03.06.2008 09:04

Ferðin á Klaustur, gangan á Lómagnúp og Fjaðrárgljúfur..

477. Föstudaginn 30. maí var haldið austur á Krkjubæjarklaustur og tilgangur þeirrar ferðar var fyrst og fremst að príla upp á hið tignarlega fjall Lómagnúp. En auðvitað var inni í myndinni að skoða það sem fyrir augu bar í þessari fallegu sveit því þar er vissulega margt að sjá. Ég vissi svo sem ekkert hvað ég var að fara út í þegar lagt var upp, en nú liggur það fyrir að líklega hef ég aldrei komið þreyttari heim eftir fjallapríl. Maggi Guðbrands var eins og svo oft áður minn helsti hvatamaður að ferðalaginu og bauð mér gistingu í tjaldvagninum sínum sem var eitt þeirra atriða sem réði úrslitum þegar að ákvarðanatöku kom. En það var gist á tjaldstæðinu að Klaustri og ég hef aldrei átt tjald eða ferðahíbýli af nokkru tagi. Ég hafði ætlað að vera duglegur um helgina og klára þakið á geymslunni á Hallveigarstígnum sem ég er að endurbyggja, en þegar það var sýnt að ég fengi ekki þakjárnið í tæka tíð sem ég hafði þó pantað með ágætum fyrirvara var þar komið annað lóð á Lómagnúpsvogarskálina. Ég skellti mér af stað og var kominn austur upp úr miðnætti.



Morguninn eftir var súld og þoka. Ferðinni var frestað til hádegis svo ég fékk mér bíltúr niður í Meðallandið. Þar bar þessa kirkju við himinn en mér finnst eitthvað kindarlegt við myndina. 




Það var ýmislegt að sjá í Meðallandinu, en ég hafði ekki farið vítt yfir þegar síminn hringdi. Það átti að ganga um í kring um Systrafoss og skoða næsta nágrenni hans.



Systrafoss.

Kirkjubæjarlaustur er austur á Síðu í Skaftafellssýslu. Landnáma getur þess að þar hafi búið Papar, þ. e. kristnir menn áður en Ísland byggðist af Norðmönnum. Svo mikil helgi var þegar í landnámstíð á þessum stað að því var trúað að þar mættu ekki heiðnir menn búa, enda vildi svo vel til að Ketill fíflski sem nam þar land og tók sér bólfestu í Kirkjubæ var maður kristinn.
En eftir Ketil andaðan vildi heiðinn maður sem Hildir hét færa þangað byggð sína og trúði því ekki að þar mætti ekki heiðinn maður búa. Þegar hann var kominn að túngarðinum varð hann bráðkvaddur og liggur í Hildishaugi sem er austur frá Kirkjubæ, en hann er nú orðinn mjög blásinn og hefur sést frá klaustrinu þaðan sem það var áður. Þar heita nú Fornugarðar.
Í Kirkjubæ var sett nunnuklaustur árið 1186.

Fyrir ofan Kirkjubæ er fjallshlíð fögur og grasi vaxin upp undir eggjar sem eru víðast manngengar þó bratt sé. Uppi á fjalli þessu er graslendi mikið og fagurt umhverfis stöðuvatn eitt sem kallað er Systravatn af því nunnur tvær frá klaustrinu áttu að hafa lagt þangað leiðir sínar, annaðhvort báðar saman eða sín í hvoru lagi.
Sagt er að gullkambur óvenju fallegur var réttur upp úr vatninu og fór önnur fyrst að reyna að vaða eftir honum, en vatnið varð henni of djúpt og fórst hún í því.
Hina langaði einnig til að eignast kambinn, en sá ekki nein ráð til þess. Loksins kom hún auga á steingráan hest hjá vatninu og ræður það af að taka hann og ríða honum, en hann var svo stórvaxinn að hún komst ekki á bak honum fyrr en hann lækkaði sig allan að framan eða lagði sig á knén. Reið hún honum svo út í vatnið og hefur ekkert af þessu sést síðan, hvorki nunnan, hesturinn né kamburinn. Af þessu er vatnið kallað Systravatn. Mun þarna hafa verið Nykur á ferð en ekki hestur.

Meðan Agatha Helgadóttir var abbadís á Kirkjubæjarklaustri gerðust þar ýmsir hlutir undarlegir.
1336 heyrðust langan tíma sumarsins stunur miklar í svefnhússgólfi og borðstofugólfi á Kirkjubæ; en ekkert fannst þó að væri leitað.
Árið sama og Agatha dó, 1343, kom út Jón Sigurðsson austur í Reyðarfirði með biskupsvígslu og byrjaði þaðan vísitasíu sína vestur um land sunnan megin og kom í þeirri ferð sinni að Kirkjubæ. Var þar þá brennd systir ein sem Katrín hét fyrir guðleysi og fleiri þungar sakir sem á hana voru bornar og sannaðar. Fyrst sú að hún hefði bréflega veðdregið sig djöflinum, annað það að hún hefði misfarið með Krists líkama (vígt brauð) og snarað aftur um náðhússdyr, það hið þriðja að hún hefði lagst með mörgum leikmanni og var það því dæmt að hana skyldi brenna kvika.
Sumir segja að það hafi verið tvær systur sem þá hafi verið brenndar, hin fyrir það að hún hafi hallmælt páfanum eða ekki þótt tala nógu virðulega um hann og því hafi hún verið brennd með Katrínu.

Skaftá rennur rétt hjá Kirkjubæ og stendur einstakur steindrangur þverhníptur upp fyrir vestan hana og er aðeins einstigi upp á hann einumegin. Efst á honum er slétt flöt lítil og tvær þúfur á flötinni, og segja menn að þær þúfur séu leiði þeirra systra og þar hafi þær brenndar verið og sé önnur þúfan sígræn, en hin grænki aldrei, en á henni vex þyrnir. Af þessu er drangurinn kallaður Systrastapi.

Meðan nunnuklaustrið var í Kirkjubæ var því samtíða munkaklaustur á Þykkvabæ í Álftaveri og er ekki lengra á milli en 1 1/4 mílu vegar þegar beint er farið, en á milli Síðunnar og Álftaversins rennur Skaftá sem kunnugt er. Á ánni var brú í fornöld og lá sú kvöð á Kirkjubæjarklaustri að viðhalda henni og því var rekafjara lögð til klaustursins sem enn heitir Brúarfjara. Seinna á öldum braut brúna af, en þar sem hún hafði verið á ánni heitir enn Brúarhlað og er þar nú almenningsvað á Skaftá.
Það er sagt að oft hafi ábótinn og munkarnir úr Þykkvabæ farið í Kirkjubæ að hitta abbadísina og systurnar og var það hægt í högum meðan brúin var á Skaftá. En á þeirri leið fyrir sunnan eða vestan ána heitir Sönghóll. Þaðan sér fyrst heim að Kirkjubæ þegar sú leið er farin. Þegar munkarnir komu á þenna hól hófu þeir allajafna upp söng svo mikinn að heyrðist heim að klaustrinu og af því dregur hóllinn nafn enn í dag. Þegar söngurinn heyrðist heim að Kirkjubæ lét abbadísin hringja klukkum, en gekk sjálf með öllum systrunum í móti ábótanum og munkunum niður að Skaftá. Þar eru nú sandgígar eintómir og heitir það svæði Glennarar.
Mikið var jafnan um dýrðir í Kirkjubæ þegar Þykkbæingar voru þar komnir og aldrei þótti systrunum jafngóð ævi sín sem þá. En snemma lagðist sá orðrómur á að munkarnir vendu þangað komur sínar meir en góðu hófi gegndi til að fífla systurnar. Þessi lifnaður keyrði svo úr hófi að abbadísin og systurnar vissu þetta nálega hver með annari og eru enn um það nokkrar sagnir.

Einu sinni er sagt að ábótinn frá Þykkvabæ hafi verið nótt í Kirkjubæ sem oftar. Morgumnn eftir komu systurnar inn í kompu abbadísarinnar og ætluðu að fara að klæða hana. Leituðu þær þá að nærklæðum hennar undir höfðalaginu og fundu þar brókina ábótans, en hvergi niðurhlut abbadísarinnar. Þær þekktu brókina og spurðu hvernig á þessu stæði, en þá er haft eftir abbadísinni að hún hafi átt að segja: "Allar erum vér brotlegar." En svo er bætt við: "kvað abbadís; og hafði brók ábóta undir höfðinu."
Öðru sinni var bæði ábótinn og munkur einn eða fleiri með honum nætursakir í Kirkjubæ. Það greinir nú ekki frá því fyrst um sinn hvar ábótinn svaf um nóttina, en þess er getið að abbadísin fór á hnotskóg með ljós um miðja nótt til að líta eftir lifnaði systranna. Kom hún þá í kompu einni að munki og nunnu sem sænguðu saman.
Abbadísin ætlaði að fara að ávíta nunnuna, en nunnunni varð þá litið á höfuðbúning abbadísar og segir: "Hvað hafið þér á höfðinu móðir góð ?"
Varð þá abbadísin þess vör að hún hafði tekið brókina ábótans í misgripum og skautað sér með henni í staðinn fyrir skuplu, svo hún mýkti málin og sagði um leið og hún gekk burtu: "Allar erum vér syndugar, systur."
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)



Systravatn.



Horft fram af brúninni við fossinn.



Pétur fararstjóri og Magnús.



Horft niður eftir Systrafossinum.



Kirkjubæjarklaustur og Skaftá sem liðast niður eftir landinu á leið til sjávar.



Séð inn til landsins. Hvítu byggingarnar með rauðu þökunum eru gömlu Kaupfélagshúsin og Sláturhúsið.



Þarna rétt hjá er Sönghellir.



En hann er rýmri og það er hærra til lofts þegar inn er komið.



Hlíðarnar þarna eru skógi vaxnar.



Og minna svolítið á myndir af skógum í útlandinu því ekki er um að ræða einhvern lágvaxinn kjarrgróður heldur alvörutré.



Áin hverfur síðan undir risastóran stein sem einhvern tíma hefur losnað úr hlíðinni fyrir ofan og lokar alveg farveginum.



En vatnið finnur sér alltaf leið.



Og þegar komið er niður fyrir steininn má sjá hvar áin kemur undan honum og seytlar áfram eins og ekkert standi í vegi fyrir henni.



Systrastapi er klettastapi vestan við Klaustur. Þjóðsaga segir að uppi á stapanum sé legstaður tveggja klaustursystra sem áttu að hafa verið brenndar á báli fyrir brot á siðareglum. Önnur hafði selt sig fjandanum, gengið með vígt brauð fyrir náðhúsdyr og lagst með karlmönnum. Hin hafði talað óguðlega um páfann. Eftir siðaskiptin var seinni nunnan talin saklaus og á leiði hennar óx fagur gróður en á leiði hinnar seku var gróðurlaust.
Klifurfært fólk kemst upp á stapann en þaðan er mikið útsýni með jöklasýn.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)




Lómagnúpur úr suðaustri. Myndin er "fengin að láni" af síðu Skaftárhrepps.



En um hádegisbilið var haldið af stað til fjallsins mikla.

Lómagnúpur er 767 m hár uppi á hábungunni, en 
688 m hátt standberg er suður úr Birninum vestan Núpsvatna á Skeiðarársandi.  Nokkur augljós merki um berghlaup sjást við þjóðveginn (1790) vestan fjallsins og nýlegri merki sjást í austurhlíðunum (1998).  Líkt og önnur standberg meðfram suðurströndinni, náði sjór upp að Lómagnúpi á ísöld.
Gnúpsins er getið í Njálssögu í tengslum við draum Flosa á Svínafelli, þegar hann sá jötuninn ganga út úr fjallinu.  Jötunninn í Lómabnúpi prýðir skjaldarmerki Íslands.  Hann er einn fjögurra höfuðverndarvætta landsins og ver suðurströndina gegn illum öflum.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)



Hin hefðbundna leið upp á fjallið liggur inn dal vestan við það, en nú orðið er einnig farið að ganga á það að austanverðu.



Síðasti spölurinn er aðeins fær jeppum og betur búnum bílum. 



En svo er lagt af stað.



Það voru alls 23 í hópnum



Fyrst var gangan tiltölulega auðveld. Farið var um grasi og mosavaxnar skriður.



En fljótlega fór þó brattinn að aukast.



Eftir því sem hærra dró jókst útsýnið yfir láglendið..



Það var áð og aðeins kíkt á nestið.



Svo var haldið aftur af stað.



Hærra og hærra.



Og áfram og upp fjallið.



Hér þurfti hjálpartæki.



Því þetta var of bratt á fótinn.



Allt of bratt.



Þessi keðja hefur verið þarna í e.t.v. hálfa öld.



Þeir hugrökkustu fóru fyrst.



Ég var einn af þeim síðustu, en ég tók margar myndir upp eftir klettinum.



Svo var reipi í klettagjá.



Þegar upp á brúnina var komið sást auðvitað bara sú næsta.



Það var áð á ný.



Og aftur var kíkt á nestið.



Og mæðinni kastað.



Maggi sötraði heitt kakó en átti ekkert kex aldrei þessu vant.



Svo var staðið upp og haldið áfram.



Hér hefur eitthvað gengið á fyrir margt löngu.



Hópurinn sem var kominn upp á brún númer 2 sér að það er líka til brún númer 3.



Vonandi er það sú síðasta.



Þegar upp er kimið er útsýnið ólýsanlegt.



Þarna er Hvannadalshnjúkur, hæsti tindur Íslands. Hann er því sem næst þrisvar sinnum hærri en Lómagnúpur sem er þó u.þ.b. 100 metrum hærri en Hólshyrnan svo dæmi sé tekið.



Eftir því sem ég kemst næst heitir skriðjökullinn á myndinni Súlujökull nær, en Skeiðarárjökull fjær.



En við vorum komin upp á fjallið innanvert og því ber að fagna. Síðan var gengið fram á hæstu bunguna.



Og þar stend ég á vörðunni sem segir mér að ég sé í 767 metra hæð yfir sjávarmáli.



Göngufólkið tínist á svæðið.



Og það er alltaf gaman að vera svolítið hátt uppi. Hér sést brúin yfir Sandgígjukvísl.



Og þær eru auðvitað líka á toppnum þessar stelpur eða þannig.



Maggi skoðar umhverfið vel og vandlega og vel græjaður í það.



Aftur er lagt af stað og nú liggur leiðin fram á brún. En þær eru margar brúnirnar og þarna er hendin teigð fram af og mynd tekin niður eftir standberginu.



Það er ekki laust við að maður fái svolítinn fiðring í iljarnar.



Landið fyrir neðan lítur svolítið út eins og landakort.



Upphleypt, í lit og prentað á rándýran pappír af bestu gerð.



Og enn er sest niður og nú fer að verða lítið eftir af nestinu hjá einhverjum.



Það er ekki mjög búsældarlegt landið milli fjalls og fjöru.



Önnur myndataka niður eftir standberginu og niður á dalbotninn. Þó ég sé ekki mjög lofthræddur lét ég þetta ógert. Ef það kæmi nú sæmilegur eftirskjáfti sem næði hingað austur þá eru nokkrar mjög sýnilegar sprungur í klettinum sem legið er á.



Og ég taldi rétt að merkja mér rækilega eins og eina mynd eða svo.



Ég man ekki betur en að Pétur fararstjóri hafi sagt okkur hinum sem minna vitum að þetta héti Tittlingaskarð.



Og enn fleiri myndatökur. Það er óhætt að segja að bjargbrúnin togar í.



Brúin yfir Núpsvötn.



Það er ekki leiðinlegt að sitja og sjá allt flata landið fyrir neðan.



Að endingu vorum við komin fremst á brún Gnúpsins. Þetta er Ingunn sem situr (eða réttara sagt stendur) fyrir á fyrstu myndinni, en hún bjó á Siglufirði í u.þ.b. einn og hálfan áratug.



Síðan kom Grétar ljósmyndari. (Ég held að jhann heiti örugglega Grétar.)



Og svona gekk þetta lengi því allir (sem þora) vilja auðvitað eiga mynd af sér fremst á Lómagnúpnum sem hefur vakað í þúsund sinnum þúsund ár. Fyrir neðan liggur þjóðvegur eitt og margur ferðalangurinn fyllist lotningu þegar hann horfir upp á þetta virðulega fjall.



Ég varð fyrir svolitlu "einelti" vegna skótausins sem var vissulega langt frá því að vera einhver merkjavara.
Hvernig geturðu eiginlega gengið á þessu?



Ég samþykkti eftir myndatöku svolitla umræðu. Þar eru skórnir mínir sem hafa dugað ágætlega til þessa bornir saman við gulu fyrirmyndarskóna hans Péturs. Jú líklega er eitthvað til í þessu og það er líklega nokkuð augljóst að ég er lúserinn á þessum samanburði.



En nú var kominn tími til að halda til baka. Það var farin önnur og svolítið styttri leið og þessi myndarlegi snjóskafl varð á vegi okkar.



Það var ekki gott að fóta sig í harðfenninu.



En eins gott að missa ekki fótanna því þá hefði líklega farið illa.



Giljagaur gæti alveg átt heima í þessu myndarlega gili.



Og nú var aftur komið að keðjunni. Það tók hópinn u.þ.b. klukkustund að feta sig þarna niður. Bara einn í einu og það er ekki farið hratt niður.



Mikilfenglegur staður til að hvíla sig á. - "Frjálst er í fjallasal" o.s.frv...



Litir, lögun og fjölbreytilegi bergsins og raunar umhverfisins alls er með ólíkindum.



Margar myndirnar sem teknar eru á þessum slóðum eru sannkallaðar "póstkortamyndir." Þetta er gilið sem Fjaðrá rennur um á leið sinni til sjávar.



Það má vel gleyma sér yfir þessum ótrúlega arkitektúr náttúruaflanna.



Það er lítill vandi að sjá hinar ótrúlegustu myndir í berginu, en það mun vera sjávarsorfið frá því um eða fyrir síðustu ísöld.



En nú voru skuggarnir farnir að læðast um og degi tekið að halla.



Það var bráðum kominn tími til að kveðja þessa náttúruperlu, þetta einstaka umhverfi og þennan háfjallasal.



Þegar komið var að bílunum var horft um öxl og þá blasti þessi undarlegi foss við okkur. Vatnið rennur fram af brúninni en á leiðinni niður virðist það fjúka út í loftið, breytast í fínan úða sem brýtur sólargeislana og myndar regnbogann sem sést vel á myndinni. 



En þessi frábæri dagur var liðinn, allir komnir í tjaldbúðirnar og sumir farinir að undirbúa grillið. Dagurinn hafði liðið áfram eins og tímalaus og ég áttaði mig á að ég hafði aldrei litið á klukkuna meðan á ferðinni stóð. En þegar að var gáð hafði hún staðið yfir í átta og hálfan tíma frá því að lagt var upp frá Klaustri og þar til komið var þangað aftur.



Það færðist ró yfir mannskapinn



Eitthvað lítilsháttar var "baukað" og "glingrað," en eftir þennan dag var ekki mikil orka afgangs til stórra verka af því tagi. Hér er Maggi á spjalli við Hannes, hinn fararstjórann. En hann er ættaður af svæðinu, þekkir hverja þúfu og er mikill göngugarpur.



Það var skrafað og skeggrætt yfir borðum.



Og goggað í fóðrið.



félagarnir hérna næst á myndinni lögðu sig fram um að útbúa glæsilegt grillfóður með tilheyrandi og fórst það snilldarlega úr hendi.



Hannes fararstjóri sagði nokkur orð og fórst það vel. Hann minntist sérstaklega á skóna mína sem hann lagði til að ég eftirléti ferðafélaginu þegar þeir hefðu lokið "göngu" sinni.



Og kvöldið leið áfram jafn ljúflega og dagurinn hafði gert. Upp úr miðnætti fór hópurinn að þynnast og einn af öðrum tíndist til poka síns eða sængur.



Á sunnudeginum var lagt af stað heimleiðis en staldrað við Fjaðrárgljúfri. Svo undarlegt sem það kann að viðrast, þá eru tvær ár sem heita Fjaðrá og eru ekki langt frá hvorri annarri. Önnur er nokkuð fyrir Austan Klaustur en hin spölkorni vestar.



Við Maggi gengum inn með bakkanum og höfðum því góða yfirsýn yfir þá sem gengu eftir gilbotninum.



Gilið varð dýpra eftir því sem innar dró.



Áfram var gengið og áfram var vaðið.



Fjaðrárgljúfur er meðal stórbrotnustu náttúruundra landsins.  Það er skammt vestan Kirkjubæjarklausturs við Lakaveg / Holtsveg.  Fjaðrá fellur þar fram af heiðarbrúninni í tiltölulega breiðu og hrikalegu gljúfri, sem er vel þess virði að gefa nánari gaum.
Einfaldast er að aka upp með gljúfrinu eftir Lakavegi og ganga síðan niður með því til að skoða móbergsmyndanirnar og höggmyndir náttúrunnar betur.  Það er einnig hægt að ganga upp eftir gljúfrinu, en þá má búast við talsverðu vazli.  Fjaðrárgljúfur er á náttúruminjaskrá.
(Gúgglað af síðu Skaftárhrepps.)




Gljúfrið er u.þ.b. kílómetir að lengd.



Þarna eru margir klettar sem eru margbreytilegir að lögun.



Oft þarf að vað á milli bakka árinnar.



Því er næstum því nauðsynlegt að vera á vaðskóm.



Því vatnið er kalt og grjótið ómjúkt undir iljum.



Þetta er vissulega stórbrotið landslag og rétt við veginn. Samt held ég að margur maðurinn bruni framhjá á seinna hundraðinu án þess að hafa minnstu hugmynd um hvað þarna er að sjá.


Að lokinni göngunni upp og niður með Fjaðrárgljúfri var heimferðinni haldið áfram. Enn einu sinni var þó staldrað við og nú Hjörleifshöfða. Hægt er að keyra í kring um hann á þokkalegum jeppa, en fólksbílafært er niður fyrir höfðann vestan megin. Því miður varð ég þess þarna áskynja að kortið í myndavélinni var orðið fullt. Það fannst mér slæmt og stefni á að fá nokkrar Hjörleifshöfðamyndir "lánaðar" hjá Magga á næstunni.

Og fyrir þá sem vilja skoða meira eru miklu, miklu fleiri myndir frá þessari ævintýraferð komnar í myndaalbúm, vistaðar í möppu merkt "Lómagnúpur," eða smella á slóðina http://album.123.is/?aid=99829 - nema hvað...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 917
Gestir í dag: 118
Flettingar í gær: 575
Gestir í gær: 91
Samtals flettingar: 303714
Samtals gestir: 32848
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 12:40:33
clockhere

Tenglar

Eldra efni