26.10.2007 00:25
Nú er lag.
408.Tólf af 63 alþingismönnum sem kosnir voru til starfa á Alþingi Íslendinga í vor tengjast Siglufirði á einhvern hátt. Nokkrir eru fæddir þar, foreldrar sumra eru þaðan eða afar, ömmur eða makar. Þetta eru 19,04% þingmanna, en íbúar Siglufjarðar eru um 0,4% Íslendinga.
Í þessum 12 manna hópi eru þrír ráðherrar. Fimm þingmannanna eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Birgir Ármannsson, Björk Guðjónsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson og Pétur H. Blöndal), þrír eru framsóknarmenn (Birkir Jón Jónsson, Höskuldur Þór Þórhallsson og Siv Friðleifsdóttir), tveir Samfylkingarmenn (Kristján Möller og Þórunn Sveinbjarnardóttir) og tveir úr Vinstrihreyfingunni grænu framboði (Álfheiður Ingadóttir og Katrín Jakobsdóttir).
Kristján Möller samgönguráðherra segir að þessi hópur sé þriðji stærsti þingflokkurinn. Hann safnaði þingmönnunum saman til myndatöku í Alþingishúsinu strax eftir þingsetningu.
Ofanritaður texti ásamt mynd er fengið að "láni" á mbl.is.
En fyrst við Siglfirðingar eigum að og höfum þá vænti ég stuðning þriðja stærsta þingflokksins á hinu háa Alþingi til allra góðra mála nyrðra, er þá nokkur spurning að beisla verður þessa orkulind mannauðsins meðan hún er fyrir hendi á þeim ágæta stað í þessu gríðarlega magni og nýta hana til framgangs dreifbýlinganna á Tröllaskaga. Það eru því miður ekki miklar tölfræðilegar líkur á því að svona verði lið vort skipað til frambúðar, en eins og segir á góðum stað: Neyta skal meðan á nefinu stendur.
Vegagerðarmenn hafa sagt við mig að vegurinn um Almenningana sé algjörlega ónýtur. Ekki að hann þurfi lagfæringa eða breytinga við, heldur var lýsingarorðið "ónýtur" notað í orðræðu þeirra sem verða að teljast fagmenn á sínu sviði. Ég hlýt því að skilja það þannig að honum sé ekki við bjargandi á nokkurn hátt, a.m.k. ekki til lengdar og verður þess vegna að leita einhverra lausna í samgöngumálum Fjallbýlinga til vesturs og suðurs. Og þar sem Héðinsfjarðargöngum verður varla frestað aftur úr því sem komið er, hlýtur að fara að verða tímabært að mynda þrýstihóp um næsta viðfangsefni. Það hljóta að vera göng milli Siglufjarðar og Fljóta, sem munu án nokkurs vafa og hvort sem er koma fyrr eða síðar. Það er leiðin sem Gestur Fanndal, Aage Schiöth og fleiri framsýnir menn vildu fara á sínum tíma þegar umræðan um Strákagöng var í gangi. Nokkuð sem svo margir hafa hugsað til undanfarin ár en fáir þorað nefna eða tala um, því það hefði væntanlega verið til þess eins að þyngja róðurinn fyrir endanlegu samþykki gerðar Héðinsfjarðarganga. Við hefðum þá líklega getað talað fyrir því máli þar til við hefðum orðið blá í framan án þess að margt hefði gerst. En þrátt fyrir svolítinn goluþeyting vegna þess máls út af nokkrum milljörðum til eða frá sem bæjarbúar áttu hvort sem er inni hjá hinum hluta þjóðarinnar, er líklega tímabært að blása til orrustu á ný. Við erum búin að safna liði og það er komið inn á þing, beitum þeim harðsnúna hóp fyrir vagninn og þeysum fram á völlinn. - Nú er lag.