30.08.2008 05:47

Hænur kunna ekki að synda.



495. Eftirfarandi saga er sönn
þótt ótrúleg sé. Fáeinum atriðum hefur þó verið breytt, engum aðalatriðum þó og hún færð lítillega í stílinn til að gera hana skemmtilegri aflestrar.

Það var vor í lofti og ég hafði vaknað snemma þennan sunnudagsmorgun. Himinninn var eins blár og hann getur frekast orðið og sólin hellti geislum sínum yfir lönd og höf. Ég opnaði gluggann, horfði út á grasflötina fyrir framan húsið og heyrði að það voru fleiri vaknaðir en ég. Fuglasöngur rauf kyrrðina sem lá yfir bænum eins og silkimjúkt teppi. Innan dyra var hins vegar grafarþögn og engin hreyfing. Skyndilega heyrðist daufur dynkur við hliðina á mér þegar kötturinn stökk upp á borðið og teygði trýnið upp að opnum glugganum. Hann hafði heyrt fuglasönginn fyrir utan og sýndi þessum hljóðum talsverðan áhuga. Hann mjálmaði hljóðlaust og veiðihárin titruðu lítillega þegar hann skimaði eftir einhverri hreyfingu í trénu sem teygði sig upp með húsveggnum. Ég settist niður við eldhúsborðið og fékk mér meira kaffi. En fylgdist áfram með kisa sem gægðist út en fannst líklega of langt frá glugganum og niður til jarðar. Eftir að hafa notið útsýnisins um stund, stökk hann niður á gólfið og stillti sér upp við tóman dallinn sinn og mjálmaði aftur. En í þetta sinn varð það ekki hljóðlaust og hann horfði á mig eins og hann vildi koma einhverjum mikilvægum skilaboðum til mín. Ég skildi alveg inntakið og meininguna og beygði mig eftir fötunni með þurrfóðrinu og hellti svolitlu í matarílátið hans.

Á svona morgnum er ekki hægt að fara að sofa aftur því þeir eru einfaldlega of góðir til þess. Þeirra ber að njóta til hins ýtrasta og reyna að fá sem allra mest út úr þeim. Ég stóð upp og gekk til dyra. Á leiðinni út teygði ég mig eftir jakkanum og renndi mér í skóna á pallinum fyrir framan dyrnar. Fáum mínútum síðar var ég sestur undir stýri og lagður af stað eitthvað út í buskann. Ég vissi svo sem ekkert hvert ferðinni væri heitið, heldur ók bara beint af augum. Ég skrúfaði niður rúðuna og setti olnbogann út um gluggann. Ferskur blærinn lék um mig og toppurinn lyftist frá enninu.
Skyldi vera búið að opna nokkra ísbúð svona snemma?
Líklega var það nú ekki svo.
Ég var búinn að aka í heilar 10 mínútur þegar ég mætti loksins bíl.
Hann hlaut að vera á leiðinni suður á völl. Fyrir utan fólkið sem í honum var og virtist vera nývaknað og svolítið grámyglulegt að sjá, mátti greina nokkrar ferðatöskur sem hafði verið staflað hverri ofan á aðra í aftursætinu.
En að vera að fara héðan á svona góðum degi?

Eftir svolitla stund var ég kominn niður að gamla Iðnó. Svolítil kvak og skvamphljóð bárust inn um bílgluggann sem enn var galopinn, en síðan önnur hljóð sem mér fannst ekki falla alveg eins vel að morgunkyrrðinni. Ég gat ekki betur heyrt en einhver undarleg hróp og köll blönduðust inn í fuglakvakið og forvitni mín var vakin. Ég beygði inn á Lækjargötuna, lagði bílnum og gekk að tjörninni. Tvær ungar stúlkur voru greinilega eitthvað ósáttar við mann á miðjum aldri sem stóð úti í tjörninni og hélt á hænu.
Ég deplaði augunum nokkrum sinnum og velti fyrir mér hvort mér hefði virkilega ekki missýnst, en svo reyndist ekki vera.
Maðurinn sem virtist vera fastur í leðjunni á botni tjarnarinnar var greinilega eitthvað að skammast út í stelpurnar sem tóku því ekki vel og lásu honum pistilinn á móti.
"Andstyggilega blóðuga kjötætan þín, ætlarðu ekki að leyfa hænunni að njóta þess að vera frjáls innan um hina fuglana" hrópaði önnur stúlknanna.
"Ætlarðu kannski að éta hana á staðnum" bætti hin við.
"Fíflin ykkar, ætlið þið að drekkja hænunni" þrumaði maðurinn á móti.
"Réttast væri að rassskella ykkur" bætti hann við.
"Já, var það ekki. Þú ert þá líka perri karlpungurinn þinn." Sagði sú sem fyrr hafði talað.
Ég fikraði mig nær og sperrti eyrun, en reyndi samt að láta ekki mikið á mér bera. Þetta virtist vera hin undarlegasta uppákoma og ég vildi gjarnan vita meira um hvað hér væri á seyði.
En þær stöllur komu fljótlega auga á mig og snéru sér þá að mér. Þeim var mikið niðri fyrir og töluðu ýmist til skiptist eða báðar í kór.
"Viltu hjálpa okkur að láta klofblauta perrann þarna sleppa hænunni okkar?"
"Við ætluðum að frelsa hana og leyfa henni að synda á tjörninni með hinum fuglunum, en þá kom karlfíflið og óð út í og náði henni."
"Og hann vill ekki sleppa henni aftur."
"Það eiga öll dýr rétt á því að vera frjáls."
"Já, og það ætti aldrei að setja dýr í búr."
Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að bregðast við.
"Eigið þið þessa hænu" spurði ég svolítið hikandi.
Þær litu hvor á aðra og þögnuðu, en aðeins andartak.
"Nei sko, við fórum í nótt og hleyptum út helling af hænum út úr einhverjum hænsnakofa."
"Okkur finnst að það eigi ekki að loka dýr inni."
"En við náðum svo bara einni og settum hana í bílinn."
"Og slepptum henni hér."
"Reyndar skeit hún í aftursætið á bílnum."
"Við borðum heldur alls ekki kjöt."
"Eða við erum alla vega hættar því."
Ég velti fyrir mér hvort þær væru annað hvort drukknar eða á einhverjum lyfjum, en gat ekki séð að um neitt slíkt væri að ræða.
"Hentuð þið svo hænunni í tjörnina?" Ég gat ekki leynt undrun minni.
"Já auðvitað, þetta er miklu náttúrulegra umhverfi fyrir hana."
"Hérna fær hún að vera innan um sína líka, endur, gæsir, máva og svoleiðis."
"Og við erum ekki hættar, við erum eiginlega rétt að byrja."
"Byrja?" Ég komst ekki lengra því þær tóku strax af mér orðið.
"Já, við ætlum að halda áfram að frelsa dýr"
"Og fá fleiri með okkur."
Það hafði ekkert heyrst í manninum meðan þær létu dæluna ganga, en honum hafði nú tekist að brjótast upp úr leðjunni á tjarnarbotninum, stóð á bakkanum og talaði í gemsa.
Hænunni hafði nú tekist að losna úr fangi hans og tók sprettinn eftir brúnni rakleiðis að Ráðhúsinu. Hann hljóp á eftir henni en náði henni ekki fyrr en við aðaldyr hins reisulega og virðulega húss. Þetta var reyndar svolítið spaugilegt allt saman og ég gat ekki annað en flissað.
"Þetta er ekkert fyndið." Önnur stúlknanna hleypti í brýrnar.
"Hvað eruð þið eiginlega gamlar?" Ég gat ekki betur séð en að þær ættu báðar að vera komnar af óvitaaldrinum.
"Við erum báðar 17" svaraði önnur af bragði.
"Hvaða máli skiptir það. Ert þú kannski líka perri fíflið þitt?"
Nú fjölgaði í hópnum því tveir laganna verðir komu röltandi fyrir hornið á Iðnó.
Maðurinn kom í sama mund gangandi frá Ráðhúsinu, illa til reika en með hænuna í fanginu.
Hinir uppáklæddu opinberu starfsmenn horfðu furðu lostnir á hann og síðan stúlkurnar tvær.
Eftir að hafa spurt lítillega út í þessa undarlegu uppákomu, virtust þeir átta sig á helstu atriðum málsins.
"Stúlkur, viljiði ekki koma aðeins og spjalla við okkur?"
Og þær voru nú heldur betur til í að tala máli hænunnar og réttlætisins.
"Þið verðið líka að taka þessa tvo perrakarla og loka þá inni" var það síðasta sem ég heyrði frá þeim.
Annar "lögginn" spurði klofblauta manninn með hænuna hvort hann væri til í að hinkra með "sundfuglinn" í fáeinar mínútur þar til annar bíll kæmi.
Hann jánkaði því og við stóðum þarna þrjú eftir. Ég, blauti maðurinn og hænan.
"Vantar þig nokkuð svona hænu" spurði hann og glotti dauflega.
"Nei, ég á kött og læt það duga í bili" svaraði ég.
Svo gekk ég áleiðis að bílnum.
Þegar heim var komið fékk ég mér meira kaffi og brauðsneið með kjúklingaáleggi.

E.S. Bestu þakkir til Gullu fyrir innblásturinn.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 158
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480875
Samtals gestir: 53309
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 04:54:51
clockhere

Tenglar

Eldra efni