04.08.2008 13:53

Síldarævintýrishelgin.



489. Á leiðinni norður þegar ekið var um Vatnsdalinn í Húnavatnssýslu mátti sjá þokuslykjuna leka fram af fjallsbrúnunum, niður gil og skorninga og verða síðan af engu. Rétt eins og dularfull hvít frostgufa í tilraunaglösum léttgeggjaðra vísindamanna úr einhverri drungalegri Hollýwoodmynd sem eru í þann veginn að finna eitthvað upp sem breyta mun lífinu á jörðinni til frambúðar.



Þar sem nægur var tíminn að þessu sinni, þótti ekki fráleit hugmynd að staldra við hér og þar og virða fyrir sér landið og lífið í sveitunum norðan heiða. Þessi mynd er samansett úr tveimur myndum þar sem ég hef ekki yfir gleiðlinsu að ráða og er tekin frá frekar óalgengu sjónarhorni. Ég geri því ekki ráð fyrir að allir þekki þetta þorp en rétt svar er Blönduós.



Þessi hestur kom röltandi og horfði rannsakandi á okkur eins og hann væri að reyna að átta sig á því hvort hann gæti hugsanlega þekkt þetta fólk. Hann fékk eina brauðsneið (ósmurða) fyrir það eitt að láta sjá sig.



Honum líkaði greinilega sneiðin því hann ætlaði aldrei að hætta að sleikja út um. Hann er ekki að ulla á okkur ef einhver skyldi halda það.



Skammt þarna frá stóð yfir heyskapur og það upp á gamla mátann sem er ekki mjög algengt núorðið.



Þegar ekið var eftir Hnjúkabyggðinni á Blönduósi mátti sjá þess grasbíta ganga fylktu liði eftir flötinni fyrir norðan einu blokkina í bænum og úða í sig grængresinu. Sumir vilja kalla þessa fugla "fljúgandi steikur" eða jafnvel "jólasteikur" en mér finnst það svolítið kikindislegt.



Og rétt fyrir ofan bæinn voru þessi hross í hólfi og sýnilega hvíldarstund hjá ungviðinu.



Eftir að hafa ekið yfir Þverárfjall og um þekktar ísbjarnarslóðir, var beygt inn á Reykjarströnd rétt fyrir norðan Sauðárkrók. Vegurinn endar við bæinn Reyki skammt sunnan Glerhallavíkur, en glerhalli er því sem næst það sama og silfurberg (held ég) og var eitt sinn í miklu magni í víkinni. Í miklu brimi sem gerði fyrir allmörgum árum mun veruleg breyting hafa orðið þar og er þessi bergtegund ekki eins áberandi þar nú orðið.

Drangey er u.þ.b 700.000 ára, þverhníptur móbergsklettur í Skagafirði. Hæst er hún 180 m og flatarmálið er 0,2 km². Hún er aðeins kleif á einum stað, í Uppgöngu fyrir ofan Uppgönguvík. Hún var forðabúr Skagfirðinga um aldir. Þangað var sóttur fugl og egg. Allt að 200.000 fuglar voru veiddir þar fyrrum og veiði er stunduð þar enn þá. Fé var beitt á eyjunni, því hún er mjög grösug efst.

Þjóðsagan segir, að tvö tröll, karl og kerling, hafi verið að leiða kvígu yfir fjörðinn til nauts en orðið að steinum. Sunnan eyjar stendur Kerlingin enn þá en Karlinn, sem var norðan eyjar er horfinn í hafið. Eyjan sjálf er kvígan. Vegna tíðra slysa við sig í Drangey var Guðmundur biskup góði fenginn til að vígja hana. Hann gerði það úr sigvaði og þegar hann kom að Heiðnabergi, vinstra megin Uppgöngu, þar sem er náttúrulegt krossmark í þverhnípinu, kom loðin hönd með hníf út úr berginu og skar sundur tvo þætti kaðalsins. Hinn þriðja hafði Guðmundur vígt, þannig að hnífurinn vann ekki á honum. Þá heyrðist djúp rödd úr bjarginu segja Guðmundi að láta þar við sitja, því einhvers staðar yrðu vondir að vera.

Í Uppgöngu er Gvendaraltari, þar sem farið er með Faðirvorið áður en lengra er haldið. Drangey var öldum saman í eigu Hólastóls. Í Grettissögu segir frá dvöl og dauða Grettis og Illuga bróður hans í Drangey. Það er ógleymanlegt að sigla út í Drangey og ganga upp á hana.
(Gúgglað af nat.is.)




Niður undir flæðarmálinu er Grettislaug og þar hafði þessi Svisslendingur burslað framan af degi milli þess sem hann óð út í sjó til að kæla sig niður en fór síðan aftur í 36 gráðu heita laugina.

Grettissaga segir frá því, að eldur hafi slokknað í Drangey hjá þeim bræðrum Gretti og Illuga vegna slælegrar gæzlu þrælsins Glaums.  Þá bjó Grettir sig til sunds í land og synti "sjö vikur" sjávar til Reykja á Reykjaströnd norðan Sauðárkróks.  Honum var kalt, þegar hann kom í land og yljaði sér í heitri laug sem myndaðist þar vegna jarðhita.  Síðan gekk hann í hús, þar sem allir voru í svefni, lagði sig og steinsofnaði allsnakinn.  Hann vaknaði við tvær konur í stofunni hjá sér um morguninn.  Þar voru komnar griðkona og dóttir bóndans.  Þær þekktu Gretti og undruðust, hve lítið væri undir svona stórum manni.  Griðkonan gekk nær til að skoða tólin og hljóp skellihlæjandi til bóndadóttur.  Grettir reis upp, greip til griðkonunnar og fór með vísur, sem fjölluðu um gagnsemi þessara tóla, þótt þau væru ekki af metstærð.  Síðan staðfesti hann orð sín með skrækjandi griðkunni, sem fór hin ánægðasta að því loknu.  Grettir fór síðan til Þorvalds bónda og bað hann flytja sig til baka með eldinn.

Grettislaug hvarf í hafróti árið 1934.  Hún var grafin upp árið 1992 og endurgerð.  Þá var hlaðinn skjól- og varnarveggur úr fjörugrjóti norðan við hana.  Margir láta vel af baði í Grettislaug.
(Gúgglað af nat.is.)




Jón Eiríksson frá Fagranesi (t.v.) er gjarnan nefndur Drangeyjarjarlinn. Hann hefur í mörg ár siglt með ferðamenn út í Drangey, unnið ötullega að uppbyggingu Grettislaugar svo og aðstöðu fyrir ferðamenn á Reykjaströndinni. Hann var nýlega útnefndur ferðafrömuður ársins 2008 fyrir starf sitt og er eflaust vel að því kominn. Ég hitti Jón þar sem hann var að bjástra við að koma rafstöð sinni í gang, en hún er í skúrnum fyrir aftan þá félaga. Hann sagðist hafa virkjað bæjarlækinn fyrir ekki svo löngu síðan og virkjunin væri samkvæmt sínum útreikningum u.þ.b. 20 sinnum stærri en Kárahnjúkavirkjun miðað við höfðatölu neytenda, en hann væri þarna oftast einn og svo hló hann við. Hjá Jóni stendur frændi hans sem var í heimsókn nyrðra en ekki man ég hvað hann heitir hafi hann á annað borð kynnt sig með nafni. Ég man þó að hann sagðist vera krabbameinslæknir, búa í Kópavogi og vera nágranni Kristjáns L. Möller.

Svolítil en afar kærkomin viðbót barst mér frá Mána Sigurjónssyni fyrrverandi útvarpsmanni.

Það er rétt, frændinn er læknir og hann heitir Baldur Sigfússon og þeir eru bræðrasynir Jón og hann. Feður þeirra fæddust og ólust upp í fæðingasveit minni austur í Tungu. þ.e. í Gunnhildargerði í Hróarstungu austur á Fljótsdalshéraði, (Feðurnir fæddust að vísu allmörgum árum áður en ég fæddist). 

Ég vil þakka Mána kærlega fyrir og betur væri ef fleiri sæu ástæðu til að miðla af viskubrunni sínum þegar mig þrýtur þekkingu eða næ ekki að "gúggla" mig áfram.



Reykjarströnd var kvödd og ég hét því að einhvern tíma skyldi ég fara með Jóni Drangeyjarjarli út í hina sögufrægu eyju, en slíkt er nú alltaf skemmtilegra í góðum hópi. Hinum megin Skagafjarðar var þó tekin ein mynd af Drangey til viðbótar og nú var kvöldsólin farin að lita hana og skýjabakkann á bak við hana með geislum sínum.



Það voru margir mættir á Sigló strax á fimmtudagskvöldið. Svona var umhorfs á tjaldstæðinu um níuleytið og það streymdu bílarnir í bæinn.



Á föstudeginum um hádegisbilið datt mér í hug að fá mér svolítinn labbitúr. Ég vissi svo sem ekki hvert ég ætlaði en ég hef aldrei komið upp í Hestskarð. Það var því stefnt þangað upp í veðurblíðunni. Geta má þess að hitamælirinn á Sparisjóðnum sýndi 23 gráður klukkan 11 um morguninn.

Ég heyrði skemmtilega sögu á dögunum sem mér finnst full ástæða að fái að fljóta með...
Góður og gegn Siglfirðingur gekk yfir Hestskarð á dögunum ásamt sonarsyni sínum. Veður var gott og gangan gekk vel. Þeir félagar komu niður í Héðinsfjörð og dvöldu þar hluta úr degi, en þegar þeir hugðu að heimferð var komin þétt þoka í skarðið. Afanum sagðist svo frá að honum hefði hreint ekki litist á að fara þarna upp með sonarsoninn svo ungan að aldri og því horfið frá þeirri fyrirætlan.
Hann var þá spurður að því hvað hann hefði tekið til bragðs og ekki stóð á svarinu.
"Ég tók bara steypubílinn til baka."

Og fyrir þá sem ekki þekkja staðhætti, þá liggja Héðinsfjarðargöng því sem næst undir Hestskarði.



Eftir nokkra stund stóð ég á brúninni og horfði til baka ofan í Siglufjörð eða það sem sést af honum úr skarðinu.



Fyrir neðan Héðinsfjarðarmegin er vatnið.

Til suðurs lá leiðin upp á Pallahnjúk, klettótt og brött. Meðan ég var á leiðinni upp í Hestskarðið heyrði ég látlaust í grjóti sem hrundi úr hlíðum og klettabeltum þessa fjalls og valt niður skriðurnar. Það varð aldrei hlé á þessu hruni og á tímabili var ég alveg viss um að þarna væri einhver á ferð. En hvernig sem ég rýndi og pírði augun, sá ég ekkert nema nokkrar rykslóðir eftir veltandi grjót.



En til norðurs liggur skörp fjallseggin upp á Hestskarðshnjúk sem eitt sinn hét Staðarhólshnjúkur-syðri skv. upplýsingum af nýja örnefnavefnum snokur.is. Mér fannst þessi leið auðvitað mest spennandi og ákvað að halda á toppinn.



Ég gekk eftir fjallsegginni sem var á köflum mjög skörp, en varð að láta mig hafa það að krækja fyrir einn og einn klett sem virtist heldur óárennilegur.



U.þ.b. hálfnaður upp og það styttist í takmarkið. Hér er svolítill slakki í brúninni og tilvalið að staldra við og taka eina eða tvær myndir, fá sér svolítið súkkulaði og kristal-plús.



On ú styttist í toppinn. Síðasti spölurinn er lítið hallandi melur sem þægilegt er að ganga.



Þegar upp er komið hlýtur göngumaðurinn umbun sína fyrir það sem hann hefur lagt á sig til að ná takmarkinu. Ægifagurt útsýni til allra átta.
Á toppnum er talsvert traðk sem segir mér að hér sé mun gestkvæmara en ég hélt.



Ég leit fram af berginu og niður í Skollaskál sem virðist vera langt, langt fyrir neðan og reyndar rétt eins og hluti af undirlendinu héðan frá séð.



Austan megin er svo botn Nesdals sem stundum heitir Reyðarárdalur. Veit ekki hvort er réttara nema hvoru tveggja sé. Vinstra megin við miðju myndarinnar grillir svo í slóðina sem liggur upp úr Kálfsdalsskarði og yfir í Nesdal (eða Reyðarárdal.)



Eitt af því sem mér fannst undarlegt var þessi undarlega blanda af ólíkum smásteinum bæði að lit og lögun í einum og sama melnum.



En hvort skyldi nú halda áfram eftir fjallgarðinum eða halda til baka og segja þetta gott í bili. Hestskarðshnjúkur er 850 metra hár og því með hæstu fjöllum við Siglufjörð. Hann verður að teljast hæfileg ganga á einum degi fyrir þá sem eru ekki nema í meðalgóðu formi og nokkuð yfir kjörþyngd. En ef maður er á annað borð kominn hingað upp og hægt að slá "sömu fluguna í bæði höfuðin" í svo gott sem einu höggi þarf bæði að íhuga málið og meta stöðuna.

Það eru ekki miklar líkur á að ég sé tilbúinn að fara sérferð hingað upp á næstunni til þess eins að klífa Staðarhólshnjúk sem er þó ofarlega á óskalistanum. Ég gat því ekki betur séð en að minnsta málið væri að láta til skarar skríða hér og nú, því aðstæður gátu varla orðið betri. Staðarhólshnjúkur á myndinni hér að ofan er 778 metra hár, og saman eru þessir hnjúkar eins og tveir risar sem vaka yfir og við sitt hvorn enda Skollaskálarinnar.



En áður en lagt var af stað þurfti að taka nokkrar myndir.



Á leiðinni niður eftir brúninni þurfti líka að krækja fyrir kletta og klungur, gil og skorninga.



Gamalt þykkt lag af rauðamöl varð á vegi mínum, en þetta sést víðar í austurfjöllunum.



Ég var nú kominn í miðja lægðina milli hnjúkanna yfir miðri Skollaskál og horfði upp eftir næstu fjallsegg. Þetta leit ekki út fyrir að vera svo mikið mál og var það raunar ekki þegar á reyndi. Sennilega hef ég verið fljótari upp á Staðarhólshnjúk en niður af Hestskarðshnjúk.



Toppnum var náð og ég tók eftir því að hér voru mun minni merki um mannaferðir og vörðurnar tvær báru þess líka merki. Þær voru bæði lægri og efnisminni þó nóg væri af grjótinu þarna uppi. En þarna uppi var logn svo mikið og hiti, að það lak af mér svitinn í stríðum straumum.



Annars er toppurinn klofinn og ekki má á milli sjá hvor er hærri.



Ég varð auðvitað að fá mynd af sjálfum mér í hnjúka og tindasafnið hér eins og annars staðar þar sem leiðin hefur legið. (Sérhannað safnmynstur fyrir hégómagirndina.)



Ég gægðist norður af fjallinu og þarna langt niðri mátti sjá Kálfsdalsvatn og auðvitað ofan á kollinn á Hinrikshnjúk. Auðvitað var einn hnjúkur enn eftir þó hann sé mun minni og ekki eins áberandi í fjallahringnum. Ekki veit ég við hvaða Hinrik hann er kenndur og því miður hefur enginn getað sagt mér það enn sem komið er. Það var auðvitað fátt annað í stöðunni en að klára pakkann, en mikið rosalega var bratt þarna niður.



En niður var farið eftir nokkrum krókaleiðum, því ókleift er með öllu eftir brúninni sem er eiginlega ekki nein brún heldur skiptast á skriður, gilskorningar og klettabelti.



Ein enn í safnið og sennilega toppar hún hégómlegu hliðina á því. En Hinrikshnjúkur er 563 metra hár og efsti hlutinn er löguleg klettaborg. Það er mikið um holrúm milli stórra steina sem gerir hann talsvert frábrugðinn hinum tveimur.



Þessi hluti er nú að baki...



...en næsti áfangi framundan. - Ég klöngraðist niður austurhlíð Hinrikshnjúks og niður í innanverðan Kálfsdalinn. Þetta var ansi bratt en ekkert stórmál væri gætilega farið.



Þegar ég koma niður að læknum sem rennur niður að vatninu var hreinlega lagst yfir hann því allar Kristal-plúsbirgðir voru þrotnar fyrir nokkru.



Síðan var gengið niður í átt að vatninu.



Skömmu áður en þangað er komið hverfur lækurinn ofan í jörðina og  eftir stendur þurr farvegur sem hann rennur sennilega eftir aðeins í mestu leysingum..



En Kálfsdalur er hinn mesti unaðsreitur og kyrrðarinnar Paradís.



Ekkert affall er heldur úr vatninu, en miklu neðar í dalnum sprettur áin út úr fjallinu og rennur til sjávar við Selvíkina.



Það var farið að skyggja og sólin sigin niður fyrir brún Hafnarfjallsins. Því var ekki úr vegi að smella af einni sólarlagsmynd áður en hún léti ljós sitt skína á ný og gægðist fram fyrir norðurenda Strákafjalls hinum megin fjarðar.

Þegar ég kom neðar í dalinn var kyrrðin fyrir bý. Ég heyrði að það var verið að spila gamla og svolítið þreytta slagara á torginu. Syrpa sem samanstóð af "Anna í Hlíð" sem breyttist í annan slagara og eftir það í "Oft á vorin haldin eru Héraðsmót" kom kunnuglega fyrir eyru. Ég man ekki betur en að ég hafi heyrt þessa sömu syrpu í fyrra og einnig árið þar áður.



Selvíkurviti er greinilega farinn að þarfnast aðhlynningar, orðinn "feiskinn og fúinn, farinn og lúinn." Ég leitaði heilmikið á netinu að upplýsingum um hvenær hann var reistur en fann ekkert. Nýlega fréttist svo að hann væri til sölu því hann mun vera aflagður sem það öryggistæki sem hann var lengst af.



Lokaáfanginn var eftir. Bakkarnir í Staðarhólslandinu alla leið inn á Ráeyri. En þessi leið er blautleg mjög vegna mýrlendis og sums staðar ógreiðfær vagna kargaþýfis.



Mér fannst löng leið að baki þegar ég kom loksins að Evangerrústunum. Nú var aðeins smáspölur eftir að bílnum sem stóð uppi á Saurbæjarás nokkuð fyrir sunnan frístundabyggðina, en þegar þangað var komið leit ég á klukkuna. Gangan hafði staðið í átta og hálfan tíma og það var farið að líða að miðnætti.



Og fyrir þá sem rata hingað inn á síðuna, eru ekki staðkunnugir og vilja átta sig betur á staðháttum.

Örvarnar benda á eftirfarandi staði.
1. Hestskarð (í hvarfi).
2. Hestskarðshnjúkur sem skv. heimildum úr snokur.is hét Staðarhólshnjúkur syðri.
3. Staðarhólshnjúkur.
4. Hinrikshnjúkur.
5. Kálfsdalsvatn (í hvarfi).
6. Selvíkurviti sem heitir Selnesviti skv. heimildum frá snokur.is.



Eitt af því sem stendur eftir þegar helgin verður liðin, gestir farnir heim og kyrrð farin að færast yfir sjávarþorpið, verður líkanið af Hafliða sem togarajaxlarnir frá árum áður stóðu fyrir að gert yrði. Þessir ágætu menn sem að verkinu stóðu eiga miklar þakkir skildar fyrir framtakið og ég mæli með að sem flestir kíki inn á vefinn http://www.si2.is þar sem er að finna mikinn fróðleik. Bæði af sögu skipsins, skipverjum, nokkrar gamlar sjóarasögur gamlar myndir frá mektardögum þess og margt fleira. á myndinni fyrir ofan sitja nokkrir fyrrverandi sjóarar á á palli og kyrja slagara rétt fyrir formlega afhendingu líkansins.


(Ljósmynd - Steingrímur.)

Annað sem stendur eftir er örnefnavefurinn http://snokur.is/ sem ég er búinn að liggja yfir klukkutímum saman og grandskoða í bak og fyrir. Af öðrum ólöstuðum hefur Hannes Baldvinsson lagt ómælda og óeigingjarna vinnu og í undirbúninginn, en einnig hafa þarna komið við sögu þeir Páll Helgason og Örlygur Kristfinnssson ásamt Magnúsi Sveini Jónssyni. Vefurinn er að miklu leyti byggður á handritum Helga Guðmundssonar sem bjó á Siglufirði frá því laust fyrir 1930 og fram til ársins 1944 þegar hann lést. Helgi tók saman örnefni í hinum forna Siglufjarðarhreppi sem náði frá Úlfsdölum til Hvanndala og þá voru í þann mund að falla í gleymsku og þökk sé honum (ásamt Hannsi Bald og fleirum góðum mönnum) að vér núlifandi Siglfirðingar getum gengið að þessum fróðleik vísum þar sem hann nú er.



Síldarsöltunin vekur alltaf verðskuldaða athygli allra. Bæði þeirra sem tóku þátt í ævintýrinu á sínum tíma og muna það í ljósrauðum dýrðarljóma, en einnig og ekki síður hinna sem eru handtökin, verklagið og stemningin vægast sagt framandi. Það verður að segjast að það er glæsilegt Síldarminjasafnið og við bæði meigum og eigum að vera þeim framtakssömu brautryðjendum ævarandi þakklát sem unnið hafa að tilurð og framgangi þess.



Ýmsir tónlistarmenn heiðruðu Síldarævintýrið með nærveru sinni og fyrir mitt leyti þykir mér einkar vel til fundið að fá þá félaga Gylfa Ægisson og Þorvald Halldórsson til að troða upp. Þetta eru frábærir karlar sem eiga sér glæstan feril, við höfum þekkt þá að góðu einu áratugum saman og þeir gerðu líka hinu ágæta sjómanna og Síldarævintýrislagi sr. Sigurðar Ægissonar verulega góð skil. En það var hins vegar Eyþór Ingi sem kom mér svo rækilega á óvart að ég stóð hreinlega sem steini lostinn og átti engin orð til að lýsa hrifningu minni á þessari rísandi stjörnu sem getur ekki annað en átt eftir að gera stóra hluti í framtíðinni. -  Annað væri hið argasta klúður.



Ég hef verið á Síldarævintýrinu hvert einasta ár frá upphafi þess nema eitt og ég man ekki eftir flugeldasýningu og brennu fyrr en núna. Frábært að fá þennan lið "lánaðan" hjá Vestmannaeyingum og vonandi er hann kominn til að vera. Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt að það væri góð hugmynd að fá annan lið "lánaðan" og þá frá Dýrafjarðardögum. Sá gæti heitið "Gengið um söguslóðir í miðbænum með leiðsögumanni búnum gjallarhorni." Sá liður gæti verið snemma á dagskránni eða eftir að hreinsun hefur farið fram, nokkru eftir að þeir síðustu eru sofnaður og löngu áður en þeir hinir sömu vakna á ný.



Á sunnudeginum mátti sjá Mávana raða sér á mæni Bátahússins, sjón sem ég hef aldrei áður augum litið. Það vakti athygli mína að þeir snúa allir goggnum í norður í átt að tjaldstæðinu, en þar gæti verið matarbita að finna þegar tjaldbúar taka að yfirgefa svæðið.



Ég sá líka þennan bíl í stæðinu fyrir norðan Aðalbúðina með athyglisverða merkingu í glugganum.



Ef við rýnum aðeins í hana sést að þar stendur "KONUNGUR STRUMPANNA."
Hmmmmmmmmmmmmmm..........



Á leiðinni suður mátti sjá kvöldroðann lita fjallatoppana í Húnavatnssýslu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 305
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481022
Samtals gestir: 53317
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 09:49:11
clockhere

Tenglar

Eldra efni