12.03.2008 09:23
Alveg nógu gott...
Það er ekki alltaf aðlaðandi að skreppa á "snyrtinguna."
456. Eins og áður hefur komið fram, þá hef ég gert nokkuð af því að "búa mér til vinnu" undanfarin misseri með því að kaupa gamlar íbúðir sem hafa þarfnast verulegra endurbóta. Síðan ýmist selt þær aftur eða leigt út eftir að rifið þær í frumeindir og byggt aftur upp nánast frá grunni. Það má einnig segja að því verra ástandi sem þær hafa verið í, því meiri áhuga hef ég sýnt þeim og því álitlegri kost hef ég yfirleitt talið þær vera. Sumt af því sem ég hef kynnst undanfarin misseri á fasteignamarkaðinum hefur reyndar verið með svo miklum ólíkindum að óvíst er að allir teldu mig segja alveg ýkjulaust frá einstaka uppákomum. Sumt af því sem ég hef séð hefur líka verið með ótrúlegra móti og stundum virðist vera alveg út í hött að á sumum stöðum hafi búið fólk nýverið. En töluð orð eru eitt en það sem augað sér er annað. Hið síðarnefnda má yfirleitt festa í flögu svo ekki verði það hrakið með góðu móti og slíkt hefur líka oftar en ekki verið gert.
Skápapláss sem þarfnast aðhlynningar.
En það sem ég vildi sagt hafa er að ýmsir hafa fundið á síðustu tímum alveg nýja gullnámu á Íslandinu góða, þ.e. innflytjendur sem hingað koma í atvinnuleit. Allir þurfa þak yfir höfuðið hvers lenskir sem þeir eru og því hafa líka bæði margir og misjafnir áttað sig á. Með auknum straumi innflytjenda hefur eftirspurn að eðlilegum ástæðum farið vaxandi og leiguverð því rokið upp. En gæðakröfur til húsnæðisins hafa hins vegar farið minnkandi í réttu hlutfalli við það sem kalla mætti vaxandi "framboðsþurrð." Þetta er auðvitað bara gamla lögmálið um framboðið og eftirspurnina sem síðan ræður verðinu. En fleiri og fleiri dæmi koma upp þar sem augljóst er að græðgisjónamið eru ríkjandi, menn fara fram úr sjálfum sér og misnota sér ástandið oft með óbilgjörnum hætti. Og í þessu gullgrafaraæði hefur smátt og smátt orðið hugarfarsbreyting hjá vissum hópi. Ótrúlegasta fólk verður samdauna hugsunarhætti þrælakistueigandans og fer að finnast misnotkunin hið eðlilegasta mál.
Dæmi um ástand rafkerfis.
Og það sem ég vildi líka sagt hafa er meðal annars eftirfarandi. Ég var staddur á húsfundi húsfélags í miðbænum í Reykjavík og gaf mig á tal við einn fundarmanna. Hann sagði mér að hann leigði einungis Tælendingum herbergi "eða þannig."
Ég spurði hann hver væri prísinn á eins og einu herbergi "eða þannig."
"Ja, ég leigi eiginlega kojuna á þrjátíu kall."
Ég komst síðar á snoðir um að hvert herbergi er um 8 - 12 fermetrar og undantekningalítið er tvímennt í hvert þeirra. Ræður síðan sá leigutaki sem á undan er engu um hver verður hans eða hennar herbergisfélagi.
Séð inn í eldhússkáp.
Og svo vildi ég bæta því við að ég var að gera tilboð í íbúð sem lýst hafði verið sem allt að því ónýtri.
"Og hvað ætlarðu svo að gera við slotið" spurði fasteignasalinn.
Ég sagði honum að ég myndi líklega rífa allt og tæta og endurbyggja hana síðan að mestu.
"Viltu ekki skella þessu beint í leigu?"
Ég hélt fyrst að hann væri að gera grín að mér en hann hélt áfram grafalvarlegur í bragði.
"Þetta er alveg nógu gott fyrir Pólverja."