04.03.2008 11:32

Brakandi blíða.

453. Síðast liðinn laugardag var hreint út sagt alveg ótrúlega gott veður. En þrátt fyrir það var ég á leið til Reykjavíkur um hádegisbilið og meira að segja tiltölulega nývaknaður því ég hafði verið að spila á Catalinu kvöldið áður. Ferðinni var heitið á Bergþórugötu númer 51 til að undirbúa og hefja lagningu hæfilega dökkra keramikflísa. Þær hafði ég keypt í Múrbúðinni hjá honum Baldri frænda mínum sem er aldrei með nein tilboð, heldur aðeins alveg ótrúlega góð verð sem engir aðrir geta með nokkru móti toppað. Það var reyndar alveg eitthundrað prósent hárrétt í þessu tilfelli svo og eflaust mörgum öðrum, því að fermetrinn kostaði ekki nema lítinn tólfhundraðkall og flísarnar eru bara ansans ári smekklegar.

En sólin hellti geislum sínum ofan af risastórum bláhimni sem endaði út við sjóndeildarhringinn þar sem hann annað hvort hvarf ofan í hafið eða á bak við fjöllin. Hvít mjöllin þekur landið eins og mjúkt teppi sem móðir Náttúra hefur breitt yfir það af mikilli alúð og endalausri umhyggju. Ef hinn blíði blær hefði getað bært nokkurt strá af sinni fádæma nostursamlegu nærfærni, hefði hann eflaust gert það. En eins og ástatt var kúrði allur gróður landsins sig undir hinu mjallhvíta teppi. Þetta var engan veginn dagurinn til að skríða ofan í einhverja kjallaraholu til að fara að sópa gólf, ryksuga út í öll horn, koma réttskeiðinni fyrir á sínum stað, hræra lím, leggja flísarnar, stilla þær af í krossunum, miðla, fela skekkju upp á einn eða tvo millimetra í næstu röð, jafnvel saga svolítið í keramikið í einhverjum tilfellum og svo mætti lengi telja.

Ég tók vitlausa beygju (hugsanlega viljandi) og stefndi til Krýsuvíkur, beygði þaðan inn á Bláfjallaafleggjarann og velti fyrir mér hvort ég ætti að skrópa svolítið í dag og gerast helst til kærulaus. Þegar ég kom að vegamótunum þar sem ég gat annað hvort beygt til hægri upp að skálunum og skíðasvæðinu, eða til vinstri niður eftir til Reykjavíkur staldraði ég lengi við og hugsaði ráð mitt. Ég gaf fyrst stefnuljós til vinstri og beið svolitla stund þó svo að engin umferð væri um veginn. Ég tók stefnuljósið af en beið samt svolítið lengur án þess að átta mig fullkomlega á tilganginum. Skyndilega var eins og ég vaknaði, ég steig þéttingsfast á bensíngjöfina og tók hægri beygju, en að þessu sinni án þess að gefa nokkuð stefnuljós. Teningunum var þar með kastað og ég var búinn að ákveða að vera latur í bili, en njóta heldur veðurblíðunnar og alls þess sem þessi dýrðlegi dagur bauð upp á.

Þegar ég kom upp að skíðasvæðinu voru brekkurnar og allt umhverfi skálanna eins og iðandi mauraþúfur. Mér fannst með ólíkindum hve margt fólk var þarna saman komið. Ég horfði forviða á allt það sem þarna var að gerast og gleymdi næstum því að taka myndir. Og svona eftir á að hyggja, þá sé ég enn fyrir mér öll skemmtilegu og skondnu skotin sem ég missti af. Bara af því að ég hafði ekki undan að drekka inn í meðvitund mína allt þar sem var að gerast umhverfis mig. Ég dvaldi þarna á svæðinu í mun lengri tíma en ég gerði mér grein fyrir allt þar til ég leit á klukkuna. Það var líklega kominn tími til að halda af stað heim á leið, en samt vildi ég fara lengri leiðina. Ég fór niður úr Bláfjöllunum, ofan á Suðurlandsveg og hélt eftir honum í átt til Reykjavíkur. Ég staldraði þó tvisvar við til að taka nokkrar myndir en næsti áfangastaður var Grafarholtið. Þar var líka tekið talsvert af myndum út yfir sundin, Viðey og niður eftir borginni í vesturátt. Aftur var haldið af stað og nú á svæðið umhverfis Kópavogskirkju. Þaðan var farið út á Álftanes, en eftir það upp í Ásland þar sem segja má að dagurinn hafi runnið saman við nóttina. En ég skaut síðasta skotinu þennan daginn þegar ég ók fram hjá kirkjugarðinum í Hafnarfirði sem er reyndar aðeins í nokkurra skrefa fjarlægð frá heimili mínu.





































































































En mun fleiri myndir eru frá þessum ágæta degi í myndaalbúmi og möppu sem er merkt  1. mars.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 591
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 128
Samtals flettingar: 306157
Samtals gestir: 33228
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 16:04:27
clockhere

Tenglar

Eldra efni