27.12.2008 18:01

Hver var þessi Hinrik?



525. Hver var eiginlega þessi Hinrik sem Hinrikshnjúkur er nefndur eftir? Fyrir fáeinum misserum hafði ég ekki minnstu hugmynd um að til væri tindur með þessu nafni við Siglufjörð. En það var reyndar áður en ég fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að sjá landslagið frá öðru sjónarhorni en frá þeim stöðum sem allflestir gera. Eftir því sem árin hafa liðið, hafa sjónir og hugur því beinst að fleiru en því sem blasir beinlínis við án frekari ígrundunar. Og ef "nærsýnu" gleraugun eru tekin niður og umhverfið skoðað í víðara samhengi, sést að Siglufjörður er vissulega fleira og meira en Aðalgatan, Torgið, Allinn, Samkaup og jafnvel Sídarminjasafnið.

 

Það var mikill fengur að örnefnavefnum http://snokur.is/ sem opnaður var í sumar og það er auðveldlega hægt er að liggja yfir honum tímunum saman og hafa gaman af, en svo má líka að reyna að rýna aðeins dýpra.

Og það er einmitt það sem ég hef gert. Ég skil alveg og tel mig vita af hverju t.d. Staðarhólshnjúkur og Hestskarðshnjúkur bera þau nöfn sem þessi fjöll gera. Sömuleiðis Hólshyrna, Hafnarfjall o.s.frv. En öðru máli gildir um Hinrikshnjúk því þar hlýtur einhver Hinrik einhvern tíma að hafa komið við sögu. En hver var hann og hvað gerði hann nægilega merkilegan til að þessi myndarlega klettaborg sem allt of fáir taka eftir, sé nefnd eftir honum? Ég hef spurt ýmsa þá sem ég hef talið að gætu hugsanlega vitað eitthvað meira um nafngiftina en ég, ég hef reynt að "gúggla" mér vitneskju um málið og ég hef leita eftir svarinu í bókum. En það virðist vera alveg jafn langt undan og þegar ég hóf leitina í upphafi. Ef einhver veit eitthvað meira en ég og greinilega margir aðrir um Hinrik og hnjúkinn "hans", væru allar slíkar upplýsingar mjög vel þegnar.



01.01.08. Um leið og mig langar að hnýta hérna aftan við ítrekun til þeirra vísu manna sem gætu vitað eitthvað um tilurð nafngiftar þeirrar sem fest hefur sig við hnjúkinn, vil ég óska þeim sem hingað eiga leið svo og einnig þeim sem eiga það ekki, gleðilegs nýs árs og farsældar um ókomna tíð.

02.01.08. Ég velti fyrir mér hvort það geti virkilega verið að enginn þekki til neinna heimilda um örnefnið Hinrikshnjúkur eða hvernig nafngiftin er til komin.

03.01.08. Því miður virðist a.m.k. enginn sem á leið um þessa síðu vita neitt um hvernig það bar til að þessi fjallatoppur fékk nafn sitt. Og ég er ekki alveg tilbúinn að samþykkja að hann sé nefndur eftir Hinna kennara eins og einn sveitungi minn hvíslaði að mér, þó svo að sá ágæti maður eigi allt gott skilið og full ástæða sé að halda nafni hans á lofti. Því tel ég það eitt ráð hugsanlega duga til að svala forvitni minni, að hafa samband við nokkra valinkunna sérfræðinga bæði norðan og sunnan heiða og freista þess að grafast fyrir um svarið.

05.01.08. Einhverjar vísbendingar virðast liggja í loftinu sem rétt og skylt er að kanna í þaula.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 218
Gestir í dag: 62
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317525
Samtals gestir: 34760
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:49:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni