29.03.2009 00:37

Gulrótaraðferðin



555. Hluta af marsmánuði hef ég verið að vinna að endurbótum á kjallaraíbúð við Njálsgötu í Reykjavík. Eitt og annað var alveg komið á tíma og sumt þó öllu meira en annað. Til dæmis var sturtubotninn orðinn verulega losaralegur að sjá og þegar ég reyndi að losa það sem laust var, varð minna en sáralítið eftir af honum svona efnislega séð. Undan kom annar eldri kantur og ég tók þá ákvörðun að leggja, skera og líma flísar yfir hann aftur.



En erfitt reyndist að finna eitthvað sem líktist því sem áður var, en ég datt þó um nokkurt magn af rauðbrúnum flísum sem kostuðu næstum því ekki neitt, enda var eins konar rýmingar eða kannski frekar afgangasala í gangi í Múrbúðinni. Og nú á ég flísar til að leggja á allt gólfið þegar tækifæri gefst sem verður auðvitað bara "seinna" - eða þannig.



Og svo var það eldhúsið...
Fyrir ofan vaskinn höfðu verið "heitt og kalt" sér plús utaáliggjandi rör að auki. Slíkt er auðvitað ekki beinlínis nútímalegt og því varð auðvitað að breyta svo ég galopnaði vegginn og undirbjó næsta leik.



Ásgeir pípari kom næstum því hlaupandi þegar ég hringdi og gerði allt sem gera þurfti "med det samme" og fórst það vel ír hendi eins og við mátti búast.



Svo var veggnum lokað aftur.



Og flísað í samræmi við fortíðina.



Að lokum voru komin blöndunartæki þar sem slík höfðu aldrei verið áður.



Kipringur í gömlum maskínupappír eða raki sem hafði verið áður en skorsteininum hafði verið lokað að ofan með hatti.
Veit ekki, en þetta varð að laga, - sem var og gert.




Gamlir rofar og tenglar er nokkuð sem verður líka að koma í betra horf. Þá er kallað í Kalla rafvirkja sem kippir öllu í liðinn á mettíma.



Hann er einn af þessum "ofvirku jarðýtum" sem ekkert stoppar.



On eftir skamma stund var kominn nýr rofi og tengill að auki á vegginn. Ég var líka fljótlega búinn að loka sárinu og nú var aðeins eftir að pússa, spartla aftur, pússa aftur og mála síðan.



En Kalli áttaði sig á að það var fleira sem þurfti endurnýjunar við, - og hann lagði á mettíma nýjan streng milli íbúðar og aðaltöflu í sameign.



"Þegar öllu þessu er lokið hellast átta eggjrauður..." segir á góðum stað, en ég var reyndar búinn að leggja þetta upp með öðrum hætti. Þegar framkvæmdum var lokið tóku þrifin við og ég nuddaði af lífs og sálar kröftum flís fyrir fís þar til þær urðu alveg skínandi hreinar.



Ég lofaði sjálfum mér því að þegar þessum áfanga yrði lokið, skyldi ég í fyrsta lagi "þrífa" mig almennilega í framan og þá á ég við að fyrir utan þetta venjulega þ.e. með vatni og sápu. Nú skyldi ég bæði klippa mig og raka. Hmmmmmm.



Ég var orðinn svolítið villimannslegur í útliti og í einhverjum tilfellum var "venjulegt" fólk farið að líta mig hornauga.



Og hálfnað verk þá hafið er...
Athöfnin hófst með talsverðu magni af rennandi vatni, fjölmörgum rakvélarblöðum og verulega mikilli sápu.




Að lokum voru andlitshárin horfin og fyrrverandi eigandi þeirra og "berandi" var svolítið dasaður eftir hinar verklegu framkvæmdir.



Morguninn eftir var svo litið við hjá honum Gísla Viðari sem er með stofu á horni Hverfisgötu og Snorrabrautar. En hann er ekki aðeins margfaldur Íslandsmeistari í hárskurði og Ólafsfirðingur að auki, heldur er konan hans Siglfirsk sem skiptir jú ekki svo litlu máli. Hún heitir Guðný og er dóttir Kollu Eggerts sem allir þekkja sem komnir eru til vits og ára.



Hitt loforðið (eða gólrótin) sem ég gaf sjálfum mér var að þegar áfanganum yrði lokið og íbúðin komin í leigu á ný, þá skyldi ég skreppa heim á Sigló í fáeina daga.
Og þar sem öll skilyrði til þess eru hér með uppfyllt, er ég farinn HEIM. Og þar mun ég dvelja fram undir næstu helgi, en þá þarf ég að koma suður eftir til að spila á henni Catalinu.

En spáin er ljót og ég skal fúslega viðurkenna að ég er svolítið smeykur við þetta ferðalag að því leytinu til. Það er því ekki með öllu útilokað að einhvers staðar á leiðinni verði tekin U-beygja.

Víðbót 30. mars:

Komst norður í morgun kl. 11 f.h. Festist tvisvar í skafli á leiðinni, fór einusinni útaf og gisti að Vatni á Höfðaströnd, þar sem ég var í góðu yfirlæti nótt sem leið.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 318
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 316145
Samtals gestir: 34463
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:14:45
clockhere

Tenglar

Eldra efni