26.09.2008 11:46

Tíðindi og þó engin tíðindi



Það er kominn snjór.

502. Þegar ég kom heim um sjöleytið
tók ég eftir því að nokkur hvít korn flögruðu sakleysislega umhverfis mig, en slíkt hef ég ekki séð mánuðum saman. Þegar ég fór aftur til vinnu um áttaleytið voru þau mun fleiri og þéttari. Og þegar ég kom aftur heim rétt fyrir ellefu var færð tekin að spillast og mátti sjá tæki vegagerðarinnar á ferðinni. Þetta er fyrsta sýnishornið af vetrinum sem við fáum að sjá hérna á suðvesturhorninu. Á móti mér tók "lítill drengur" sem er auðvitað ekkert lítill lengur. Hann var að koma í fyrsta sinn akandi heim úr vinnu og lenti þá í snjókomu. Hann var nefnilega að taka bílpróf í gær og fékk bráðabirgðaskírteini í dag.




Úlfur, úlfur eða bara aulapanik.

Það var mikið sem gekk á á dögunum þegar ég var í þann vegin að leggja af stað á Hallveigarstíg 10 að halda áfram flísalagningu þar sem frá hafði verið horfið deginum áður. Eins og venjulega var aðgætt hvort allt væri til staðar sem þurfti til, og þar á meðal var þreifað á vösum til að fullvissa sig um að lyklar væru til staðar. Það hefur nefnilega oftar en einu sinni komið upp sú staða að ég hef verið kominn niður í miðbæ Reykjavíkur alla leið frá Hafnarfirði, búinn að leggja í stæði og borga alveg helling í stöðumæli þegar það hefur komið í ljós að mér hefur verið húslykla vant. Það er ekki svo lítið skítt því ef maður gluggar í tölulegar upplýsingar um umfang klúðursins, kemur m.a. í ljós að í slíkum tilfellum kostar það akstur samtals upp á u.þ.b. 40 km. þ.e. að heiman, til baka og aftur að heiman áður en hægt er að byrja að vinna.

En að þessu sinni kom það strax í ljós að lyklarnir voru ekki þar sem þeir áttu að vera og umfangsmikil leit hófst, eins og það er gjarnan orðað þegar maður heyrir í fréttum að björgunarsveitir hafi verið kvaddar út vegna einhverra rjúpnaskytta sem rata ekki heim. Það var leitað í öllum vösum, öllum flíkum, í öllum skotum, á öllum gólfum, undir og ofan í stólum og sófum en ekkert fannst. Það var farið út í bíl og hann næstum því skrúfaður í sundur, en ekkert fannst þar heldur. Aftur var farið inn og íbúðin tekin í gegn. Ýmislegt fannst sem hafði verið týnt lengi en ekki þó lyklarnir. Þá var aftur farið í bílinn og hann "gegnumlýstur" en án nokkurs árangurs. Næst var að ganga um stæðið og gangstéttina meðfram húsinu eins og þefdýr með nefið alveg fast niður við jörðu. Mér til mikillar furðu rak ég augun í notaðan smokk (sem ég lét ósnertan), nokkra eyrnapinna, fimmtíukall (klink) frá árinu 1975 (sem ég skakk í vasann), uppþornaðan ánamaðk (sem hefur greinilega verið feitur og pattaralegur í lifanda lífi) og ýmislegt fleira sem ástæðulaust er að telja upp. Ég settist niður eftir tæpa tvo tíma, var nú orðinn ansi pirraður (sem ég verð oft) og velti fyrir mér hvar leita skyldi næst. Mér datt helst í hug að ég hefði misst þá þegar ég steig upp í bílinn inni í Reykjavík í gærkvöldi. Ég lagði því af stað (með heimilishamarinn meðferðis) albúinn því að þurfa að brjóta rúðu til að komast inn. Eftir rúmt korter gekk ég að dyrunum með hamarinn á lofti og málið var leyst.

Lyklarnir höfðu þá verið í skránni allt kvöldið áður, nóttina og þar sem liðið var á daginn. Staðsetning hússins er næstum því eins mikið miðsvæðis og hugsast getur og þarna er oft margt um manninn. Skemmtistaðurinn Lídó er t.d. hinum megin við götuna, aðeins eru örfá skref yfir á Skólavörðustíginn svo dæmi séu tekin og inni eru talsverð verðmæti í verkfærum. Ætli hið skelfilega ástand í miðbænum sem svo oflega er til umræðu þar sem argasti óaldarlýður á að hafa tekið sér bólfestu, hann gengur ruplandi um og lemur hvern þann í götuna sem á vegi hans verður, hafi kannski verið "talað upp" eins og það er stundum kallað?



Sjóræningi í næst, næst, næst, næsta húsi.

Mér hefur fundist það svolítið undarlegt
og eiginlega nokkuð úr takti við það sem er að gerast a.m.k. í næsta nágrenni, að þegar "sannkristnir" Hafnfirðingar draga hínn Íslenska krossfána að hún á sunnudögum um það leyti sem barnamessa er að hefjast í kirkjunni skammt frá, skuli þessi fáni vera dreginn upp á stöng um sama leyti að Öldugötu númer 21.

Hafnfirskur húmor, mótmæli gegn þjóðkirkjunni eða innlegg í vitræna, heimspekilega og þjóðfélagslega umræðu með trúarlegu ívafi sem þó er enn ekki hafin mér vitandi...

Ég veit ekki...




Brókarlalli á röltinu í miðbæ Kópavogs.

Það er nú kannski allt í lagi að fá sér aðeins í tána
og vissulega er sagt að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. En það getur verið býsna strembið að halda þann sjóinn og víst er að margur maðurinn hefur vaknað upp við þann vonda draum að eitthvað fór úrskeiðis í gærkvöldi þrátt fyrir góðan ásetning.

Myndin er tekin í Hamraborg í Kópavogi síðla kvölds á dögunum að viðstöddum nokkrum fjölda fólks sem fylgdist með af mikilli athygli. Tveir uppáklæddir laganna verðir komu þó fljótlega til aðstoðar (því þeir eru jú einu sinni þjónar fólksins) og buðu manninum í bíltúr.

"Heyrðu herramaður, má ekki bjóða þér aðeins á rúntinn?"

Annar lögginn mælti þessi orð og bar sig að eins kaþólskur pokaprestur frá Útnára sem ávarpar páfann á pílagrímsferð sinni til Rómar.

Hinn brosti sínu blíðasta til allra viðstaddra eins og uppistandari að loknu vel heppnuðu kvöldi eftir fjórða uppklapp.

Svo fóru þeir þremenningarnir saman í ökuferð.




Pizza, pizza, pizza...

Ég hef eftir því sem tímar hafa liðið, orðið sífellt minni og lélegri pizzuæta. En þegar það gerist að goggað er og ég legg mér flatbökur til munns og maga, vil ég gjarnan hafa þær bragðmiklar og jafnvel svo mjög að ekki treystast allir til að ganga til fóðrunar af sama garða og ég. Mér finnst það sem ég kalla "barnaafmælisbökur" t.d. með osti, skinku og ananas, heldur daufgerðar og ekki ýta nægilega hressilega við bragðlaukunum. Kannski er þetta eitthvert afbrigði af karlagrobbi, en svona er þetta nú bara. Mér finnst matur og öll sú matargerð sem telst vera upprunin í öðrum löndum og þjóðleg þar á bæ vera eins og einhvers konar áskorun, og mér hættir ofar en ekki til að ganga skrefinu lengra en hóflegt og skynsamlegt getur talist. Þetta flokkast kannski undir einhvern ólæknandi sálrænan kvilla, en það verður þá bara svo að vera.

 

Pizzustaður í nágrenni við mig bauð á dögunum upp á tilboð sem hljómaði svo sem ekkert illa og varð það til þess að ákveðið var að brjóta upp hversdagsleikann og bíta á auglýsingaagnið. Pöntuð var ein "venjuleg" fyrir venjulega fólkið, en svo önnur fyrir okkur feðgana sem var samkvæmt minni forskrift að svo miklu leyti sem hægt var. Ég bað um nautahakk, pepperoni, jalapeno, beikon, lauk, tómata og auka ost, en ferskur chilli var því miður ekki til og piparostur ekki heldur. En svo átti að krydda vel með svörtum pipar og chilikryddi. Ég neita því ekki að ég fann fyrir svolítilli eftirvæntingu því nokkur tími er liðinn frá síðusta flatbökuáti. Þegar svo komið var að því að fóðrun skyldi hefjast, reyndist bakan ógurlega svo sem alveg þokkalega en ekkert umfram það. Mér þótti sérstaklega botninn nokkuð rýr að ofanverðunni miðað við sex álegg og bragðlaukarnir voru ekki í því losti á eftir sem ég vonaðist þó til. Ég mun því að öllun líkindum halda áfram að vera slakur á þessari línunni og jafnvel enn lélegri í áti á hinum ítalskættaða flatmat en áður. Í framhaldinu leyfi mér að spá því að næsta tilraun verði gerð síðla sumars 2009.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 666
Gestir í dag: 125
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496043
Samtals gestir: 54743
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:23:30
clockhere

Tenglar

Eldra efni