11.12.2008 17:04

Vestfirsk bókakynning og hljómsveitin Facon í eftirrétt

520. Í gærkvöldi fór ég á bókakynningu á Catalinu sem Vestfirska forlagið stóð fyrir. Ástæðan var að vísu ekki eingöngu vegna þess að ég sé bókhneigðari nú en áður, heldur miklu frekar að ég lagði til hljóðkerfi og var í leiðinni skipaður eins konar "magnaravörður" sem er gamalt og virðulegt starfsheiti. En það var mikið notað yfir tæknimenn Ríkisútvarpsins meðan það var við Austurvöll og síðar á Skúlagötu. Það var líka löngu áður en tæknin varð eins flókin sem hún er núna og starfið fólst á þessum tíma aðallega í að hækka og lækka, bæta við diskant eða bassa og sjá um að snúrur væru í lagi og tengdar. Eins og mig grunaði reyndist sú vinna sem ég þurfti að inna af hendi minni en látið hafði verið í veðri vaka, því þeir sem notuðu kerfið voru allir gríðarlega miklir reynsluboltar og alveg sjálfbjarga.


Eftir að lesið hafði verið upp úr nokkrum fjölda bóka sem reyndist hver annarri skemmtilegri var tekið svolítið hlé, en eftir það steig nýjasta útgáfa hljómsveitarinnar Facon á svið. Mæting var mjög góð og ástæðan hefur eflaust m.a. verið sú að vel var auglýst á vestfirskum vefsíðum.

En þessi bókakynning er sú síðasta í röðinni af þremur nýverið. Sú fyrsta var í Vík í Mýrdal en þaðan var haldið á Selfoss.

Á vef Önfirðinga má lesa eftirfarandi...

Vestfirðingar, brottfluttir og aðrir fjarri heimabyggð, boða til bókakynningar í Veitingahúsinu Catalinu, Hamraborg 11 í Kópavogi, miðvikudaginn 10. desember n.k. kl. 20:30. Þar verða kynntar og lesið úr þremur af þeim ellefu bókum sem Vestfirska forlagið á Þingeyri gefur út fyrir þessi jól.

Önfirðingurinn Guðrún Jónína Magnúsdóttir á Hellu kynnir bók sína "Birta - ástarsaga að vestan" sem er þriðja og síðasta bókin í þessari ritröð. Áður  komu út bækurnar um Hörpu og Silju 2006 og 2007.

.

Ísfirðingurinn og Flateyringurinn Harpa Jónsdóttir í Vík í Mýrdal kynnir bók sína "Húsið - Ljósbrot frá Ísafirði" sem er saga hússins að Hrannargötu 1 á Ísafirði og fyrst og fremst af fólkinu í kring um það og nánasta umhverfi. Harpa fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2002 og var bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar.

.

Þá kynna Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari þar og Hafliði Magnússon, rithöfundur sem nú býr á Selfossi, bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr. "Melódíur minninganna." Jón Kr. Ólafsson er landskunnur söngvari og söng á sínum tíma með hljómsveitinni Facon á Bíldudal og allir þekkja lag þeirra "Ég er frjáls." Pétur Bjarnason frá Bíldudal, sem samdi lagið, hefur sett saman hljómsveit að þessu tilefni og mun Jón Kr. taka lagið.


Guðlaug Helga Ingadóttir, söngkona á Hvolsvelli afhendir Jóni Kr. undirkjólinn góða sem Guðrún Á Símonar átti. Ljósm.: BIB

Það hljóp á snærið hjá Jóni Kr. Ólafssyni á Hvolsvelli

Vestfirðingar á Suðurlandi stóðu fyrir tveimur bókakyningum á Suðurlandi um síðustu helgi. Troðullt var í Bókakaffi á Selfossi og í versluninni Klakki í Vík í Mýrdal. Á heimleiðinni frá Vík á laugardag var komið við í Kaffi Eldstó á Hvolsvelli hjá söngkonunni Guðlaugu Helgu Ingadóttur og Þór Sveinssyni leirkerasmið  sem voru með aðventusamkomu. Þar afhenti Guðlaug Helga Jóni Kr. Ólafssyni á Bíldudal undirkjól af söngkonunni Guðrúnu Á. Símonar sem Guðlaug Helga lærði hjá á sínum tíma. Var Jón Kr. mjög ánægður með kjólinn og mun hann fá veglegan sess í tónlistarsafni hans á Bíldudal sem heitir "Melódíur minninganna"



Að kynningu lokinni í Vík árituðu höfundar bækur sínar. F.v.: Hafliði Magnússon, Jón Kr. Ólafsson, Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Vík, Kolbrún Matthíasdóttir verslunareigandi í Klakki og Harpa Jónsdóttir.  Ljósm.: BIB

 

Fjölmenni á vestfirskri bókakynningu í Vík í Mýrdal í gær

Fjölmenni var á bókakynningu frá Vestfirska forlaginu á Þingeyri í Vík í Mýrdal í gær hjá versluninni Klakki og var gerður mjög góður rómur að þessari heimsókn Vestfirðinga sem og framlagi vestfirsku heimamannana í Vík,  Hörpu Jónsdóttur listakonu og Kristins Níelssonar skólastjóra Tónlistarskólans í Vík en þau bjuggu á Flateyri um árabil.

Fyrst las Ísfirðingurinn og Önfirðingurinn, Harpa Jónsdóttir í Vík í Mýrdal úr bók sinni  "Húsið - Ljósbrot frá Ísafirði" sem er saga hússins að Hrannargötu 1 á Ísafirði og fyrst og fremst af fólkinu í kring um það og nánasta umhverfi.

Þá kynntu  Bílddælingarnir Jón Kr. Ólafsson, söngvari þar og Hafliði Magnússon, rithöfundur sem nú býr á Selfossi, bók Hafliða um lífshlaup Jóns Kr. "Melódíur minninganna" og Hafliði las úr bókinni.

Jón Kr. Ólafsson er landskunnur söngvari og söng á sínum tíma með hljómsveitinni Facon á Bíldudal og allir þekkja lag þeirra "Ég er frjáls." Stofnuð var sérstök hljómsveit í Vík vegna þessarar samkomu, "Vestfirska-Víkur-bandið" og  Jón Kr. tók lagið  "Ég er frjáls"  með hljómsveitinni.

Að lokinni samkomunni í versluninni Klakki buðu Harpa Jónsdóttir og Kristinn Níelsson vestfirsku gestunu til veislukaffis á heimili sínu í Vík.

 


Troðfullt var á bókakynningu í Bókakaffi á Selfossi í gærkveldi þar sem m.a. Jón Kr. Ólafsson söng síðan "Ég er frjáls" með "Vestfirska Flóamanna-bandinu"

 

En nánar má lesa um málið á http://www.flateyri.is/ auk þess sem Þar sem einnig er að finna mikinn fjölda mynda. Raunar er fjallað svo mikið um þessar skemmtilegu uppákomur að síðan dugir ekki til. Smella þarf á "fleiri fréttir" til að sjá allt það sem sagt er og sýnt.

En ég tók auðvitað nokkrar myndir af "hinni nýju Facon" eins og hún var kynnt á Catalinu.


En Björn Ingi Bjarnason Flateyringur vr kynnir og hélt utan um atburðina.


Nýjasta útgáfa af hljómsveitinni Facon frá Bíldudal.


Söngvarinn Jón Kr.


Hann lygndi augum og þandi raddböndin.


Renndi sér upp og niður tónstigann.


Og tók nokkur dansspor um gólfið í leiðinni.


Svo tóku þessir tveir dúett saman, Jón og hinn söngvarinn sem ég man því miður ekki hvað heitir, en hann var alveg þrælfínn.


Áðstoðarsöngvarinn og gítarleikarinn sungu svo bakraddir.


Og eitt jólalag flaut með.


Gítarleikarinn kom alla leið úr Vík í Mýrdal en ég held að hann sé skólastjóri tónlistarskóla þeirra Mýrdælinga.


Hjörtur er fyrri "hljómsveitarstjóri" Facon meðan hún starfaði af fullum krafti og gerði víðreist á sjöunda áratugnum.


Hann lifði sig mjög svo inn í hina líðandi stund og auðheyrt var að hann hafði áður spilað á pianó.


Pétur Bjarnason tók við hljómsveitarstjórninni af af Hirti en hann samdi líka lagið sem hljómsveitin er svo þekkt fyrir, "Ég er frjáls."


Bassaleikarinn kemur líka að vestan en hann var nemandi Péturs meðan hann var kennari á Bíldudal.

En þarna á Catalinu heyrði ég sögu af Víkurferð þeirra félaga. Seint um kvöldið eftir kynninguna í Klakki var ekið áleiðis til Reykjavíkur. Við Skógarfoss var staldrað við þó nokkuð dimmt væri orðið og svo aftur við Seljalandsfoss, en hann mun vera lýstur upp eftir að skyggja tekur. Jón er þá sagður hafa horft á fossinn um stund en síðan mælt af þunga.

"Þegar við komum vestur þurfum við að lýsa upp Dynjanda."

Verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Arnarfirðinum, því Jón hefur þegar sýnt að hann getur komið ótrúlegustu málum í framkvæmd.


Ólafur Helgi sýslumaður (áður á Ísafirði en nú á Selfossi) sleit síðan samkomunni og flutti kveðjur frá Hallgrími Sveinssyni hjá Vestfirska forlaginu.

En þegar Sýsli var kominn í pontu tók ég eftir að það þurfti að lækka míkrafóninn um eina 20 sentimetra eða svo. Þá mundi ég eftir skondinni sögu sem mér hafði eitt sinn verið "trúað" fyrir. Hann er sem sagt mjög lágvaxinn maður og vafasamar tungur segja hann ávalt ganga í skóm með afar þykkum botni til að sýnast hærri. Þannig var að á meðan hann sat á Ísafirði þurfti hann annað slagið að erindast suður til Reykjavíkur eins og gengur. Eitt sinn var hann í slíkri ferð þegar einhver kemur inn á skrifstofuna og spyr hvort geti verið að Ólafur sé kominn í bæinn. Skrifstofufólkið hélt að svo væri ekki en spyr á móti af hverju sá sem spurði teldi að svo gæti verið.

"Jú, ég þurfti að bregða mér inn á WC-ið áðan og sá að það var búið að setja litlar tröppur fyrir framan toilettið."

Mátti þá sjá brosviprur fara um andlit nærstaddra þó að fáu væri svarað.

En Ólafur Helgi var ekki í bænum svo því var þá slegið föstu að húsvörðurinn hefði líklega verið að skipta um peru.



Bíldælingurinn Hafliði Magnússon laumaðist þó til að taka eins og tvö lög á nikkuna þrátt fyrir að "sýsli" væri búinn að slíta samkomunni formlega.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 219
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 465
Gestir í gær: 79
Samtals flettingar: 316651
Samtals gestir: 34540
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 10:58:47
clockhere

Tenglar

Eldra efni