12.02.2009 01:08

Um fjögur skörð og fjallafjöld

539. Fyrir fáeinum dögum hitti ég menn að máli sem ég hef ekki séð eða heyrt af í háa herrans tíð. Það var því um margt að ræða, en þegar á spjallið leið kom það í ljós að þessir ágætu drengir eiga sér áhugamál sem segja má að sé einnig a.m.k. lítillega til staðar hjá þeim sem þetta ritar, þ.e. að ganga til fjalla þegar aðstæður eru hagstæðar og hugur stendur til. Þegar lengra leið á samtalið kom í ljós að allir höfðum við áformað að heimsækja Síldarbæinn n.k. sumar, þar sem sameiginlegar rætur okkar liggja og príla upp hlíðar og fjöll í leiðinni. Því var þarna beint til mín að leggja fram tillögu að gönguleið sem væri hvorki of auðveld né svo erfið ófarandi væri, en hún varð að vera bæði skemmtileg og hæfilega óhefðbundin. Hér er tillagan komin og sett fram á þeim stað (blogginu mínu) þar sem ég veit allir umræddir og kannski einhverjir fleiri eiga leið um og líta annað slagið inn á. Svo er bara að bíða og sjá hvort háleitir draumar rætast og áætlanir ganga eftir.


(Ljósmynd af snokur.is)

Fyrst er ekið upp í Siglufjarðarskarð (630m.) en með því að gera það verður hækkun á gönguleiðinni ekki svo mjög mikil og líklega má hún þess vegna vera heldur lengri fyrir vikið, en síðan gengið eftir fjallsegginni að Afglapaskarði. Það er stuttur spölur og tiltölulega auðfarin fyrir þokkalega gönguvana.



Horft til Siglufjarðarskarðs þegar gengið er í átt að Afglapaskarði.



Skarðshnjúkur er u.þ.b. mitt á milli Skarðanna.



Í Afglapaskarði.

Á snokur.is má lesa eftirfarandi:
Ofan við upptök Þvergils gengur hæðatangi nokkur frá Úlfsdalafjöllum lækkandi og hverfandi suður í dalinn. Verður því botn hans sem hvarf eður afvik nokkurt ofan þessa hæðatagls er nefnist Siglufjarðarháls (61); er suður frá enda hans við veginn steinn allstór nefndur Kirkjusteinn (62). Nokkuð vestar við veginn niður frá Siglu-fjarðarskarði er Skarðshóll (63). Austan Þvergilsalda kemur aðalkvísl Skarðsdalsár sunnan úr hvolfi því er syðst gengur af dalnum og nefnist Skarðsdalsvik (64). Er það hinn syðri botn hans og skilja þá hæðir nokkrar og fjallshnjúkur sá er Skarðshnjúkur (65) nefnist, en sunnan hans og norðan eru eggþunnir hryggir sem saman tengja háfjöllin og skilja botna Skarðsdals og Hraunadals (að vestan); er norðan hnjúksins Siglufjarðarskarð en sunnan Afglapaskarð (66). Er ýmsum hætt að villast í það er að vestan kemur þá dimmt er og fannir því líkar. Eru þar uppgöngur en afglöp þykja það ill, því lítt fært er að austan. Uppi á ytri hryggnum, sunnan götu, er klettabrík ein að norðan hnjúksins er nú nefnist Altari (67). Mun nafn þetta hafa færst á brík þessa nýlega þá hrunið var og horfið "grjótaltari" það er þar var "byggt" 1735, þá fram fór hin fræga athöfn hér, bænir og vígsla, sakir hræðslu íbúa þessara byggða við ofsóknir hulinna vætta á leið þessari og víðar, er þá gekk svo úr hófi að heftar voru samgöngur að mestu. Varð hér þá til óheyrðra ráða að taka og var fjölmenni hér saman stefnt enda trúðu menn því hér að nokkuð væri óhættara síðan. Lifði þó enn í þeim kolum og bænir voru hér fluttar svo lengi, að vel muna það miðaldra menn.


(Ljósmynd af snokur.is)

Gengið upp úr Afglapaskarði og á fjallið fyrir ofan Skarðdalsvík og þaðan um Hákamba. (847m.)


(Ljósmynd af snokur.is)

Síðan á Selfjall, yfir Blekkilsbarn og fram á sjálfan Blekkil.



Blekkill (776 m.) er myndarlegt fjall fyrir botni Hólsdals. Ég hef oft horft til þess, langað að ganga á það og hugsað með mér að það væri á vissan hátt vanmetið. Það ætti skilið að vera sett á hærri stall sem kennileiti og víst er að margir þeir sem búa á staðnum hafa ekki minnstu hugmynd um nafn þess eða staðsetningu.


(Ljósmynd af snokur.is)

Þaðan á Almenningshnakka (915 m.) sem er hæsta fjall við Siglufjörð.



Eftir að hafa farið um Hólsskarð er freistandi að koma við á Presthnjúk (769 m.) sem er lítið eitt hærri en Hólshyrnan.



Hér sést stór hluti leiðarinnar, eða frá Skarðshnjúk og rétt austur fyrir Presthnjúk. Myndin er tekin ofan af Hestskarðshnjúk og héðan sýnist hún vera þægileg og auðfarin yfirferðar ef marka má mjúkar útlínur fjallanna. En hætt er við að annað og örðuvísi landslag komi í ljós þegar á hólminn er komið.



Presthnjúkur í baksýn. Um haustið 1007 gengum við Maggi Guðbrands á Hólshyrnuna og fleiri fjöll, en slepptum Presthnjúknum einhverra hluta vegna. Næst liggur fyrir að ganga þaðan, hjá Hólsskarði fyrir vestan verðan botn Skútudals á Móskógarhnjúk.



Leiðin fyrir vestanverðan Skútudal upp á Móskógarhnjúk. Myndin er tekin ofan af hnjúknum og þegar gengið er eftir fjallsegginni er horft ofan í Héðinsfjörð til annarrar handar en niður eftir Skútudal og til Siglufjarðar til hinnar.




Almenningshnakki vinstra megin við miðju og Presthnjúkur hægra megin. Myndin er tekin af Móskógarhnjúk.


(Ljósmynd Magnús Guðbrandsson)

Af Móskógarhnjúk er alveg frábært útsýni til flestra átta.



Næsta fjall er austanvert í dalnum og heitir Dísin, en hér má sjá leiðina þangað frá Móskógarhnjúk.
 

(Ljósmynd af snokur.is)

Norðan við Dísina er svo Pallahnjúkur. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvernig er að ganga um þessi fjöll, en ég geri ráð fyrir að þar sem aðrir hafa gert það áður og landslagið ekki breyst nýverið hljóti það að bjargast.


(Ljósmynd af snokur.is)

Eystri hluti leiðarinnar liggur bak við Hólshyrnuna, fyrir Skútudalinn og niður úr Hestskarði.



Leiðina niður af Pallahnjúk og ofan í Hestskarð verður að fara fetið eins og sagt er, því hún er bæði klettótt, laus í sér og brött.



Úr Hestskarði liggur svo leiðin ofan í Hestskarðsskál, en þaðan niður hlíðina og að gangnamunna Héðinsfjarðarganga sem marka ferðalok.

Ég er þeirrar trúar að hægt sé að komast alla þessa leið á góðum degi, en auðvitað getur verið óvitlaust að skipta henni t.d. við Hólsskarð. Líklega er skynsamlegt að fara síðsumars þegar snjóa hefur leyst að mestu og flestir eru komnir í heldur skárra líkamlegt form.
En hvers vegna að vera að lýsa fyrirhuguðum landvinningum? Væri ekki skynsamlegra að þegja þunnu hljóði og láta frekar frá sér heyra eftir á, þegar og ef góð áform hafa orðið að veruleika? Líklega er það svo, en þessa leið stóð til að fra s.l. sumar en varð ekki af. Þetta er því hvort tveggja, aðferð til að byggja upp pressu á aðgerðir, varna því að bakkað verði út úr fyrirhuguðum hugmyndum í skjóli þagnarinnar og eins er varpað fram spurningu um hvort einhverjir hafa áhuga á að slást í för...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 390
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481107
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 11:17:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni