23.02.2009 22:27

Nýr bloggari


(Ljósynd: Annað hvort Birgir Ingimarsson eða Stebbi Sigmars)

543. Fyrir þá sem hafa lent í þeim skelfilegheitum
að missa vinnu vegna hins mikla samdráttar á þessum síðustu og verstu tímum, er líklega alveg meinhollt að opna bloggsíðu og láta gamminn geysa þar sem mest þeir meiga. Ég er alveg sannfærður um að það hlýtur að hafa aðeins bætandi og græðandi áhrif á sálarástandið, dofann og þá neikvæðu upplifun sem slíku hlýtur að fylgja.

Og gerast þannig meðlimur í samfélagi hugsandi manna og kvenna og hefja sjálfan sig þannig e.t.v. upp úr hugsanaletinni sem getur með tíð og tíma framkallað tómleikatilfinningu í höfðinu og það til frambúðar.

Ferðast um bloggheima þvera og endilanga í leit sinni að svarinu eina og hafa alla möguleika á að gerast maður augnabliksins á þeim bænum.

Gerast landkönnuður og drepa niður fæti sem víðast í hinu fjölbreytta skoðanalandslagi ritvallarins. Þar sem er að finna víðfeðmar andlegar flatneskjur jafnt sem hástefnt vitsmunalíf djúpvitra hugsuða sem virðast hafa ráðið sjálfa lífsgátuna.

Að geta haft bætandi áhrif á náungann en þó einnig beitt pennavopninu fyrir sig sem rýtingur væri þegar það á við.

Klífa hinn þrítuga hamar innihalds og safaríkra skoðanna sinna og sannfæringar, staldra þar við og líta um öxl niður í fjöruborðið þar sem smáar og rislitlar öldur orðagjálfurs brotna hávaðalítið við ströndina.

Dansa línudans á leikvellinum þar sem orðin vega salt en hafa samt bæði vit á að þegja og segja, allt eftir því sem við á hverju sinni.

Skoða sig rækilega en gætilega um og fara í senn mikinn en engu að síður varlega í þessu margbreytilega samfélagi sýnilegra jafnt sem ósýnilegra, siðbætandi jafnt sem siðblindra og vera sinn eigin mótorkútter í hverju því sem gert er og sagt.

Dvelja þar sem skúffuskáldum býðst að opna hirslur sínar, þar sem ekkert þykir að því að skilja eftir loppufar hjá öðrum, þar sem arfi er oftlega reyttur í annarra manna görðum og þar sem hægt er að taka þátt í loftkenndri umræðu til að tæma og hvíla hugann.

Ég mæli með því að þeir sem hafa tíma aflögu svo ekki sé talað um þá sem hafa góðan tíma aflögu, finni sig í blogginu sem getur verið sé rétt að staðið, nærandi, styrkjandi, gefur hraustlegt og gott útlit og bætir meltinguna rétt eins og maltið, eða bætir, hressir, kætir eins og opalið.

 

Ég var annars að bæta við einum tengli í safnið, en hann leiðir til Guðmundar Ingólfssonar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481056
Samtals gestir: 53318
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:33:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni