10.08.2008 15:52

Pasta og antipasta.

490. Það er orðið langt síðan ég hef dottið inn á Vísindavefinn góða og þá ekki síður þann hluta hans sem kallast "föstudagssvörin." Á döprum degi þegar andinn svífur í lágflugi yfir hinu áþreifanlega raunveruveruleikalandi og nær ekki neinum hæðum vegna áunninnar tómleikakenndar og hinni andlegu hyldýpistilfinningu sem stundum þjakar.

Og rétt eins og það er eitthundraðprósent öruggt að dauðinn er arfgengur, er alveg jafn öruggt að inntit á umrætt vefsvæði getur ekki gert neitt annað en gott eitt. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þeir snillingar sem þarna láta ljós sitt skína svari þeim spurningum sem inn koma hver með sínu nefi, eða hreinlega setja saman skemmtileg svör sem þarfnast síðan undarlegra spurninga. En mér má svo sem vera nokkuð sama því lesturinn hefur undantekningalítið verulega mikið skemmtanagildi eins og dæmið hér að neðan sýnir svo glöggt.



Spyrjandi veit sem er að ekkert efni verður eftir þegar efni (matter) og andefni (antimatter) koma saman í jafnstórum skömmtum. Spurningin er því fullkomlega eðlileg og má búast við að hún hafi valdið spyrjanda miklum áhyggjum og kannski minnkandi matarlyst. Honum hefur þó líklega ekki dottið í hug að gera einfalda tilraun og prófa þetta á sjálfum sér.

En starfsmenn Vísindavefsins eru fúsir að leggja ýmislegt á sig fyrir lesendur sína. Þeir hafa því gert slíka tilraun með þeim árangri að þeir skreppa nú óðum saman og er tvísýnt um framhald vefsins af þeim sökum. Við framkvæmd tilraunarinnar höfum við jafnframt komist að því að það er miklu hollara (skárra) upp á blóðsykur, kólesteról og fleira að borða antipastað á undan pastanu, eins og Ítalir gera líka yfirleitt.

Í grófum dráttum getum við lýst því, sem gerist þegar efni og andefni koma saman, með eftirfarandi ferli sem við sýnum á þremur tungumálum:
n g af efni + n g af andefni --> 0 g af efni (eða andefni) + heilmikið af orku.
n grams of matter + n grams of antimatter --> 0 grams of matter (or antimatter) + lots of energy.
n g materia + n g antimateria --> 0 g materia (o antimateria) + molto di energia.
Þetta má síðan alhæfa sem hér segir:
tiltekið magn af x + jafnmikið af and-x --> ekkert af x + ef til vill eitthvað annað.

Lesandinn getur til dæmis prófað að setja orðið 'pasta' inn fyrir x í þessu síðasta ferli en þá er 'eitthvað annað' = orka því að pasta er efni hvað sem öðru líður. Einnig getur x til dæmis verið 'bára' því að engin bára verður eftir þegar bára og andbára koma saman. Vel heppnuð andbylting verður til þess að byltingin misheppnast, byr og andbyr skapa engan vind, kommúnisti og andkommúnisti gera samtals engan kommúnista, Skoti og andskoti eru enginn Skoti, streymi og andstreymi gerir ekkert streymi, styggð og andstyggð eyða hvor annarri og þannig mætti lengi telja.

Nú gæti virst sem hagur Ítala kynni að vænkast af því að það er einmitt orka sem myndast þegar efni og andefni (pasta og antipasta) koma saman, og það er líka meðal annars orka sem við erum að sækjast eftir þegar við borðum. En orkan sem myndast úr efni og andefni er yfirleitt í formi svokallaðra ljóseinda sem eru bæði massalausar og hafa tiltölulega mjög mikla orku. Ljóseindir sem verða til á þennan hátt í meltingarfærum okkar þjóta því með ógnarhraða í burt án þess að skilja eftir sig nokkra orku í líkamanum.

Með þessum rökum höfum við í hyggju að skrifa Manneldisráði Íslands og leggja til að það skrifi systurstofnun sinni á Ítalíu til að benda á þessar afleiðingar þess að borða efni og andefni í sömu máltíð. En með því að meltingarfæri Ítala kunna að hafa lagað sig að þessum sið í aldanna rás er þó enn meiri ástæða til að vara aðrar þjóðir við því að fara að fikta við þetta.

Eftir að við höfðum samið þetta svar komumst við að því að í ítölskum orðabókum er ekki talað um antipasta heldur antipasto sem er þýtt sem 'forréttur'. Við höllumst einna helst að því að þetta sé prentvilla í orðabókunum og viljum í öllu falli vara fólk við ítölskum forréttum, að minnsta kosti ef pasta er í síðari réttum.

Vettvangsathugun hefur einnig leitt í ljós að hætturnar leynast víða því að í íslenskum búðum má finna vöru sem kallast andpaté eða eitthvað álíka. Við mælum ekki með því að slíkt sé borðað í sömu máltíð og paté.

Svo viljum við að lokum minna á að þetta er föstudagssvar við spurningu sem er í föstudagsflokki. Svarið má ekki taka með meiri alvöru en býr að baki spurningarinnar. Lesandinn verður sjálfur að taka ábyrgð á því hverju hann vill trúa í spurningu og svari.
(Gúgglað af Vísindavefnum.)

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 424
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481141
Samtals gestir: 53320
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 12:01:54
clockhere

Tenglar

Eldra efni