19.09.2008 05:58

Vinur minn Guðmundur Skoti og bensínverðið.



500. Eftirfarandi saga er dagsönn
en það skal í leiðinni viðurkennt að hún er vissulega lítillega stílfærð. Guðmundur heitir t.d. ekki Guðmundur í alvörunni, en málið snýst líka hvort eð er um allt annað en það. Viðurnefnið "Skotinn" fékk hann mjög fljótlega eftir landsleik við Skota þann 10. september s.l. Ekki vegna þess að hann gæti rakið ættir sínar til Skotlands, sé boltafíkinn nema rétt í góðu meðallagi eða að nokkuð annað tengi hann beinlínis við það ágæta land. Ég spurði hann á dögunum hvort hann ætlaði ekki að fara á völlinn og sjá leikinn, en að sjálfsögðu var það ekki inni í myndinni vegna þess að það kostaði nú sitt og hann skildi raunar ekkert í þeim sem það gerðu í stað þess að sitja heima yfir sjónvarpinu og horfa á sama atburð á sama tíma án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir. Og þar komum við einmitt að kjarna málsins því þegar Skotarnir fóru að flykkjast til landsins skömmu fyrir leikinn og sáust gjarnan á strætum og torgum með bauk í hendi, rifjaðist upp það sem í eina tíð var af mörgum talið jafnvel vera eitt af þjóðareinkennum þeirra.

Jú, Skotasögurnar hér á árum áður gengu út á hreint ótrúlega sparsemi þeirra en voru jafnframt skemmtilegar skopsögur sem alltaf mátti segja aftur og aftur og hafa endalaust gaman af. En það verður auðvitað að geta þess að þeir eru sjálfir nefndir til sögunnar á undan öllum öðrum þegar spurst er fyrir um hugsanlega höfunda þessara sagna. Það segir okkur að þeir hafi góðan húmor fyrir sjálfum sér og sínum þjóðlegu sögum, sem segir okkur jafnframt og í leiðinni heilmikið um gott innræti þeirra og létta lund. Enda sást það á dögunum að þar fóru um götur hinir vænstu menn, en ekki einhverjar andstyggðar boltabullur. Vinur minn Guðmundur (núorðið oftlega kallaður Skoti) er um margt líkur þessum mönnum, en fellur einnig sérlega vel inn í gömlu Skotasögurnar. Hann hefur ágætan húmor fyrir sjálfum sér og er hinn vænsti félagi í alla staði, en það verður líka að segjast að hann er ákaflega sparsamur þrátt fyrir að geta einnig verið hinn mesti höfðingi heim að sækja ef svo ber undir.

 

Fyrir nokkru síðan þegar bensín og olíuverð var í sínum hæstu hæðum hingað til og umræðan í þjóðfélaginu snérist meira um það en nokkuð annað, lágu leiðir okkar Guðmundar saman sem svo oftlega gerist.

Yfirbragð hans og fas var allt óvenju hæglátt, hann var þegjandalegur aldrei þessu vant og eiginlega svolítið dapurlegur ásýndum. Ég spurði hann því hvort eitthvað amaði að, því hann var greinilega ekki líkastur sjálfum sér þess stundina. Hann svaraði því ekki beint en sagðist hafa verið að taka bensín rétt áðan. Sú skýring nægði mér í bili svo ég spurði hann annarra frétta ef einhverjar væru. En hugur hans var enn við bensíndæluna og hann átti greinilega erfitt með að slíta sig þaðan.

"Segðu mér," sagði hann og ræskti sig svolítið.

"Ef þú kemur að brekku og ert á leiðinni niður, læturðu þá bílinn ekki fríhjóla til að spara bensín?"

Ég hnyklaði brýrnar og annað eyrað á mér lyftist lítillega. Var þetta grín eða kannski hin fúlasta alvara? Hvort tveggja gat alveg átt við þegar Guðmundur var annars vegar.

Nei, ég hafði nú ekki vanið mig á það, þrátt fyrir hækkandi orkuverð.

"En þegar þú kemur að ljósum, drepurðu þá ekki á bílnum meðan þú bíður eftir grænu?"

Ég horfði fast á hann til að reyna að átta mig á hvort ekki gæti verið um að ræða tilraun til að draga mig út í umræðu sem seinna væri hægt að herma upp á mig. Útsetja hana upp á nýtt, snúa að nokkru leyti upp í andhverfu sína og endursegja á góðri stund með tilheyrandi ýkjum og tilþrifum mér til minnkunar.

Ég benti honum á að startsopinn væri víst drjúgur og mér þætti líklegt að hann eyddi jafnvel meira bensíni með þessari aðferð. Hann sagðist vera búinn að reyna mikið að reikna þetta út á blaði, en þar sem stærðfræði hefði aldrei verið hans sterkasta hlið fengi hann ekki neina vitræna útkomu út úr dæminu. Hins vegar hefði hann ákaflega sterka tilfinningu fyrir því að með því að drepa á bílnum við umferðarljós og láta hann fríhjóla niður brekkur, gæti hann náð til baka allra síðustu bensínhækkununum. Ég vissi að frekari umræða um þessi mál var í sjálfu sér með öllu óþörf, Guðmundur hefði tekið ákvörðun sem ekki yrði hnikað hvað sem tautaði og raulaði.

Og hvers vegna ætti ég svo sem að reyna að fá hann til að hafa aðra skoðun á málinu?

 

Það var svo skömmu síðar að ég heimsótti Guðmund og var hann staddur fyrir framan húsið þegar mig bar að garði. Hann tók mér fagnandi eins og hann átti venju til, en bað mig að hinkra aðeins því að bílnum hans var lagt þannig að hann tók bæði bílastæðin sem tilheyrðu húsinu. Það var nú ekki mikið mál og ég fylgdist með honum ganga að bíl sínum með lyklana á lofti og opna hann. En í stað þess að setjast inn setti hann lyklana í og snéri til hálfs, tók hann úr gír og lagðist síðan með bakið á hurðarpóstinn. Bíllinn mjakaðist af stað aftur á bak og Guðmundur snéri stýrinu og rétti hann af. Síðan ýtti hann í hina áttina en það var heldur meira mál því stæðinu hallaði lítillega að götunni. Hann varð því fljótlega eldrauður í framan af áreynslu en bíllinn tók að hreyfast.

"Er bilað?" Kallaði ég til hans.

"Nei" svaraði hann og andaði út í leiðinni.

"Slappaðu af, ég skal aðstoða þig í málinu."

"Nei, bíddu bara, ég er að hafa þetta." Guðmundur Skoti rumdi orðunum út úr sér og varð ennþá rauðari í andliti.

Það var engu líkara en honum hafi runnið í skap því hann færðist nú allur í aukana og bíllinn nálgaðist húsvegginn hægt og hægt.

En þess er vert að geta að Guðmundur er tiltölulega lítil maður vexti og grannur, og þurfti hann því að hafa nokkru meira fyrir þessum tilfæringum en sæmilegur meðalmaður hefði þurft. Auk þess er hann nokkuð farinn af kröftum og öllu líkamlegu atgervi. Illar tungur segja að það sé vegna vannæringar en ég vil nú trúa að einhverjar aðrar skýringar séu á því.

Þar kom að hann lét sig falla inn í bílstjórasætið og sló aftan á gírstöngina þannig að bíllinn var nú í fyrsta gír og hreyfðist því hvergi.

Þarna lá hann svolitla stund meðan mesta mæðin fór af honum og andlitið öðlaðist sitt rétta litarraft á ný.

Svo stóð hann upp, lokaði bílhurðinni og bauð mig velkominn inn á stæðið með miklu handapati, undarlegum tilburðum sem áttu líklega að vera upp á Franska mátann frá tíma Loðvíks 14., en allt þetta endaði í djúpri hneigingu.

"Komdu í veislukaffi, ég var að kaupa Frón mjólkurkex" sagði hann og rak upp mikla hlátursroku.

Ég renndi inn í stæðið og spurði í leiðinni hvað væri að bílnum.

"Það er ekkert að bílnum" svaraði Skotinn.

"Af hverju þurftir þú þá að ýta honum?"

"Sko, heldurðu að ég geri þessum feitu olíufurstum það til geðs að fara að setja í gang fyrir svona skitterí?"

Hann hristi höfuðið hægt og glotti með öllu andlitinu.

"Nei ekki hann Guðmundur Skoti."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481056
Samtals gestir: 53318
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:33:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni