27.03.2008 09:00
Fyrir sléttum þrjátíu árum.
461. Um páskanna þegar ég staldraði við í heila viku á Sigló, gaf ég mér meðal annars góðan tíma til að gramsa í gömlu dóti sem hefur verið ofan í pappakössum í einn eða tvo áratugi. Margt af því sem í kössunum var kom skemmtilega á óvart, því það hefur verið meira og minna gleymt lengst af þeim tíma sem liðinn er síðan því var pakkað niður. T.a.m. koppurinn og snjóþotuöndin hans Ingvars, He-man dótið hans Leó Inga, Dagbók frá Maríönnu og Legokubbarnir hans Hauks. Þarna var líka mikið af gömlum myndum frá afa og ömmu síðan nokkru fyrir miðja síðustu öld, en einnig talsvert af misvelförnum ljósmyndum frá sjálfum mér. Það er ekki mikill vandi að gleyma sér yfir svona löguðu, en hér má sjá Rússajeppann sem kom alkeðjaður upp úr einum kassanum og ég átti fyrir sléttum þrjátíu árum í sérlega eðlilegu umhverfi. Á þessum tíma snjóaði mun meira á Siglufirði en gerist hin síðari ár, eða alla vega er það þannig í minningunni. Ég tel að myndin renni styrkum stoðum undir þá skoðun mína, en hún er tekin á nýruddri Hverfisgötunni eftir nokkurra daga samfellda snjókomu. Í neðra hægra horninu má svo sjá hvar slóðin liggur upp á Háveginn, en hún kom þar upp fyrir neðan "Lákahúsið" og á milli þar sem núna búa Magga Vals og Óli Kára.