23.04.2009 09:02

Gleðilegt sumar


(LRÓ á toppi Hólshyrnu)

561. Í dag er Sumardagurinn fyrsti sem er fyrsti dagur Hörpu, en hann er (eða öllu heldur hún) fyrsti sumarmánuðurinn af sex samkvæmt hinu gamla norræna tímatali.


(Sól úr norðri)

Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Í Sögu daganna - hátíðir og merkisdagar eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing, segir um sumardaginn fyrsta:

Hvarvetna var fylgst með því, hvort frost væri aðfararnótt sumardagsins fyrsta, þ.e. hvort saman frysti sumar og vetur. Yfirleitt var það talið góðs viti og jafnvel álitið að rjóminn ofan á mjólkurtrogunum yrði jafn þykkur og ísskánin á vatninu þessa nótt. Í því skyni settu menn skál eða skel með vatni út um kvöldið og vitjuðu svo eldsnemma morguns.

Hvað átt er við með góðu sumri í þjóðtrúnni er nokkuð á reiki, en hugsanlega er einkum átt við að nyt búpenings verði góð, sem verður þegar taðan er kjarnmikil. Ef engjar og tún eru seinsprottin verða hey oft kjarngóð og því ætti nytin einnig að verða góð. Slíkt gerist þegar svalt er og vott framan af sumri, en síðan hlýrra og þurrt og kann þjóðtrúin að vísa til þess að þegar vorið er kalt þá er oftast frost á sumardaginn fyrsta sem leiðir líkum að því að sumarið verði seinna á ferðinni. Þá er allur gróður einnig seinni að taka við sér, en það gerir grösin kjarnbetri og bætir nyt búpenings.

(Gúgglað af Wikipedia)

 

 

(Heitt og kalt mætast) 


Áður en rómverska tímatalið barst hingað með kirkjunni höfðu Íslendingar komið sér upp eigin tímatali sem ekki virðist hafa verið til annars staðar. Sennilega hefur Íslendingum þótt nauðsynlegt að hafa eitthvert sameiginlegt tímaviðmið eftir að þeir settu sér eigin samfélagsreglur með stofnun Alþingis snemma á 10. öld.

Rómverska tímatalið varð virkt eftir að föst skipan komst á kirkjuna með stofnun biskupsstóls eftir miðja 11. öld. Íslendingar köstuðu samt gamla tímatalinu ekki fyrir róða heldur löguðu það til svo að það lifði góðu lífi við hlið hins kirkjulega tímatals og gerir enn í vönduðum almanökum.

Í stærstu dráttum var árinu skipt í tvö nær jafnlöng misseri: Vetur og sumar. Vetrarmisserið byrjaði alltaf á laugardegi og sumarmisserið á fimmtudegi. Fram til ársins 1700 var það fimmtudagurinn á bilinu 9.-15. apríl en eftir 1700 á bilinu 19.- 25. apríl

(Gúgglað af vísindavef HÍ)



(Miðnætursól)
 

Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18. Hann er því aldrei fyrr en 19. apríl og ekki síðar en þann 25. Á þessum tíma er hlýnun á vori komin vel í gang, meðalhiti 25. apríl er 0,3 stigum hærri en 19. apríl.

Þó að svalt sé í veðri á þessum tíma er dagurinn vel valinn af forfeðrunum því um þetta leyti skiptir á milli kaldari og hlýrri hluta ársins. Sömuleiðis verða á þessum tíma árviss fjörbrot vetrarins í háloftunum yfir landinu og sumarið tekur við, þá dregur að jafnaði mjög úr afli veðurkerfa.

(Gúgglað af vef Veðurstofu Íslands)



(Síldarminjasafnið á Sigló)

En þessi dagur sem hefur svo lengi verið haldinn hátíðlegur á hér á Fróni, virðist vera nokkuð séríslenskt en mjög svo vel til fundið fyrirbæri. Líklega meðal annars vegna þess að forfeður okkar hafa haft meiri þörf fyrir slíkan dag en t.d. þeir sem búa þar sem veðurfar er mildara.


(Hólshyrnan)

Ég vil óska þeim sem eiga það til að rekast hingað inn sem og öllum öðrum Gleðilegs sumars.


(Lengst inni í Skútudal.)

Og í tilefni dagsins er tilvalið að skreppa út í góða veðrið og fá sér súkkulaði eða jafnvel ís.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480914
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:38:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni