn að borðinu og spurði hvort við vildum ekki skreppa út fyrir og sjá flugeldasýninguna sem færi rétt að hefjast. Við gætum síðan komið aftur að henni lokinni og haldið áfram þar sem frá væri horfið. Það þurfti ekki að minnast á þessa frábæru hugmynd nema einu sinni og við gengum út í menningarnóttina, röltum niður að höfn og horfðum á mikilfenglegan ljósaganginn. Síðan var snúið á "Einar" á ný því enn voru tveir eftir. Þegar ég kom heim áttaði ég mig á að þetta er líklega lengsti kvöldverður í tíma sem ég hefi upplifað til þessa. Það leið rúmur fimm og hálfur tíma frá því að ég fór að heiman og þar til ég renndi aftur inn á stæðið, en tíminn hafði liðið fljótt með skemmtilegu fólki.



Frá vinstri: Sá sem þetta ritar, Óli Símon, afmælisbarnið Leó Ingi, Bjarni (frændi) Kristjánsson og Fanný Guðbjörg.

Við fengum m.a. ótrúlega góða humarsúpu en í alveg einstaklega skemmtilega lagaðri súpuskál. Hún (skálin) minnti helst á leikmun úr kvikmynd byggða á gallsúrri vísindaskáldsögu af ódýrustu gerð frá sjötta áratugnum. Svona voru nefnilega fljúgandi diskar í laginu á þeim tíma sem svifu um hvíta tjaldið fullir af innrásarliði utan úr geimnum sem samanstóð af asnalegum grænum körlum með loftnet upp úr höfðinu. Þær (skálarnar) hefðu líka getað nýst afar höfuðsmáum dvergum sem barðastór hattur ef þeim hefði verið snúið á hvolf.



Leó Ingi og Óli Símon lyfta augum sínum lotningarfullir til himins eða öllu heldur upp til springandi flugelda sem lýstu upp ágústnóttina.

Eftir því sem leið á kvöldið varð eins og flestum yrði heldur léttara um mál nema þá helst pabbanum sem sagði fátt en drakk bara sitt sprite. Og eftir því sem réttunum fjölgaði snérist umræðan meira og meira um matinn og hin óteljandi og fjölbreyttu fæðuafbrigði nútímamannsins. Leó Ingi sagði okkur hinum frá því að þegar hann vann í Fjallalambi á Kópaskeri, hafi ÞINDASTAPPA eitt sinn verið í matinn. Nokkuð sem fæst örugglega ekki í einni einustu búð á Íslandi og fáir vita að sé yfirleitt til. Þindastappa eins og hún var borin fram líktist helst eins konar kjötköku, og að sögn afmælisbarnsins var hún eitt af því besta sem það hafði nokkru sinni ofan í sig látið. Þetta leiddi síðan umræðuna á vafasamar slóðir, því nú vildu sumir toppa suma. Og áfram var rætt um afurðir hinnar rammíslensku sauðkindar, það sem þjóðin kjamsaði á með velþóknun í eina tíð og það sem hún étur ekki lengur.
"Er ekki hægt að búa til eitthvað verulega gott úr því sem nú er hent núorðið eins og t.d. lungum, heilum og fylgjum og markaðssetja það á svolítið nútímalegan hátt," spurði einn ónefndur félaganna við borðið.
Ég er ekki frá því að eftir þetta innskot hafi flestir borðað örlítið hægar, en það var allt í lagi því nóttin var ekki almennilega byrjuð ennþá.

En við hér í Hafnarfirðinum óskum afmælisbarninu til hamingju með áfangann.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 288
Gestir í dag: 78
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317595
Samtals gestir: 34776
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 21:07:34
clockhere

Tenglar

Eldra efni