26.02.2009 08:14

Um Kjarnabúð ehf.


(Hugmynd Vagnssystkinanna í Bolungarvík um útfærslu hinnar framsæknu ferðaþjónustu við ósa Hólsár)

545. Ég rakst nýverið
á frétt í bb.is sem er frá miðjum sept. sl. eða frá því fyrir bankahrun. Þar var málefni Kjarnabúðar ehf. til umræðu, en það hafði þá ratað talsvert í fréttir um nokkurra mánaða skeið. Þar kom fram að bæði Strandabyggð og Fjallabyggð hefðu sýnt málinu áhuga.


Forsaga málsins er sú að þegar Soffía Vagnsdóttir og systkini hennar sem eiga fyrirtækið Kjarnabúð ehf. gerðu 400 milljón króna samning við þýsku ferðaskrifstofuna Kingfischer Reisen í maí 2008, sprakk meirihlutinn í Bolungarvík, en Soffía sem var fulltrúi K-listans hafði verið forseti bæjarstjórnar. Hugmyndirnar voru nokkuð stórar í sniðum því stefnt var að byggingu 20 húsa í gömlum íslenskum burstastíl og einnig að kaupa jafnmarga báta til sjóstangaveiðinnar, en kostnaðurinn var áætlaður litlar 300 milljónir. Nýr meirihluti virtist ekki vera jafn áhugasamur um þessa uppbyggingu og sá gamli undir forsæti Soffíu og því var borið við að langan talsverðan tíma tæki að breyta deiliskipulagi til að hægt væri að úthluta umbeðnum lóðum. Afgreiðsla málsins dróst í 6 mánuði og í nóv. 2008 ákvað bæjarstjórn að Kjarnabúð ehf. fengi ekki lóðirnar, því skv. breytingartillögu um deiliskipulag væri ekki gert ráð fyrir neinni starfsemi þar næstu átta árin. Á fréttavef ruv. frá 12. nóv. Kemur fram að sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir formlegum viðræðum við Kjarnabúð ehf. eftir að ljóst var hver niðurstaða í Bolungarvík varð.

 

En fréttin bb.is var svohljóðandi.

Soffía Vagnsdóttir einn af forsvarsmönnum Kjarnabúðar ehf. í Bolungarvík sagði í Kastljósi síðastliðinn fimmtudag að fjögur sveitarfélög hefðu haft formlega samband við fyrirtækið til að bjóða lóð undir starfsemi fyrirtækisins. Soffía nefndi tvö bæjarfélög þeirra, Hólmavík og Ólafsfjörð. Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar segir að það hafi aldrei farið svo langt að Strandabyggð hafi haft formlegt samband við Kjarnabúð og boðið þeim lóð. "Á síðasta fjórðungsþingi fór á milli manna frá Strandabyggð og Soffíu að þau væru velkomin til Hólmavíkur með sitt fyrirtæki. Ég var ekki í þeim umræðum og hefur þetta því ekki komið frá sveitarfélaginu sjálfu. Þetta var meira í líki stuðningsyfirlýsingar við hana og hennar fyrirtæki tel ég," segir Ásdís. Ásdísi kemur ekki á óvart lengd afgreiðslutímans á lóðunum sem Kjarnabúð sótti um í Bolungarvík. "Nei, í rauninni ekki og veit ég til þess að svona mál geta tekið allt upp í tvö ár. Þetta er mismunandi auðvitað eftir svæðum en þegar þarf að gera nýtt deiliskipulag þá getur sú vinna tekið langan tíma," segir Ásdís.

Þórir Kristinn Þórisson bæjarstjóri Fjallabyggðar segir að ekki hafi verið formlega haft samband við Kjarnabúð og þeim boðið lóð af þeirra hálfu. " Ég held að það hafi verið einhverjir einstaklingar í sveitarfélaginu sem hafi haft samband við hana, en sveitarstjórn Fjallabyggðar hefur ekki haft formlegt samband við Kjarnabúð og boðið þeim lóð," segir Þórir.

 

Ég velti fyrir mér hvort hugmyndin sé enn á lífi og þá einnig hvað af henni hafi orðið. Hvort hún hafi orðið lánsfjárkreppunni að bráð eða unnið sé að framgangi hennar og þá hvar...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 398
Gestir í dag: 99
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 318022
Samtals gestir: 34879
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 23:42:00
clockhere

Tenglar

Eldra efni