17.04.2008 07:32

Ég er fíkill.



465. Ég er forfallinn sælgætisfíkill, en aðallega þó veikur fyrir súkkulaði. Þegar litið er til baka sést hversu undarlega kaflaskipt lífið getur verið. Það sem ég taldi að alls ekki gæti komið til einn daginn, beinlínis hrynur ofan í hausinn á manni þann næsta svo rækilega að engum vörnum verður við komið. Nákvæmlega þann 4. desember 2007 skömmu eftir að ég vaknaði datt ég í það. Það var eins og ég hefði hnotið um einhverja ójöfnu á lífsins göngu og steypst á höfuðið beint ofan í djúpan súkkulaðipytt. Framan af tók ég þessu frekar létt og sagði öllum sem heyra vildu að ég væri kominn á Ritter-sport kúrinn. Sumir hváðu og spurðu hvort þetta væri einhver nýr megrunarkúr og ég svaraði þá að bragði að vissulega hefði hann með þyngdarstjórnun að gera.
-
En þetta var bara byrjunin.




Þegar farið var í verslunarleiðangra vikurnar eftir að Ritter-sport kúrinn kom til, fór að bera á að nokkuð f frjálslega væri lesið á milli línanna á innkaupalistanum. Þetta jókst smátt og smátt og náði svo hámarki í síðasta mánuði. Það var alls staðar til sælgæti í allgóðu úrvali, heima, í bílnum og á vinnustað.



Fyrir jólin var Engilsaxneskt og konunglegt sælgæti boðið á fádæma góðu tilboði bæði í Bónus og Krónunni. 3.9 kg dunkur eins og sést hér að ofan var á aðeins 1.890 kr. Því má bæta við að 1.7 kg. var ekki nema 20 kr. ódýrari svo ég þurfti ekki að velta mikið vöngum yfir því hvora stærðina rétt væri að fjárfesta í. Ég stakk upp á að kaupa svona nammi og eiga, ef svo óheppilega og reyndar einnig ótrúlega vildi til að eitthver hefði gleymst og það vantaði hreinlega einn pakka eða þannig. En vissulega var jú hugsanlegt að einhver droppaði óvænt inn með eitthvað utan dagskrárefni og þá var gott að vera við öllu búinn. Annað eins hefur nú gerst og það oftar en einu sinni það ég man. Og svo var nú líka allt í lagi að kaupa annan svona dunk fyrir okkur heimilisfólkið eða hvað? Tillagan var samþykkt með "öllum" greiddum atkvæðum, en það er skemmst frá því að segja að ég át upp úr þeim báðum og svo gott sem hjálparlaust. Þeir voru lengst af staðsettir á náttborðinu eða við tölvuborðið þar til allur botninn varð vel og greinilega sýnilegur en ég auðvitað rétt að vekja athygli á hvað þetta voru frábær ílát undir smákökurnar um næstu jól. Annar hvarf síðustu dagana fyrir jól, en hinn entist fram yfir áramótin. Sömu örlög hlutu einnig þrír konfektkassar sem okkur bárust í glitrandi fallegum umbúðum með slaufu og korti. - Ég át þá líka.



Mælaborðið á bílnum var notað undir ferðasælgætislagerinn og þess var vandlega gætt að birgðastaðan væri alltaf viðunandi. En þarna varð oft mjög hlýtt og jafnvel full notalegt fyrir hinar umræddu sykurauðguðu kakóafurðir í litríku neytendaumbúðunum, því miðstöðin blés auðvitað heitu lofti upp á framrúðuna því það var nú einu sinni hávetur. Það varð svo til þess að súkkulaðið varð stundum lint og fljótandi, en það hafði aftur á móti þann ótvíræða kost að það var hægt að drekka það beint úr bréfinu og þannig komast yfir talsvert meira magn á hvern ekinn kílómetra.



En svo tæmdust umbúðirnar og það þurfti að fara í tiltekt, en svo var fyllt á aftur.



Hólfin innan á hurðinni fylltust líka mjög fljótt af tómum sælgætisbréfum.



Á Hallveigarstígnum  var líka alltaf eitthvað til innan um verkfæri og byggingarefni.



Einu sinni þegar ég kom inn í Bónus á Völlunum var heilt bretti af Möndlukökum við dyrnar og kostuðu þær aðeins 99 kr. stykkið. Ég keypti fimm en það voru bara tvær eftir þegar ég loksins gaf mér tíma til að taka myndina. 



En nýverið fór ég til doksa því ég var eitthvað undarlegur undanfarið sem er auðvitað ekkert nýtt. Hann sendi mig m.a. í blóðprufu og þremur dögum síðar hringdi síminn.
"Það er allt gott að segja af þessari prufu, NEMA..." - Og þá kom sjokkið eða ætti ég kannski heldur að segja sykursjokkið.
"Þú ert kominn með 7.1 í blóðsykri og nú verður að stíga fast á bremsuna karlinn minn, því annars gæti verið stutt í stórvandamál sem illa verður ráðið við."

Ég hef því alfarið skipt yfir í sykurlausan Opal, alla vega í bili.

Í dag (föstudag) ætla ég að skreppa á heimaslóðir yfir helgina, en það verður líklega að mestu leiti sykurskert fóður á borðum.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495825
Samtals gestir: 54720
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:42:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni