24.04.2008 11:29

Um Kína.










268. Þessi færsla er tileinkuð hinum illu harðstjórum í Kína
fyrr og nú, Ólympíuleikunum 2008, sleikjuskap og undilægjuhætti þeirra sem þykjast vera fulltrúar frelsis og lýðræðis, en hafa svo enga alvöru sannfæringu ef von er um fjárhagslegan ávinning og síðast en ekki síst minningu stúdentanna sem létu lífið í fjöldamorðum 4. júní 1989.
Einnig ráðamönnum þeirra þjóða sem tala tungum tveim og setja viðskiptalega hagsmuni ofar kröfunni um mannréttindi. Þeim sem hrópa hátt um réttlæti á jörð, krossa sig í bak og fyrir og mæta að hætti hræsnarans reglulega til kirkju og gefa smáaura í samskotabaukinn. Þeim hinum sömu sem telja sig jafnvel vera lögreglu alheimsins en koma öðruvísi fram gagnvart ríkjum þar sem markaðir eru minni og skipta þess vegna litlu máli í augum þjóns Mammons sem setur dollarann og evruna í hásætið en sannfæringuna, réttlætið og siðferðið skör neðar.



Hún var á þessari línu hugljómunin sem varð til þess að ég setti saman lag og ljóð um ástandið í fjölmennasta ríki heims. Ég fékk harðsnúið úrvalslið til að aðstoða mig og upptaka var gerð í gamla Hljóðrita í Hafnarfirði. Það voru þeir Sigurgeir Sigmundsson (Start, Gildran, Popps o.fl.) gítar, Jóhann Ásmundsson (Mezzoforte o.fl.) bassi, Ásgeir Óskarsson (Icecross, Stuðmenn, Þursaflokkur o.fl.) trommur og upptökumaður var Birgir Jóhann Birgisson. Sjálfur spilaði ég á ýmis hljómborð, söng aðalrödd og allar milliraddir. Þrátt fyrir að ég væri ekkert ókátur með útkomuna, var aldrei gert neitt meira með afurðina og hún hefur safnað ryki í þau ca. 5 ár sem liðin eru frá hljóðritun hennar.



Hér að neðan er texti lagsins, þá slóðin á lagið, umfjöllun um mótmælin á torginu, þróun Kínverskra stjórnmála í tæpa hálfa öld og menningarbyltinguna svonefndu.

Á torgi hins himneska friðar.
Hann Maó formaður menningarbyltingu leiddi,
og milljónir manna limlesti hann og deyddi.
Skásettu augun þau ljómuðu, landsmenn þeir sungu,
lofsöngva Maó til heiðurs á kínverskri tungu. 

Valdhafinn mikli sem vinnandi stéttirnar leiðir,
hann verndar og þjónar, úr hugsanavillunum greiðir.
Hvort Tíbet er eða Taíwan, auðmýkt skal sýna,
svo takmarkalausa, í öllum "héruðum" Kína. 

En ungliðar andfélagslegir að mótmælum valdir,
til endurskoðunarsinna voru þeir taldir.
Byssurnar gelta og brátt gengur sólin til viðar,
og blóðið það rennur á torgi hins himneska friðar.

Vesturlönd mótmæltu formlega harðstjórans verki,
þau varðhundar sannleika og lýðræðis rísandi merki.
Harðsnúna, beinskeytta, sérlega sendimenn sína,
þá sendu til viðræðna um alvarlegt ástand í Kína.

Ef viðskiptasamninga við getum undirritað,
og verslunin hún gengur vel, þá enginn fær vitað,
að skoðanir vorar þær skulu þá víkja til hliðar,
og skítt með blóðið á torgi hins himneska friðar. 

Ef hagsæld og framfarir fólkið í landinu þráir,
það fellur ei lengur í stafi og valdhafann dáir.
Þá alþýðulýðveldishugsjón skal ýta til hliðar,
og úthella blóði á torgi hins himneska friðar.

Smeltu á... http://cs-002.123.is/StreamVideo.aspx?id=354911bc-8725-4e82-b49d-b8861b964ffb
smelltu á "open" og hlustaðu á lagið.



Hvað fólst í menningarbyltingunni í Kína?
Hugtakið menningarbylting er oft notað sem samheiti yfir ólguskeið í Kína á árunum 1966-1969, sem einkenndist af uppgangi róttækra stefna. Þær áttu það sammerkt að vera stefnt gegn viðteknum menningarlegum og pólitískum gildum og var mikil áhersla lögð á virkni alþýðunnar í að varpa af sér oki yfirstéttar. Að lokum fjaraði menningarbyltingin hins vegar út og var að mörgu leyti horfið til fyrri hátta í stjórn- og menningarmálum.

Forsaga byltingarinnar
Orsaka menningarbyltingarinnar í Kína er að leita í hugmyndum Mao Zedong (1893-1976) sem var formaður kínverska Kommúnistaflokksins 1934-1976. Mao gerði mikið úr þætti bænda sem byltingarafls og var því byltingin í Kína að mörgu leyti gerð undir öðrum formerkjum en rússneska byltingin 1917.

Eftir að valdaeinokun Kommúnistaflokksins var komið á í Kína árið 1949 kom með tíð og tíma upp togstreita milli forystumanna. Sumir þeirra vildu efla hagvöxt og stöðugleika í hinu nýja ríki, undir styrkri leiðsögn Kommúnistaflokksins. Í þeim hópi voru meðal annarra Liu Shaoqi (1898-1969) og Deng Xiaoping (1904-1997). Gegn þeim stóð Mao formaður sem taldi að byltingunni væri ekki lokið þótt Kommúnistaflokkurinn væri kominn til valda.

Í fyrsta lagi taldi Mao Zedong að Kína ætti á hættu að þróast í sömu átt og Sovétríkin þar sem völdin væru í höndum flokksins og nýrrar stéttar embættismanna. Slík stétt hafði að mati Maos svipuð tengsl við alþýðu manna og auðstéttin við verkamenn í kapítalískum samfélögum. Mao boðaði að færa þyrfti völdin úr höndum hinnar nýju yfirstéttar og til fólksins, fyrst og fremst með því að virkja ungt fólk innan stúdentahreyfinga, hina svokölluðu "rauðu varðliða". Þessi þáttur í hugmyndafræði byltingarinnar náði áheyrn víða um heim, og ýmsar hreyfingar í anda hennar voru stofnaðar á 8. áratug síðustu aldar. Meðal þeirra eru til dæmis skæruliðahreyfingar í Nepal og Perú. Sárafáar slíkar hreyfingar nutu þó stuðnings kínverskra stjórnvalda, hvort sem var í orði eða verki.
 

öðru lagi gagnrýndi Mao mennta- og heilbrigðiskerfi landsins sem væri um of miðað við hina best settu en ekki þarfir bændaalþýðunnar. Líkt og margir aðrir kínverskir menntamenn af hans kynslóð aðhylltist Mao kenningar bandaríska heimspekingsins John Dewey (1860-1952) um að menntun ætti að snúast um framleiðslu og lausnir á vandamálum fremur en klassískan lærdóm sem viðhéldi ríkjandi menningu.

Upphaf byltingarinnar
Menningarbyltingin hófst með harðri gagnrýni á borgarstjórann í Beijing, Peng Zhen (1902-1997). Einn aðstoðarmanna hans hafði samið leikrit um embættismann á Ming-tímanum (Hai Rui Ba Guan) sem skilja mátti sem gagnrýni á Mao. Leikritinu var svarað með óvæginni gagnrýni í blaði hersins í árslok 1965. Greinin var samin af Yao Wenyuan (f. 1931), Zhang Chunqiao (1917-2005) og Jiang Qing (1914-1991), eiginkonu Maos. Peng Zhen varð að draga sig í hlé en gagnrýni hinna róttæku beindist fljótlega að öðrum forystumönnum flokksins, þar á meðal Liu Shaoqi og Deng Xiaoping. Þeir höfðu sjálfir skipulagt "hófsamar" stúdentahreyfingar sem voru undir handleiðslu flokksins. Þeir Shaoqi og Xiaoping voru beittir harðræði af hendi rauðu varðliðanna sem talið er að hafi flýtt fyrir láti hins fyrrnefnda. Þá lamaðist sonur Deng Xiaoping þegar honum var varpað út um glugga.

Framvinda byltingarinnar
Eftir nokkra baráttu tóku róttæklingar völdin í Shanghai í janúar 1967 og stofnuðu kommúnu í stað borgarstjórnar. Kommúnan lognaðist út þar sem Mao og aðrir forsvarsmenn menningarbyltingarinnar í Beijing voru ekki tilbúnir að fallast á róttækar kröfur hennar. Hið sama gerðist í borgum víðs vegar um Kína. Stuðningur Maos við róttækustu öfl menningarbyltingarinnar virðist því hafa verið hálfvolgur og hafa ýmsir fræðimenn gert því skóna að hann hafi einungis hugsað sér hana sem tæki til að efla tök sín á Kommúnistaflokknum. Á hinn bóginn er ljóst að margar kröfur og aðgerðir róttæklinganna voru langt umfram það sem Mao hafði nokkru sinni boðað. Enda þótt Mao hafi hrint menningarbyltingunni af stað virðist hann hafa haft takmörkuð áhrif á þróun hennar.

Herinn studdi róttæklingana fyrst í stað enda hafði leiðtogi hersins, Lin Biao (1907-1971), unnið mikið starf til að breiða út kenningar Maos. Ýtt var undir persónudýrkun á Mao, meðal annars með útgáfu Rauða kversins sem dreift var í fjölda eintaka. Á hinn bóginn höfðu ráðamenn hersins áhyggjur af því stjórnleysi og ofbeldi sem fylgdi framgangi rauðu varðliðanna. Vorið 1967 tók herinn að sér að leysa með valdi upp róttækustu stúdentahreyfingarnar og koma víða til bardaga, einna skæðastra í borginni Wuhan við Yangzi-fljót. Um haustið fékk herinn svo skipun um að koma á "lögum og reglu" í landinu. Töluvert mannfall varð í aðgerðum hersins gegn rauðu varðliðunum, mest sumarið 1968 þegar barist var í háskólanum í Beijing. Var þá menningarbyltingunni í raun og veru lokið þótt eftirhreytur hennar hafi lifað innan stjórnkerfisins til 1976.

Eftirköst byltingarinnar
Á meðan menningarbyltingin stóð sem hæst hafði Kommúnistaflokkur Kína verið lítt starfhæfur en forystuhlutverk hans var endurreist 1969. Nokkrir af leiðtogum menningarbyltingarinnar, einkum þeir sem næst stóðu Mao formanni, fengu stöður innan flokksins til að vega upp á móti áhrifum hinna sem voru hægfara. Lin Biao fórst í flugslysi 1971 og virðist hafa verið á flótta til Sovétríkjanna. Eftir það jókst vægi hinna hófsamari afla innan stjórnkerfisins, einkum forsætisráðherrans Zhou Enlai (1898-1976).

Á tímabili virðist Mao hafa ætlað að gera verkalýðsleiðtogann Wang Hongwen (1935-1992) að eftirmanni sínum en féll frá því og endurreisti Deng Xiaoping sem einn af leiðtogum flokksins árið 1973. Deng féll aftur í ónáð vorið 1976 og gerði Mao þá Hua Guofeng (f. 1920) að arftaka sínum. Eftir fráfall Maos í september 1976 var hinni svokölluðu "fjórmenningaklíku", Jiang Qing, Zhang Chunqiao, Yao Wenyuan og Wang Hongwen, ýtt til hliðar af Hua Guofeng og Deng Xiaoping, sem fljótlega varð æðsti maður Kína. Hann hafði svipaðar áherslur og áður; hagvöxtur, hægfara þróun til sósíalisma og forystuhlutverk Kommúnistaflokksins urðu helstu stoðir kínverskra stjórnmála og hefur svo verið frá 1976.

Gert var upp við menningarbyltinguna með sýndarréttarhöldum yfir fjórmenningaklíkunni sem leidd var fyrir rétt ásamt fimm fyrrverandi forystumönnum flokksins. Þar var hún sökuð um tilraunir til valdaráns, morðtilræði við Mao Zedong og dráp á 34.000 manns. Voru sakborningarnir dæmdir í langa fangavist en Jiang Qing og Zhang Chunqiao til dauða. Jiang Qing framdi sjálfsmorð í fangelsi en Zhang Chunqiao var látinn laus vegna heilsubrests 2002. Jafnframt var staða Mao Zedong endurmetin og honum eignuð "mistök" í þeim málum þar sem stefna hans vék frá hugmyndum Deng Xiaoping.

Horft til baka
Í vestrænum fjölmiðlum frá þessum tíma (nánar tiltekið fréttatilkynningu Agence France Press frá 1979) var því haldið fram að 400.000 manns hefðu látist vegna menningarbyltingarinnar. Engin sundurgreining hefur þó fengist á þeim tölum og margt er óljóst um umfang mannfalls í byltingunni. Ljóst er að verulegur hluti af því var í bardögum þegar herinn barði niður róttækustu öfl byltingarinnar, enda þótt núverandi valdhafar í Kína haldi fremur á lofti því ofbeldi sem margir leiðtogar Kommúnistaflokksins voru beittir.

Einnig er ljóst að mikil eyðilegging fornminja og menningarverðmæta átti sér stað í baráttunni gegn "gamaldags hugsun". Almennt er talað um stöðnun í menntamálum í Kína á þessum tíma og lítið gert úr hugmyndum um "endurmenntun" fólks sem sent var út í sveitir til að kynnast nánar störfum bændaalþýðunnar. Forsvarsmenn menningarbyltingarinnar börðust gegn fornum kínverskum menningararfi, svo sem kenningum Konfúsíusar (551-479 f.Kr.), sem þeir töldu að ýttu undir íhaldssemi og staðið framþróun í Kína fyrir þrifum. Baráttan gegn Konfúsíusi var þó einkum áberandi eftir að upplausnarskeiðinu lauk á 8. áratugnum. Síðar hefur hagur Konfúsíusar vænkað og hann er mikils metinn af núverandi ráðamönnum í Kína.

Áhrifa menningarbyltingarinnar gætir enn, til að mynda hjá mörgum sem kenna sig við Maóisma. Maóistar vísa ennþá í hugmyndafræði menningarbyltingarinnar, ekki síst greinina "
Beiting alræðis yfir borgarastéttinni" eftir Zhang Chunqiao
Höfundur er Sverrir Jakobsson.













Fyrir hverju var barist í stúdentamótmælunum á Torgi hins himneska friðar og hvernig brást stjórnin við?
Segja mætti að Torg hins himneska friðar (Tian'anmen square) sé nokkurt rangnefni, þar sem Tian'anmen merkir í raun 'Hlið hins himneska friðar'. Átt er við hliðið milli torgsins og gömlu keisarahallarinnar í Peking í Alþýðulýðveldinu Kína sem gengur gjarnan undir nafninu 'Forboðna höllin' eða 'Forboðna borgin' (e. forbidden palace, forbidden city). Torgið er kennt við þetta hlið sem upphaflega var byggt árið 1417 á tímum Ming-keisaraættarinnar (1368-1644). Torgið er mun yngra eða frá upphafi 20. aldar. Síðan þá hefur það verið áberandi kennileiti í borginni sem og svið ýmissa mikilvægra atburða, seinast umræddra stúdentamótmæla vorið og sumarið 1989. 

Skömmu eftir fráfall Maos Zedongs (1893-1976), formanns kínverska kommúnistaflokksins, komst Deng Xiaoping (k. ???, 1904-1997) til valda í Kína og hóf efnahagslegar umbætur í landinu. Mörgum menntamönnum þótti samt sem áður að umbótum á efnahagskerfi hafi ekki fylgt umbætur á pólitísku frelsi (eins og Glasnost Gorbachevs í Sovétríkjunum). Þrátt fyrir hina nýju stefnu kommúnistaflokksins höfðu efnahagslegar aðstæður menntastétta heldur ekki batnað jafn mikið og bænda og verkamanna. Sumum fannst enn fremur að umbótastefna Dengs Xiaopings væri of langt gengin og hefði í för með sér atvinnuleysi, verðbólgu og annað ójafnvægi.

Útför hins umbótasinnaða Hus Yaobangs (k.
???) um vorið 1989 varð svo upphaf mótmælanna sem snérust fyrst og fremst um lýðræðislegar umbætur og aukið pólitískt frelsi. Eftir að fréttir um mótmælin og átök mótmælenda við lögreglu voru birtar jókst umfang þeirra mjög og samúðarmótmælafundir voru haldnir víða í Alþýðulýðveldinu Kína sem og í Hong Kong (þá breskt verndarsvæði) og Taívan (sæti Kínverska lýðveldisins síðan 1949).
 

byrjun maí voru yfir 100.000 mótmælendur á torginu, hungurverkföll höfðu hafist og háskólalóðir og götur Peking voru yfirfullar af mótmælendum sem flestir komu úr röðum stúdenta. Að lokum gripu stjórnvöld til þess ráðs að lýsa yfir herlögum þann 20. maí og herdeildir hófu inngöngu í Peking. 3. júní var hafin atlaga að mótmælendum á torginu og næsta dag hafði torgið verið rutt og ekkert bólaði á mótmælendum. Hversu mikið mannfall varð á torginu og annars staðar í Peking er óljóst og mjög umdeilt.

Viðbrögð kínverskra stjórnvalda hafa verið mikið gagnrýnd og voru sannarlega hörkuleg. Eftir áratuga langa harmasögu Kína á 20. öld er samt svo til ógerlegt að átta sig á öllum staðreyndum og varasamt að trúa neinni einni heimild þar sem flestar koma heimildirnar frá aðilum sem hafa pólitískra hagsmuna að gæta. Umræða um atvikið í Alþýðulýðveldinu í dag er lítil, en þó meiri en fyrstu árin á eftir. Almennt virðast viðbrögð stjórnvalda hafa orðið til þess að opinber stjórnmálaþátttaka af þessu tagi er sjaldgæf meðal kínverskra borgara. Þó ber að benda á að frá tímum stúdentamótmælanna hafa orðið miklar framfarir í Alþýðulýðveldinu Kína, ekki aðeins stórkostlegar framfarir á sviði efnahagsmála og aukin lífsgæði heldur einnig nokkrar umbætur á mannréttindum.
Höfundur er Jón Egill Eyþórsson. 



FJÖLDAMORÐIN Í PEKING.
(Morg
unblaðið þriðjudaginn 6. júní 1989.)
Torg hins himneska friðar blóði drifinn vígvöllur.
Óstaðfestar fréttir herma að allt að 7.000 manns hafi verið myrtir Peking. Skriðdrekar óku um götur í miðborg Peking snemma í gærdag að kínverskum tíma. Skothvellir kváðu við og eldar loguðu í strætisvögnum og farartálmum sem námsmenn og stuðningsmenn þeirra höfðu reist til að hindra árás hermanna sem talin var yfirvofandi. Slagorð höfðu verið máluð á strætisvagnanna áður en eldur var lagður að þeim og á einum þeirra sagði "Hefnum blóðbaðsins 4. júní". Tæpum sólarhring áður höfðu kínverskir hermenn gráir fyrir járnum og studdirskriðdrekum látið til skarar skríða gegn umbótasinnum, sem haldið hafa til á Torgi hins himneska friðar í miðborg Peking undanfarnar vikur og krafist lýðræðis og upprætingu spillingar í landinu. Án sýnilegstilefnis hófu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum skothríð á fólkið á torginu.

Blóðbaðið var óskaplegt en fréttir herma að 3.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er fjöldamorðin voru framin. Stjórnvöld hafa enn ekki skýrt frá því hversu margir féllu, en erlendir sendimenn telja að a.m.k. eitt þúsund manns hafi verið myrtir á Torgi hins himneska friðar og í nærliggjandi götum. Aðrar heimildir herma að talan sé mun hærri. Fréttaritari Reuters-fréttastofunnar í Peking kvaðst í gær hafa heyrt óstaðfestar fregnir þess efnis að 7.000 manns hefðu verið myrtir á laugardag. Dagblað hersins í Kína lýsti árásinni sem miklum sigri yfir "gagn byltingarmönnum".

Fjöldamorðin voru framin á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma en fyrstu fréttir af atburðum þessum bárust til Vesturlanda um klukkan 16 að íslenskum tíma á laugardag. Að sögn sjónarvotta hófst árás hersins klukkan 4 á aðfaranótt sunnudags að kínverskum tíma.

Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja "Internationalinn", baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Umleið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp.

Í fréttaskeytum Reuters-frétta stofunnar segir að talið sé að 6.000 til 7.000 manns hafi verið á torginu er herliðið hóf skothríð. Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirtum hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum. Fólkið hrópaði: "glæpa menn, glæpamenn". Skipulögð fjöldamorð hafa ekki verið framin í Peking með þessum hætti í þau 40 ár sem kommúnistar hafa ráðið ríkjum í Kína.

Fótum fjör að launa.
Um klukkan 5.30 að kínverskum tíma birtust sex skriðdrekar og óku þeir yfir farartálmana í átt að torginu. Að sögn Grahams Hutchings, fréttaritara breska dagblaðsins The Daily Telegraph í Peking, lögðu þúsundir manna á flótta er bryndrekarn ir birtust. Sjálfur átti hann fótum fjör að launa. Fólkið hljóp inn í hliðargötur en skriðdrekarnir fylgdu á eftir. Ærandi vélbyssuskothríð kvað við og eldglæringarnar úr byssuhlaupunum sáust greinilega í myrkrinu.

Skriðdrekarnir óku í röð að torginu og komu inn á það úr austri en áður höfðu hermenn haldið inn á torgið úr norðri og vestri. Fréttaritari The Daily Telegraph telur að þá hafi um 3.000 umbótasinnar verið á torginu. Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið. Um 15 brynvarðir liðsflutningavagnar fylgdu skriðdrekunum. Einn skriðdrekinn ók á fullri ferð að eftirlíkingu að bandarísku Frelsisstyttunni, sem námsmenn höfðu komið upp á torginu. Styttan, sem gerð var af listnemum í Peking-háskóla og kölluð "Lýðræðisstyttan" féll til jarðar og tættist í sundur undir járnbeltum skriðdrekans.

Hollir forsetanum.
Talið er að herliðið sem framdi fjöldamorðin heyri undir 27. herinn en hann er að jafnaði staðsettur í Hubei-héraði í miðhluta landsins. Herinn er sagður vel þjálfaður og agaður en hann er talinn hollur Yang Shangkun, forseta Kína. Vitað er að Yang sem er 82 ára að aldri hvatti til þess að mótmæli námsmanna yrðu barin niður af fullri hörku og virðist svo sem hann hafi nú náð að treysta stöðu sína innan valdakerfisins. Hugsanlegt er talið að hann komi til með að berjast um völdin við Deng Xiaoping, hinn eiginlega leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins.
(Reuter)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481056
Samtals gestir: 53318
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:33:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni