19.08.2008 22:54
Í tilefni dagsins.
493. Þegar þetta er ritað er kominn 19. ágúst og því liðin eitthundrað á frá því að Sóley amma fæddist að Klaufabrekkum í Svarfaðardal. Hún var elst sex alsystkina, en fyrir átti hún tvö hálfsystkin. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum sem voru lengst af í húsmennsku á nokkrum bæjum í dalnum eða allt þar til hún var á fimmtánda ári, en þá missti hún móður sína úr berklum. Eftir það leystist heimilið upp og hún var um tíma í Hrísey og á Akureyri við vinnu, en settist að lokum að á Siglufirði og vildi aldrei fara þaðan aftur.
Ekki mun lífið hafa verið neinn dans á rósum hjá foreldrunum og börnunum sex, því oft mun kosturinn hafa verið rýr og litlu úr að spila. Lífið mun því ekki hafa farið um hana sérlega mjúkum höndum faman af æfinni og oft hefur hún mátt þola mikið mótlæti á sínum uppvaxtarárum. En það breyttist mikið til batnaðar eftir að komið var í Síldarbæinn.
Sóley amma leit alltaf á Siglufjörð sem sinn heimabæ. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar á Gamlársdag árið 1994 og hvílir í nýja kirkjugarðinum á Siglufirði austan fjarðar við hlið afa.
Föstudaginn 15. ág. fórum við norður og tókum daginn nokkuð snemma. Því við vildum ekki þurfa að flýta okkur ef veðrið tæki nú upp á því að bjóða upp á eins og svolítinn útúrdúr eða frávik frá fyrirhugaðri dagskrá. Og þannig varð það og því var staldrað við í Borgarfirðinum þar sem heitir Grábrók.
Gígurinn Gábrók er til hægri á myndinni hér að ofan, en ég gat ekki fundið út hvað fjallið vinstra megin heitir. Á vef Fosshótela er það kallað "Bifröst mountains" en það þykir mér frekar fráleit nafngift. Og svo er hún Baula auðvitað í miðjunni.
Við ókum inn á stæðið neðan við gíginn og gengum af stað upp tröppurnar sem liggja upp hlíðar hinnar 173ja metra háu Grábrókar.
Rétt ofan við stæðið er hliðið sem afmarkar hið friðaða svæði, en svo liggja tröppurnar áfram.
Og áfram...
Og áfram...
Þegar upp á brúnina var komið tók ég fyrst eftir réttinni.
En þaðan blasti líka miðja gígsins við.
Næsta fjall fyrir ofan heitir Grábrókarfell en er einnig nefnt Rauðbrók.
Af brúninni er gott útsýni yfir Háskólasvæðið að Bifröst og Hreðavatn.
Og Hreðavatnsskáli er því sem næst beint undir fótuim manns.
Það sést ekki til Borgarness fyrir mistri og Hafnarfjallið er litað blámóðu fjarskans.
Þegar ég var búinn að dvelja þarna um tíma, búinn að ganga hringinn og var á niðurleið, kom full rúta af ferðamönnum sem horfðu yfir sig hissa í kring um sig á þetta undur náttúrunnar.
Að lokum varð ég að festa samlíkinguna milli Baulu og vörðunnar á Grábrók í kubbinn.
Hún María sem er að verða tólf ára var með okkur í för. Hún varð auðvitað að pósa í þessu flotta umhverfi.
"Sjáið tindinn þarna fór ég" orti skáldið og líklega er María að hugsa eitthvað á svipuðum nótum.
Grábrók er fagurmyndaður gíghóll, 173 m, rétt norðaustan við Hreðavatn. Úr Grábrók, Grábrókarfelli (Rauðbrók) og Litlubrók (Smábrók) rann Grábrókarhraun fyrir um 3000 árum. Hraunið stíflaði Norðurárdal og myndaðist stöðuvatn þar fyrir ofan sem síðar hvarf og skildi eftir rennisléttan botn þar sem er dalbotninn nú. Göngustígar eru upp á Grábrók og bílastæði undir fellinu enda er útsýni af fellinu frábært um Norðurárdal. Herðavatnsskáli stendir undir fellinu sunnanverðu og Bifröst er mitt á milli þess og Hreðavatns.
(Gúgglað af netinu)
Síðan var haldið aftur af stað og norður yfir Holtavörðuheiði.
Það er löng hefð fyrir hinu klassíska pylsu og kók eða kaffi og með því og pissustoppi í Staðarskála, en senn munu leiðir um sveitina liggja með öðrum hætti. Nýr Staðarskáli er í byggingu niðri á sléttunni upp af Hrútafjarðarbotni og er áætlað að nýja leiðin verði tekin í notkun jafnvel í næsta mánuði. Reynist það rétt er þetta líklega í síðasta skipti sem ég kem við í Staðarskála (innan tíðar hinum eldri) sem hefur vakað við veginn síðan ég man eftir mér.
Eftir að hafa ekið um Ísbjarnarslóðir á Þverárfjalli og staldrað þar við í berjamó um stund án þess að þora langt frá bílnum, lá leiðin niður í Skagafjörð og í gegn um Sauðárkrók. Ég varð auðvitað að smella mynd af Kaffi-Krók sem staðið hefur þarna heldur óásjálegur síðan þ. 18. jan sl. þegar eldur kom þar upp. Ekki veit ég hvort stendur til að endurbyggja þetta hús eða rífa það.
Húsið var byggt 1887 af Vigfúsi Guðmundssyni Melsteð. Þar bjuggu fjórir sýslumenn Skagfirðinga. Fyrstur Jóhannes Ólafsson, faðir Alexanders háskólarektors, þess sem flugvöllur Skagfirðinga sækir nafn til. Þar bjó einnig, og verslaði, J. Franch Michelsen, úrsmiður, og var æskuheimili Michelsenbræðranna í þessu húsi.
Undanfarin ár hefur veitingahúsið Kaffi krókur verið þarna til húsa, Jón Daníel Jónsson veitngamaður þar, segir að aðkoman hafi verið ófögur eftir brunann. Það standi varla steinn yfir steini. Jón Daníel segir að húsið sé ekki fallið en búið sé að rjúfa þakið þannig að öll efri hæðin er ónýt og brunnin. Þá séu töluverðar skemmdir eftir reyk og vatn. Hann segir óvíst á þessari stundu hvort hægt sé að endurbyggja húsið.
Slökkviliðsmaður slasaðist á vettvangi þegar þakbiti féll á hann, en meiðsl hans reyndust minniháttar.
Og eðlislæg forvitni mín rak mig auðvitað til að "gúggla" þennan mola um þetta hús.
Ég var kominn eldsnemma á ról á laugardeginum og út á rúntinn. Ég skrapp út í Hvanneyrarkrók að líta á hina verðandi baðströnd bæjarbúa sem mig minnir að hafi verið öllu grýttari hér í eina tíð.
Ég fór líka inn í kirkjugarð og gjóaði augunum upp í Skarðdal. Þarna uppi á fjallsbrúninni er Siglufjarðarskarð, hin gamla leið sem er reyndar ekki svo gömul ef betur er að gáð. Siglufjarðarskarð var gert akfært árið 1946 en Strákagöng voru formlega tekin í notkun 1. september 1968. Skarðið var því ekki í notkun sem aðalleið nema 22 ár sem er öllu minna en ég hef nokkru sinni hugsað út í.
Eftirfarandi má lesa á vef Fjallabyggðar.
Mjög kvað að illum anda í Skarðinu sem ásótti menn á fyrri tíð svo að leitað var liðsinnis sr. Þorleifs Skaftasonar í Múla árið 1735. Hinn andheiti guðsmaður hlóð þar altari úr grjóti, vígði staðinn og stefndi öllu illu í Afglapaskarð þar litlu austar. Síðan hefur fararheill fylgt flestum þeim sem á annað borð rötuðu rétta leið og gerðu bæn sína við altarið. Árið 1946 var bílvegur lagður yfir Siglufjarðarskarð. Fram að því höfðu allir meiriháttar flutningar á fólki og varningi farið um sjóveg til og frá Siglufirði. Mikil samgöngubót var að Skarðsveginum þótt fær væri aðeins fáa máuði á ári. Óhöpp eða slys á hinum nýja vegi eru ekki í frásögur færandi. Reynt er að halda leiðinni opinni fyrir jeppa flest sumur.
Á leiðinni í bæinn mátti sjá að Hestadagar Glæsis, Gnýfara og Svaða stóðu yfir.
Fjöldi hesta í bænum var langt yfir því sem venjulegt er.
Nú voru fleiri vaknaðir og María var alveg til í að kíkja á skógræktina.
Þær María og Magga fóru því með svolítið plastbox með sér þangað, en eftir að hafa gengið um þennen frábæra stað fóru þær upp fyrir girðingu og suður yfir ána í leit að berjum. Ég hafði hins vegar allt annað á prjónunum.
Frá Skógræktinni lá leiðin upp á við. Hærra og hærra.
Vegurinn upp í skarðið var með allra besta móti.
Og þegar komið var í háskarðið var auðvitað rölt um og horft inn Skagafjörðinn og litið til fjallahringsins.
Þessar fjallseggjar, Skarðshnjúkurinn og Afglapaskarðið togaði í mig. Ég hafði ekki tekið með mér neina skó til að ganga á fjöll, en það var nú kannski í lagi að fara bara eitthvað mjög stutt. Stafirnir frá þeim skólasystrum mínum Friðu Birnu, Klöru, Oddfríði og Stínu o.etv. fleirum voru í skottinu sem skipti jú stóru máli.
Ég klifraði því upp á brúnina austan skarðsins.
Svo var gengið af stað eftir egginni og ekki hvikað frá henni. Það var klifrað yfir björg en ekki krækt fyrir þau og enginn afslattur gefinn af markmiðinu.
Sums staðar var alveg þokkalega greiðfært.
Ég gekk fram á þessi tvö lömb sem voru að næra sig nokkuð neðan við brúnina. Ég skil ekki alveg hvernig þau hafa komist þangað því bæði ofan og neðan við þau er mikið þverhnípi.
Samkvæmt upplýsingum sem finna má a www.snokur.is er það Skarðshnjúkurinn sem er framundan. Á sama vef er að finna eftirfarandi:
Sunnan Skarðshnjúks og norðan eru eggþunnir hryggir sem tengja saman háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan). Norðan hnjúksins er Siglufjarðarskarð en að sunnan Afglapaskarð. Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan.
Hann er nokkuð klettóttur í toppinn en ekki þýðir að fást um það. Því eins og áður sagði skal enginn afsláttur gefinn og því verður farið beint yfir en ekki á "skjön" við hann. Skipun dagsins er "beint af augum..."
Og stundum var horft um öxl yfir farinn veg.
Fyrir neðan breiddi Skarðdalurinn úr sér og fjörðurinn virtist heldur lítill. Það er nú yfirleitt alltaf svolítið gaman að vera "hátt uppi."
En áfram var haldið.
Efsta beygjan á veginum siglufjarðarmegin virtist vera langt fyrir neðan.
Nú var aðeins svolítill spölur eftir.
Og loksins var komið ofan í hið óttalega Afglapaskarð.
Leiðin upp úr því hinum megin var bæði klettótt og brött.
Það stóð ekki til að fara lengra og eiginlega var þetta hæfilegur áfangi í bili, enda bauð útbúnaðirinn tæplega upp á frekari göngu.
Skyggni var með besta móti og Grímsey sást ótrúlega vel ofan af fjallinu.
Í Afglapaskarði.
Þessi staður hefur alla tíð verið svolítið forboðinn í huganum, enda nær eingöngu tengdur gömlum sögnum um ill öfl og mannskaða. ég er þó þeirrar skoðunnar að hann sé stórlega vanmetinn sem áfangastaður göngumanna. Úr skarðinu er frábært útsýni og þarna hefur vissulega hluti sögunnar orðið til þó hann sé kannski ekki sá gleðilegasti a.m.k. í samgöngumálum.
Á öldum áður villtust menn sem komu úr Skagafirði og Fljótum stunduim í vondum veðrum eða þéttri þoku og töldu þetta vera Siglufjarðarskarð. Sæmilega greiðfært er upp að skarðinu vestan megin frá, en þverhnípi mikið að austan. Hröpuðu þeir því oft í björgunum sem fóru þessar villur.
Þetta skemmtilega lagaða bjarg stendur rétt neðan við brúnina og bendir eins og fingur til himins.
Ég heyrði skíðamann á Siglufirði kalla þetta "skítuga skaflinn."
Og þetta skemmtilega sjónarhorn varð að festa í flögu.
"Undir stórum steini" eru nokkur ágæt sæti fyrir lítinn hóp ferðalanga sem vilja kasta mæðinni.
Mér virðist sem ekki leggi margir leið sína á þessar slóðir og þykir mér það heldur miður. Ummerki um mannferðir eru ekki sjáanlegar. Væri ekki ráð að safna saman þeim heimildum og munnmælum sem til eru um þennan stað því þær munu vera einhverjar, og gera hann síðan "ofurlítið frægan" og þá í leiðinni forvitnilegri? Ef það gæti orðið til þess að draga eitthvert "sófadýrið" í svolitla heilsubótargöngu væri vissulega betur af stað farið en ekki. Hins vegar tel ég þennan stað vera eina perluna í hinni miklu fjallafesti sem umlykur okkar ágæta bæ. Fjöllin eru nefnilega vannýtt auðlind sem vert er að huga betur að þrátt fyrir svolitla vakningu í þeim efnum að undanförnu.
Ef þessi mynd er borin saman við myndina fyrir ofan sést að hún er tekin á sama stað en er nokkuð breytt. Í staðin fyrir stafina er komin svolítil varða þarna í mitt skarðið. Von mín er sú að sem flestir eigi eftir að leggja stein í hana á leið sinni um hin Siglfirsku fjöll.
Hún er ekki mjög stór, en nóg er af grjótinu þarna og mjór er mikils vísir.
Eftir dágóða dvöl var kominn tími til að ganga af fjallinu, eða alla vega þessum hluta þess. Ég valdi að fara sömu leið niður og þeir ógæfumenn fetuðu upp fyrir nokkrum árhundruðum sem ekki auðnaðist að ná á áfangastað. Sú leið er létt til göngu og liggur niður að Skarðsveginum Hraundalsmegin.
Hún er hins vegar svolítið grýtt, en vel er hægt að sneiða hjá því versta.
Þegar niður á veginn er komið er örstuttur spölur upp í Siglufjarðarskarð.
Ég var nú búinn að loka hringnum og kominn aftur á byrjunarreit ef svo mætti segja.
Horft til Afglapaskarðs frá Siglufjarðarskarði. -
Eins og sjá má getur leiðin líka verið bæði stutt og létt ef menn vilja og heppilegt er þá að ganga upp frá miðri brekkunni austan skarðs.
En það var ekki hægt að yfirgefa Skarðið öðruvísi en að kíkja líka aðeins upp norðan þess. Þar er greinilega talsvert gengið og myndast hefur slóð upp á brúnina. Héðan er ekki langt í Illviðrishnjúk, en milli hans og skarðs er fjall eins og sjá má á myndinni. Ég er búinn að leita talsvert og spyrjast fyrir um hvað þetta fjall heiti, en ekkert fundið enn og enginn hefur getað svalað forvitni minni.
Ég er að vísu ekki enn búinn að spyrja Hannes Bald, Palla Helga eða Örlyg.
Hraunadalur.
Skarðdalur.
Héðan sést vel yfir eggirnar sem er mjög skemmtilegt að fara þó ég mæli alls ekki með þeim fyrir lofthrædda.
Á leiðinn niður á láglendið staldraði ég við og horfði til Afglapaskarðs. Þetta er síður en svo árennilegt hérna megin frá.
En nú var kominn tími til að vitja berjatínslufólksins og ferja það heim.
Eftir svolítið sýnishorn af bláberjaskyri með óblönduðum rjóma var kominn tími á svolítið rölt um bæinn. Við smábátabryggjuna eða Bátabryggjuna eins og hún hefur alltaf verið kölluð gat að líta þetta forláta skilti. Þarna er lýst á myndrænan hátt og með talsverðri litagleði fyrirætlunum þeirra stórhuga sem standa að Rauðku ehf, en það eru þeir Róbert Guðfinnsson og Hörður Júlíusson. Eftir því sem mér skilst er hugmyndin m.a. eða kannski aðallega sú að gera út á sjóstöng og flytja þá inn viðskiptavini sem hafa efni á þeim lúxus sem boðið verður upp á. Þá hafa þeir félagar einnig fest kaup á 6 íbúðum í bænum vegna fyrirhugaðrar starfsemi. Ef þessar hugmyndir ganga eftir er hér verið að gera mikið átak í atvinnumálum bæjarins í langan tíma og vona ég bara að draumar þeirra félaga rætist til hins ítrasta.
Það er að verða miklil breyting á þessum gömlu húsum þar sem áður var aðstaða trillukarla, veiðarværageymslur, salthús o.fl.
Og ekki skemmir umhverfið.
Hér var áður vegur sem lá frá Suðurgötu og niður á Snorragötuna. Þegar sú fyrrnefnda var breikkuð breyttist vegurinn í stíg. Mér finnst ekki mjög langt síðan að ég gekk upp þessa brekku frá KEA síldarplaninu þar sem Sóley amma saltaði. Þá mætti ég vörubíl ekki ósvipuðum þeim sem ekur gjarnan um götur bæjarins meðan Síldarævintýrið stendur yfir.
Þetta hús hafa Veraldarvinir eignast, en þeir hafa verið iðnir við að fegra og snyrta bæinn og umhverfi hans undanfarin ár. En þegar litið er til húss kemur gamalt máltæki upp í hugann þar sem talað er um að "sumum fari betur að reita arfa í annarra manna görðum en sínum eigin." Rétt er að taka það fram að þetta innskot er síður en svo illa meint...
Ég hitti minn ágæta sveitunga Steingrím (Lífið á Sigló) á nýju vespunni sinni niðri í bæ.
Þegar ég fór með rusl í Seyru var ekki hjá því komist að taka eftir hvað allt gámasvæðið var orðið yfirmáta snyrtilegt. En ég sá þetta varadekk í dekkjastafla og við svolitla athugun mátti greinilega sjá að það hafði aldrei nokkurn tíma farið undir bíl.
Það var farið að fjölga á Aðalgötunni. Sæunn systir mín var komin í bæinn og við röltum einn hring um eyrina í blíðunni. "Þessi bátur var á Skaganum" sagði hún en þar þekkir hún vel til. Það var því ekki úr vegi að mynda þau saman.
Slippurinn hefur alltaf haft mikið aðdráttarafl á mig, en hann er eitt af þeim "kennileitum" á þessum slóðum sem hvað minnst hafa breyst síðustu hálfu öldina eða rúmlega það. Þangað fór ég að leggja leið mína um svipað leyti og ég byrjaði í Barnaskólanum, eða að "heimsækja afa í vinnuna" eins og ég kallaði það. Eftir á að hyggja er það alveg furðulegt hvað þeir Siggi Björns, Jón Páls svo og Halli Þór og fleiri á Rauðkuverkstæðinu hinum megin götunnar þoldu guttann.
En sleðinn hefur ekki runnið niður teina sína um langt skeið eins og sjá má.
Út við Öldubrjót liggur þetta fley sem "misst hefur ofan af sér."
Flest bendir til þess að hér sé komið Hegranes SK 2.
Og þessi lyftari sem lokið hefur því hlutverki að þjóna herrum sínum og létta þeim störfin.
Sæunn var hrifin af sandströndinni og var fljót að bregða sér úr skónum.
En það fjölgaði enn í húsi því Magnús frændi minn var einnig kominn í bæinn.
Daginn eftir var kominn tími á aðra skógarferð og það var jafnvel enn betra veður en daginn áður. það kunnu allir vel að meta Leyningsána og fossinn.
Og Maggi mundaði myndavélina í þessu frábæra umhverfi.
Svo var tekin hópmynd af öllum og engan vantaði því myndavélin beið meðan ég "bætti mér í hópinn."
Sæunn litla systir, Ásdís dóttir hennar, Dagný vinkona Ásdísar og litla frænkan María.
Meðan við stöldruðum við í Skógræktinni fóru hestamenn hjá á leið sinni yfir skarðið að loknum Hestadögum.
Við fórum hins vegar hvergi. - Ekki næri því strax.
Þegar heim var komið var sest að "kaffiogmeððí." Frönsk súkkulaðikaka með nýtíndum bláberjum og þeyttum rjóma, mikil og skrautleg rjómaterta, dularfull kryddkaka gerð eftir leyniuppskrift sem geymd er í bankahólfi, pönnukökur með jarðarberjasultu og rjóma og svo mætti lengi telja. Til að kóróna herlegheitin hafði Sæunn tínt ýmis konar blóm og grös úti í hinni guðsgrænu náttúru og gerði úr fallegan vönd sem hún kom fyrir í gömlu kaffikönnunni hennar ömmu. Og auðvitað voru nokkrar skærgular Sóleyjar í honum.
Svo hófst afmælisveislan.
Eftir síðustu ferð inn að leiði afa og ömmu var lagt af stað suður á bóginn.
Þegar ekið var fram hjá tjaldstæðinu mátti sjá þennan listamann vera að mála mynd af bátadokkinni, Sunnuplaninu, pollinum, Stálþilinu og öllu öðru sem fyrir augu bar með Hólshyrnuna í forgrunni.
Áður en ekið var inn í Hvalfjarðargöngin var staldrað við því himinninn var orðinn óvenju rauður og gulur, kyrrð næturinnar hafði nú færst yfir og þessi mávur sat sem fastast á þaki bíls sem hafði verið lagt á stæðinu fyrir ofan gatnamótin út á Akranes.