20.09.2007 11:23

Gamalt hús með nýja skurn.



402. Í þessu húsi býr maður sem er kominn nokkuð á aldur. Hann giftist Thaílenskri konu fyrir u.þ.b. einum og hálfun áratug, eða skömmu áður en hann keypti húsið. Það var þá fremur óásjálegt ásýndum, klætt gömlu bárujárni sem var orðið allnokkuð ryðgað og vel sást að fótstykkið var með öllu ónýtt vegna fúa. Þetta var (og er) sem sagt timburhús á steyptum kjallara. Gamla manninn langaði til að lappa aðeins upp á "kofann" og byrjaði á að setja sig í samband við byggingarfulltrúann í Reykjavík. Í umsókn nr. 1763 (01.01.350.501) sækir hann um leyfi til að byggja við húsið og klæða það að utan. Þeirri umsókn er synjað og vísað til gr. 12.6 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Niðurlagsorðin í svari byggingarfulltrúa voru: Tillaga fellur illa að húsi.

Thaílenska eiginkonar brást illa við þessum málalokum og skammaði eiginmanninn fyrir afgreiðslu byggingafulltrúa, þó ekki sé með öllu ljóst hvers vegna hún beindi spjótum sínum að karlgreyinu. Hún vissi að húsið var á eignarlóð og í einræðu hennar komu oftlega fyrir orðin "my land." En á hennar heimaslóðum gilda talsvert aðrar og fábrotnari reglur um byggingar og skipulag en á okkar ísa kalda landi, og vildi hún halda sig við sína eigin túlkun á réttlátu og sanngjörnu frelsi til athafna. Gamli maðurinn var að vonum ósáttur við þessi málalok, en einnig að vera hundskammaður heima fyrir þrátt fyrir að hann hefði bara gert sitt besta en hann var ekki óvanur því. En líklega var hann ósáttastur við að hafa þurft að greiða kr. 2.500 í eitthvers konar umsóknargjald sem var óafturkræft, því hann er það sem stundum er kallað að vera aurasár. Hann var samt ekki af baki dottinn og sótti einnig um að fá að breyta gluggum og gluggapóstum, þaki og þakkanti, fjarlægja múrpípu, og að fá að múrhúða (forskala) húsið. En öllum hans hugmyndum var hafnað, og hann talaði um einelti og ofsóknir af hálfu yfirvalda á hendur sér.

En skömmu síðar leystust flest þessi mál nokkuð óvænt, þó ekki væri það alveg samkvæmt stífustu reglugerðum. Eldri maður sem um nokkurt skeið hafði starfað sem snikkari og "allt muligt" maður í hinum gráa geira byggingarbransans komst í góðan kunningsskap við hann, og eftir svolitlar vangaveltur var lausnin fundin. Það var ákveðið að framkvæma allar þær breytingar á húsinu sem hugur gamla mannsins stóð til nema stækkunina. Það yrði sennilega of áberandi þó að fordæmi væri fyrir slíku og meira að segja í sama hverfi. Öllum umsóknum um leyfi og þess konar skrifræðisfargani yrði einfaldlega gefið langt nef, og það sniðgengið að öllu leyti. Öll vinna yrði greidd með reiðufé og engir reikningar gerðir, því snikkarinn starfaði eins og áður sagði aðeins á gráa markaðinum. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að Innheimtustofnun sveitarfélaga hafði verið að eltast við hann með óheyrilegar og síhækkandi kröfur vegna meðlagsskulda í nokkra áratugi. Og gamli maðurinn sem vissi af fjárhagsvandræðum snikkarans bauð honum heilan þúsundkall á tímann en ekki krónu meir. Sá síðarnefndi sem var alls ekki sáttur við tilboðið, neyddist engu að síður til að taka því vegna stöðu mála þá stundina.

En svo var hafist handa, þakplötur og stór hluti af klæðningu var rifið af. Múrpípa var brotin niður og síðan var klætt yfir og brátt var komið hið ágætasta þak á húsið. Næst var farið að rífa bárujárnið utan af húsinu, og kom þá í ljós að innviðir þess voru orðnir allnokkuð morknir. En þar sem gamli maðurinn var stundum (en bara stundum) aðhaldssamur og fór vel með, fannst honum í sjálfu sér ekki vera nein sérstök ástæða til að skipta um allar spýturnar. Sumar sem voru jafnvel orðnar svolítið "linar" og skrýtnar á litinn fengu að halda stöðu sinni, en ekki varð komist hjá því að skipta um sumt, svo sem fótstykki og klæðningu undir gluggum. Allir gluggar voru síðan endurnýjaðir, en þeir nýju voru samt alls ekki eins og þeir gömlu. Póstarnir voru ýmist færðir til eða þeim fækkað, og engu var líkara en breytt væri líka svolítið breytinganna vegna. Slíkt var að vísu leyfisskylt sem og allt hitt, en eins og hann sagði sjálfur: "Skítt með þessar skrifstofublækur og þetta hundfúla lið sem hefur ekkert annað að gera en að vera með leiðindi út í náungann." Þunn einangrun var síðan fest utan á misgamla og góða klæðningu hússins og svo var farið að múra. Efri hæðin var sem sagt "forsköluð," en fyrir þá sem ekki vita hvað það orð stendur fyrir þá er um að ræða múrhúð utan á timburhús. Þakkantar voru nú endurnýjaðir og þá var komið að því að hin innflutta húsfrú tæki við stjórninni. Ekki kom annað til greina af hennar hálfu en að hið austurlenska yfirbragð væri hin ríkjandi lína í þeim hlutanum. Og þar sem hún er sterki aðilinn í hjónabandinu, voru orð hennar að sjálfsögðu lög sem enginn dirfðist að andmæla. Henni fannst nefnilega "þessar beinu íslensku línur" eins og hún orðaði það forljótar og til marks um forpokaðann smekk mörlandans.

En eins og sjá má á myndinni hér að ofan, virðist þrátt fyrir álit og skoðanir byggingafulltrúa hafa tekist ljómandi vel til með breytingarnar. Ég man þá tíð að þarna stóð "ryðgaður kofi" sem var síður en svo nokkurt augnayndi. Reyndar stendur hann þarna ennþá, en nú er hann hjúpaður eins konar hulinsskikkju, eða er bara komin nýja og áferðarfallegri skurn. Það sem vel og skynsamlega var þarna gert, var fyrst og fremst snikkaranum að þakka en hann er því miður horfinn á vit feðra sinna. Blessuð sé minning hans því hann var skemmtilegur karl.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477337
Samtals gestir: 52746
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 06:00:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni