22.10.2007 08:57

Thai style.


407. Við Smiðjuveg 4 í Kópavogi er líklega að finna eitt best varðveitta leyndarmálið á sviði asískrar matargerðar. Að vísu er það kannski ekki algjört leyndarmál lengur, því það hefur verið að spyrjast út smátt og smátt. Veitingastaðurinn "Thai style" er þar til húsa í húsnæði sem hefur alveg greinilega upphaflega verið byggt sem iðnaðarhúsnæði. Öll aðkoma svo og útlit hússins ber það síður en svo með sér að þarna sé að finna þær dýrindis krásir sem framreiddar eru þar í hádeginu dag hvern. Hvorki er því gert út á flottan "front" eða rándýrar innréttingar, heldur einungis það sem byggist á kunnáttu við matargerð sem í ég vil í þessu tilfelli miklu frekar kalla snilligáfu.


Hann heitir Oddur Oddsson en ég kann því miður ekki að rita nafn frúarinnar. Þau stofnuðu til reksturs veitingastaðarins Mekong fyrir rúmum áratug, en seldu fyrir þremur eða fjórum árum vegna þess að hann hafði hreinlega vaxið þeim yfir höfuð. Þau tóku sér u.þ.b. árs hlé til að safna kröftum fyrir næsta verkefni sem var að opna annan stað í Kópavogi þar sem opnunartími átti að vera styttri, en ekki allur sólarhringurinn undirlagður eins og áður hafði verið. Reksturinn fór rólega af stað en hefur aukist jafnt og þétt og nú er svo komið að húsnæðið er eiginlega sprungið. Ég hef farið nokkrum sinnum á Thai style en reyni að vera annað hvort rétt fyrir eða eftir mesta hádegishasarinn, því þá má reikna með að það geti verið talsverð bið eftir að borð losni. Samt hefur starfsemin aldrei og hvergi verið auglýst.



Það er að miklu leyti nokkuð harður kjarni fastagesta eða áhangenda sem minnir svolítið á trúarsöfnuð sem sækir staðinn, og óvíst er að einhver annar en Oddur og fjölskylda hans kæmist upp með svona nokkuð. Að loka bara eins og ekkert sé í heilar sjö vikur og fara í frí. Einhver mundi eflaust halda að þetta væri örugg leið til þess að hreinlega rústa rekstrinum. En eins og segir þá er engin regla án undantekninga, og hér er einmitt dæmi um þessa undantekningu sem um ræðir í frasanum. Daginn sem aftur var opnað var troðfullt út úr dyrum og þannig hefur það verið alla daga síðan þá.

Ég mæli með Stek með salthnetusósu sem sumar kalla bara svín á priki, Kjúklingur í massaman og Túnfisksalati (ofurheitu útgáfunni.)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 189
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495566
Samtals gestir: 54649
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 12:53:35
clockhere

Tenglar

Eldra efni