03.01.2010 14:50

Heimsókn í Krýsuvíkurkirkju.

605. Þau slæmu tíðindi berast nú á nýju ári að Krýsuvíkurkirkja hafi brunnið til grunna og flest bendi til þess að um íkveikju hafi verið að ræða. Og sé svo, hafa miklir ódrengir og ógæfumenn verið þar að verki og gjörðir þeirra munu fylgja þeim eins og dimmur skuggi um alla framtíð.

 

Á vef nat.is var að finna eftirfarandi frétt:

Krýsuvíkurkirkja er í Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Kirkjan, sem stendur enn þá, var reist 1857. Hún var endurbyggð og endurvígð 1964 og afhent þjóðminjaverði til varðveizlu.
Brennuvargar kveiktu í kirkjunni aðfararnótt hins 2. janúar 2010.  Hún brann til kaldra kola.  Prestur Hafnarfjarðarkirkju messaði reglulega í henni tvisvar á ári.  Skátar voru þar tíðir gestir og margir báru hlýjan hug til hennar eins og gestabókin gaf til kynna.

 

Á fréttavef RUV mátti lesa eftirfarandi:

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna í nótt. Ekki er vitað um eldsupptök, en málið er í rannsókn.

Tilkynnt var um eldinn litlu eftir klukkan tvö í nótt. Fimm slökkviliðsmenn fóru á staðinn frá Grindavík, sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá Krýsuvíkurkirkju og dælubíll var sendur frá Hafnarfirði. Kristján Haraldsson, varðstjóri slökkviliðsins í Grindavík, segir að kirkjan hafi verið fallin saman þegar að var komið og lítið annað hægt að gera en að slökkva í glæðunum. Um klukkustund hafi tekið að slökkva eldinn. Myndir af brunarústunum er að finna á slóðinni

http://http.ruv.straumar.is/static.ruv.is/vefur/020110_krisavikurkirkja.wmv
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857 og var í umsjá Þjóðminjavarðar. Hún var aflögð fyrri hluta síðustu aldar og endurbyggð og endurvígð árið 1964. Gunnþór Ingason er sérþjónustuprestur á sviði þjóðmenningar og helgihalds og hefur verið umsjónarmaður Krýsuvíkurkirkju sem helgidóms. Hann segir kirkjuna vera merka fyrir látleysi sitt. Hún hafi sögulegt gildi og bera helgihaldi fyrri tíðar vitni. Upphaf messuhalds í kirkjunni má rekja til jarðarfarar Sveins Björnssonar listmálara fyrir rúmum áratug, en hann hafi látið sig kirkjuna miklu varða. Sú hefð hefur skapast að hengja altaristöflu eftir hann í kirkjunni á vorin en taka hana niður á haustin. Altaristaflan og aðrir helgigripir hafi því ekki verið í í kirkjunni þegar hún brann.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar brunann. Varðstjóri lögreglunnar segir ekkert hægt að segja um tildrög eldsvoðans á þessari stundu. Ekki sé hægt að útiloka íkveikju.

150 ára afmælis kirkjunnar var minnst með hátíðarmessu árið 2007. Matthías Johannessen orti ljóð sérstaklega fyrir 150 ára afmælið og Atli Heimir Sveinsson tónskáld samdi tónverk við ljóðið.


En þessar fréttir af atburðinum verða þó rifja upp heimsókn í kirkjuna snemma í nóvembermánuði 2007 sem munu þegar tímar líða verða talsvert ánægjulegri minning en umrædd ótíðindi. Þá datt okkur feðginunum mér og Minný í hug að nýta góðviðrisdag til svolítillar ökuferðar um nágrenni Hafnarfjarðar og Krýsuvík varð fyrir valinu.


Ferðamenn, sem fara til Krýsuvíkur, ætti að skoða Kleifarvatn, brennisteinsnámurnar og þó fyrst og fremst stóra leirhverinn, sem kom upp árið 1925.
Hver sá er skamt ofan við Nýjabæ, norðan í svokölluðum Tindhól, og er skamt rá veginum. Þarna var áður dálítil velgja í jarðveginum, en enginn hver.
Svo var það einn morgun að fólkið í Nýjabæ vaknaði við vondan draum - svo snarpan jarðskjálfta, að það kastaðist til í rúmunum, en brak og brestir voru í hverju bandi, eins og kofarnir ætluðu niður að ríða. Jarðskjálfti þessi stafaði af því að hinn nýi hver braust út. Varð það með svo geisilegum krafti að stór spilda sprakk úr hæðinni og þeyttist langar leiður, en sjóðandi leðja úr hverjum vall alla leið noðrur að Kleifarvatni og tók alveg af læk, sem engjafólk var vant að sækja drykkjarbatn í. Gríðarstór steinn, sem var uppi á melnum, fleygðist langar leiðir í burtu og stendur nú nokkuð frá hvernum sem talandi tákn þessara hamfara náttúrunnar.
(ferlir.is)


Á leiðinni var þó staldrað við á nokkrum áhugaverðum stöðum sem alltaf er jafn gaman að skoða. Fyrirsætan lék alls konar listir fyrir framan myndavélina sem voru jafnharðan festar í flögu.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.


Bílastæði er að vestanverðu og þar mun vera aðalaðgengið hin síðari ár.


Á vefnum ferlir.is rakst ég á þessa fróðlegu grein sem lesa má hér að neðan:

Krýsuvíkurkirkja á sér langa sögu. Ólafur Þorvaldsson ritaði lýsingu í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961, en þar segir hann m.a.:
"Eftir öllum líkum mun óhætt að segja, að kirkja hafi verið í Krýsuvík í átta til níu aldir. Ég held, að sögu Krýsuvíkurkirkju sé þannig farið, að erfitt sé að rekja hana, í það minnsta fyrstu aldirnar, svo öruggt samhengi fáist. Ég held, að margur myndi hnjóta um það spursmál, hvar fyrsta kirkja Krýsuvíkur hafi verið reist, hvenær, og hver hana lét gera. Við þessum spurningum höfum við hvergi getað fengið fullnægjandi svar.
Í Landnámabók Ara Þorgilssonar segir svo: "Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík." Einar Arnórsson prófessor telur líklegt, að Þórir haustmyrkur hafi komið nokkuð seint út. Fyrir þessu færir hann þau helst rökum að "Súgandi", þriðji maður frá Þóri, ætti að vera uppi um 1000.
Landnám Þóris er því að nokkru í Gullbringusýslu, en sýslumörkin telja, að kirkjan hafi ekki löngu eftir kristnitöku verið byggð í Krýsuvík.
Yfir hinu mun hvíla algjör óvissa, svo sem fyrr er á minnst, hvar og af hverjum sú kirkja var byggð.
Elsta heimild, sem mér er kunn um kirkju í Krýsuvík er, að um 1200 er hennar getið í kirknaskrá Páls biskups. Kirkjan er talin Maríukirkja, og á heimaland allt, ásamt Herdísarvík og níu mæla lands á Þorkötlustöðum, auk ítaka.
Eftir það er Krýsuvíkurkirkju getið í ýmsum máldögum allt fram undir 1600. Flestir máldagarnir fjalla um eignir kirkjunnar fastar og lausar, ítök o.fl., og ber víðast fátt á milli, utan þá orðalag.



En einnig er hægt að ganga til kirkju um gamla slóð að austan og neðanverðu. Það hefur líklega verið aðalleiðin áður fyrr.


Á tíma þeim, sem máldagarnir ná yfir, hefur lausafé kirkjunnar ekki ávallt verið það sama, munir gengið úr sér, og stundum aðrir komið í þeirra stað, lifandi peningi fækkað, þar til horfinn var með öllu, og segja má, að svo hafi farið um flesta muni kirkjunnar.
Allt bendir til, að Krýsuvíkurkirkja hafi aldrei rík verið af lausafé. Hitt mun heldur mega telja, að fram eftir öldum hafi hún eftir öllum bréfum að dæma mátt teljast allveg á vegi stödd í föstum eignum, þar sem hún hefur átt allt land sóknarinnar, byggt og óbyggt, og meira þó, það er hún átti einnig Herdísarvíkina, bestu verstöð í Selvogi, landríka vildisjörð, og lágu lönd saman.
Auk þessa ýmis ítök.
Hitt er ljóst, bæði af íslenskum heimildum svo og ferðabókum erlendra, sem um landið reistu og til Krýsuvíkur fóru, flestir til athugunar jarðhita og brennisteini, að meðal sóknarmanna hafi þar oftar ríkt fátækt en auður, jafnvel svo, að til landauðnar dró á tímabili. Ég skal nefna hér eitt dæmi þessu til stuðnings. Árið 1553-'54 telur Marteinn biskup "kirkju þar góða, - en enginn bær er þá í sókninni". Eitthvað hefur þetta ömurlega hlutskipti þess byggðarlags varðað, því að með bréfi 27. Sept. 1563 leggur Páll Stígsson hirðstjóri, í samráði við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, niður sóknarkirkju í Krýsuvík, og leggist hún og eitt kot "sem þar er hjá", til Strandarkirkju í Selvogi. Þó skal í Krýsuvík standa lítið húskorn, Guðs vegna og þess heimilisfólks, sem þar kann að vera sjúkt eða gamalt. "Og herra Gísli skyldi nokkur kúgildi til leggja, svo að Guðs orðs þénari mætti þar hvíld nætursakir hafa, þá hann þar kæmi eða þyrfti þar að koma guðlegrar hjarðar að vitja."
Krýsuvíkurkirkja virðist þó standa eftir sem áður. Árni Magnússon telur hana útkirkju frá Strönd.
Svo er og í kirkjuskrá 1748, og enn í prestakallaskipunarlögum frá 1880.
Með prestakallalögum 1907 er Krýsuvíkursókn lögð ti Staðarprestakalls í Grindavík. Loks er með stjórnarráðsbréfi 21. október 1929 Krýsuvíkurkirkja lögð niður og sóknin sameinuð Grindavík (Stjt. 1929 B. 305).



Mikilfengleg og lítillát í senn í einfaldleika sínum.


Með þessari síðustu ráðstöfun mætti ætla, að lokið væri sögu Krýsuvíkurkirkju hinnar fornu.
Þó má segja enn sem fyrr, að kirkjan stendur eftir sem áður, - en mennirnir viðurkenna hana ekki lengur. - Ég fæ ekki betur séð en við þetta yfirgefna hús, sem einu sinni var guði vígt, hafi komið fram hinn sami "huldi verndarkraftur", sem Jónas kveður um í Gunnarshólma, um "hólmann, þar sem Gunnar sneri aftur", og forðaði því frá að afmást með öllu, svo enginn sæi þess lengur stað.
Það má segja, að frá 1563-1929 hafi Krýsuvíkurkirkjusókn verið í útlegð, eða í 366 ár. Í 344 ár var hún á vist hjá Strandarkirkju í Árnessýslu og í tuttugu og tvö ár hjá Staðarkirkju í Grindavík, þ.e. frá 1907-1929. Það ár er kirkja lögð niður í Krýsuvík. Eftir það eiga Krýsvíkingar kirkjusókn til Grindavíkur. Löng kirkjugata það.
Árið 1929, þegar kirkjan var lögð niður, eru þrjár fjölskyldur í sókninni, ein mannmörg, tvær miðlungi stórar. Þá mun hafa verið búið að ákveða vegarlagningu um Krýsuvík, ef hún hefur ekki þegar verið hafin.



Kirkjudyrnar þar sem lykillinn var alltaf til staðar og allir voru velkomnir.


Og vegurinn kom. Með veginum kom fólkið og nokkrar framkvæmdir, þótt eitthvað af þeim hafi farið nokkuð á annan veg en skyldi, - en þetta kemur í hendi, sagði karlinn.
Svo fóru gömlu Krýsvíkingarnir alfarnir. Flestir fóru þeir eftir hinum aldagömlu slóðum, sem þeir höfðu farið margir alla ævina, aðrir skemur. Svo kom nýtt fólk eftir nýja veginum, sumir til búsetu, aðrir sem farfuglar. Það var því enn komið fólk í hina fornu Krýsuvíkursókn, - en "kirkja fyrirfinnst engin á staðnum".
Eftir að síðasti ábúandinn var fluttur veikur burt frá Krýsuvík og átti þangað ekki afturkvæmt, var lokið allri umhirðu um hina fornu kirkju, er hann hafði búið í mörg síðustu árin þar. Það beið heldur ekki lengi, þar til þar fyrirfannst hvorki gluggi né hurð.



Sálnahliðið er farið að halla sér svolítið þreytulega í áttina að kirkjunni.

Hurðarleysið kom sér líka betur fyrir þá hjörð, sem þá tók að sækja þetta forna guðshús. Þar inni fann skjól í hrakviðrum fjöldi nautgripa og hesta, er þarna voru til hagagöngu á sumrin.
Flestir, sem þarna voru kunnugir, töldu víst, að um þetta forna, vanhirta hús færi þá og þá sömu leiðina sem önnur hús staðarins, það hryndi í rúst eða fyki burt. Nei, hin forna, yfirgefna kirkja fauk hvorki né hrundi. Hún stóð af sér öll stórvirði og alla "hverakippi". 
Hún bara beið, beið eftir sveini, er leysti hana úr böndum. Og sveinninn kom. Fyrir hans tilverknað stendur í dag á hlaði hinnar fornu stórjarðar fegurra hús en þar hefur áður staðið og bíður þess að vígjast í kirkju eða kapellu Krýsuvíkursóknar.
Vonandi bíður þess húss aldrei önnur eins niðurlæging sem hinnar síðustu kirkju staðarins.



Það var svolítið skrýtið að sjá hvernig húsið var hlekkjað niður.

Þessi síðasta Krýsuvíkurkirkja, sem hér um ræðir, mun að öllum líkindum vera fyrsta kirkja þar, er byggð var úr timbri einu saman. Þessi kirkja var byggð 1857. Síðan er henni getið í mörgum prófastavisitasíum og ávallt nefnd "timburhús". Í biskupsvísitasíu árið 1875 er Krýsuvíkurkirkju lýst allnákvæmlega. Þar kvartar biskup yfir, að ekki hafi þá verið gert við galla þá, sem á kirkjunni hafi verið við síðustu vísitasíu hans. Sér í lagi er það ytri klæðning á þaki, sem sé orðin léleg og þurfi endurnýjunar við. Telja má fullvíst að aðalsmiður hafi verið Beinteinn Stefánsson bóndi að Arnarfelli í Krýsuvík, og má heita skemmtileg tilviljun, að dóttursonur hans var til þess að gera nú upp hina gömlu kirkju af nákvæmni og hagleik, sem þeim frændum hefur báðum verið í blóð borinn."


Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í Kirkjuskipinu.


Í tilefni af 150 ára afmæli Krýsuvíkurkirkju var haldin messa í kirkjunni á hvítasunnudag 27. maí 2007. Prestur var Gunnþór Ingason. Jafnframt var minnst 10. dánarártíðar Sveins Björnssonar, fyrrv. yfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, sem síðastur manna var jarðsettur í kirkjugarðinum í Krýsuvík.
Jónatan Garðason og Þór Magnússon tóku saman ágrip af sögu Krýsuvíkurkirkju. Birtist það í bæklingi, sem gefinn var út í tilefni tímamótanna. Í honum er saga kirkna í Krýsuvík m.a. rakin: "Talið er að bændakirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum eftir kristnitöku. Örnefnið Kirkjulág í Húshólma og munnmæli gefa vísbendingu um að þar hafi staðið kirkja áður en Ögmundarhraun rann um miðja 12. öld. Krýsuvíkurkirkju er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar um 1200, en hún kemur einnig fyrir í broti úr máldaga sem varðveist hefur frá 1275. Þá var kirkjan helguð Maríu mey. Árnaannáll sem Árni Helgason biskup setti 1307 er efnislega samhljóða hinum fyrri um eignarhald og ítök í hlunnindum en lausafjár kikrjunnar er að engu getið. Krýsuvík var sérstakt prestakall og kirkjulén og var hálfkirkjunni í Herdísarvík þjónað þaðan. Krýsuvíkurkirklja átti í löndum alla heimajörðina Krýsuvík, alla Herdísarvík, níu mæla land á Þórkötlustöðum í Grindavík og fjórðung jarðarinnar Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Hún átti umtalsverð ítök í hvalreka og viðreka í Selvogi, auk búfénaðar.



Fábreytileikinn í fyrirrúmi, en virðuleikinn samt til staðar.

Krýsuvík var beneficium fram til 1563 er prestakallið var lagt niður þó prestar og kapellánar sætu staðinn lengieftir það. Selvogsprestar áttu um langan veg að fara til messu í Krýsuvík því milli Strandarkirkju og Krýsuvíkur er hálf þingmannaleið. Messað var þriðja hvern sunnudag á sumrin, en fjórða hvern á veturna, samkvæmt sýslu- og sóknarlýsingu séra Jóns Vestmann frá 1843. Krýsuvík var höfuðból í kaþólskri tíð og hagur staðarins fór þverrandi eftir siðarskipti, einkum eftir að jörðin komst í bændaeign 1787.



Það er ekki á hverjum degi sem henni Minný gefst tækifæri til að messa yfir föður sínum án þess að hann hreyfi nokkrum andmælum, en þarna var hún hreinlega í fullkominni aðstöðu til þess.

Skoski vísindamaðurinn Scott McKenzie kom til Krýsuvíkur 1810 ásamt Richard og Henru Holland, sem lýstu staðháttum í dagbók sinni: "Þetta er ömurlegur staður, sex eða átta kofar standa þar á víð og dreif á ósléttu svæði við rætur á starkri hæð. Stolt og prjál staðarins er timburkirkja...". Þegar inn í kirkjuna kom barst þeim óþefur af hertum fiski og eftirfarandi sjón: "Gólfið var svo óslétt, að við hefðum naumast getað skorðað tjaldsængina okkar þar, og ofan á allt annað var svo hið litla gólfrými fyllt með kössum, timbri og alls konar skrani. Predrikunarstóllinn í þessari einstöku byggingu stendur undir annarri hliðinni, og snýr gegnt kirkjudyrum. En svo lágt er undir loftið yfir honum, að presturinn verður annaðhvort að sitja eða krjúpa eða vera kengboginn, meðan hann flytur ræðu sína." [Mynd, sem dregin var upp af Krýsuvíkurkirkju og nágrenni þetta sama á, sýnir afstöðu hennar og bæjarins. Fremst á myndinni er Ræningjadysin, sem síðar fór undir þjóðvegsstæðið].


Rétt fyrir innan dyrnar var þessi hilla með nokkrum sálmabókim.


Hálfri öld síðar var kirkjan úr sér gengin og ákveðið að byggja nýtt guðshús. Beinteini Stefánssyni hjáleigubónda í Krýsuvík var falið að annast smíðina. Hann hófst strax handa við að safna veglegum rekatrjám og vinna þau í stoðir og borðvið. Hann vandaði til verksins og byggði nýja kirkju af slíkum hagleik að hún stendur enn 150 árum eftir að hún var vígð. Kirkjan hefur að vísu verið endurbyggð að stórum hluta, en burðarvirkið og lögun hússins er verk Beinteins. Krýsuvíkurkirkja þjónaði söfnuðinum til 1929 en þá var hún aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum.


Björn Jóhannesson f. 28. mars 1895, d. 22. nóvember 1964 og fyrrum forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, lét endurbyggja kirkjuna á eigin kostnað.

 

Nokkru eftir afhelgunina fékk Magnús Ólafsson fjárbóndi í Krýsuvík mág sinn til að breyta kirkjunni í gripa- og íbúðarhús. Magnús bjó í kirkjunni til 1945 er hann flutti til fjölskyldu sinnar í Hafnarfirði vegna heilsuleysis. [Loftur Jónsson í Grindavík var einn þeirra manna er heimsótti Magnús í kirkjuna. Sagðist hann vel muna að rúmfletinu í suðaustuhorninu]. Fljótlega eftir að síðasti íbúi gömlu byggðarinnar undir Bæjarfelli flutti burt grotnaði húsið niður. Björn Jóhannesson, forseti bæjarstjórnar og formaður Krýsuvíkurnefndar, vildi byggja kirkjuna upp á eigin kostnað og réð Sigurbent Gíslason til að stjórna endursmíðinni. Sigurbent var dóttursonur Beinteins kirkjusmiðs og nánast sjálfkjörinn til verksins. Björn vildi tryggja verndun kirkjunnar til frambúðar og fékk samþykki bæjarstjórnar til að fela þjóðminjaverði umsjón hennar.
Herra Sigurbjörn Einarsson biskup og séra Garðar Þorsteinsson sóknarprestur í Hafnarfirði önnuðust endurvígslu Krýsuvíkurkirkju 31. maí 1964 og við sama tækifæri var hún færð Þjóðminjasafninu til varðveislu. Gömul altaristafla frá Þjóðminjasafninu var hengd upp fyrir athöfnina, kirkjan fékk kirkjuklukku og tvo altaristjaka að gjöf sem steyptir voru eftir gömlum stjökum. Ljósahjálmur og vegglampar sem Sigurbent Gíslason gaf kirkjunni voru einnig hengdir upp. Björn hafði lokið ætlunarverki sínu er hann andaðist 22. nóv. 1964 sáttur við guð og menn.



Séra Brynjólfur Magnússon f. 20. febrúar 1881. d. 3. júlí 1947. Þjónaði í Krýsuvíkursókn 1910-1929

 

Nokkru seinna hurfu kirkjugripirnir en altaristöflunni var komið fyrir í geymslu. (Skv. óstaðfestum upplýsingum munu áhafnameðlimir á Suðurnesjabát hafa tekið gripina í brýaríi og tekið þá með sér í siglingu til Þýskland þar sem gripirnir voru seldir lægstbjóðanda. Þessir menn eru enn á lífi svo ekki er of seint fyrir þá að iðrast og bæta fyrir gjörðir sínar - enda hafa þeir vel efni á því).



Sr. Eggert Sigfússon f. 22. júní 1840 d. 12. október 1908 Þjónaði Krýsuvíkursókn 1884-1908

 

Kirkjan  var látin afskiptalaus um árabil en þegar kom fram á miðjan níunda áratug 20. aldar var ástand hennar mjög bágborðið. [Hér ber að hafa í huga að forstöðumenn og vinnuskólanemar í Krýsuvík á sjöunda áratugnum gættu kirkjunnar mjög  vel og fóru m.a. reglulega að henni til að sjá til þess að þar væru engu raskað. Auk þess fylgdust Hafnarfjarðarskátar reglulega með kirkjunni og hlúðu að henni eftir föngum]. Gluggar voru [síðar] brotnir, hurðin ónýt og veruleg hætta á að kirkjan yrði eyðileggingu að bráð. Sveinn Björnsson listmálari hafði um árabil haft vinnustofu í bústjórahúsinu í Krýsuvík. Hann kom reglulega við í Krýsuvíkurkirkju og rann til rifja ástand hússins. Fyrir hans tilstilli var hafist handa við að mæla kirkjuna upp og undirbúa endurbætur á henni."


Þann 31. maí 1964 var Krýsuvíkurkirkja færð Þjóðminjasafninu til eignar og varðveislu.

Hér ber að bæta við að hvorki Þjóðminjasafnið né Hafnarfjarðarbær hafa sýnt Krýsuvíkurkirkju viðhlítandi skilning. Einstaklingar hafa jafnan gætt kirkjunnar og staðið vörð um heill hennar. Peningar og hagræðing hafa verið hennar helsti óvinur í gegnum aldirnar - líkt og verið hefur undanfarna áratugi.
Fumkennd viðbrögð við ástæðulausum hættum hafa jafnan skemmt heildarmynd kirjunnar. Svo mun einnig verða um sinn. Krýsuvíkurkirkja er hins vegar miðlægt tákn um kjarnabyggð í íslensku samfélagi, líkt og verið hefur allt frá upphafi búsetu hér á landi - að vísu í annarri mynd fyrstu aldirnar, en síðan óraskað í u.þ.b. 1007 ár. Er það ekki a.m.k. einnar viðurkenningar virði?



Árni Gíslason sýslumaður bjó í Krísuvík síðustu æviár sín, en áður að Kirkjubæjarklaustri. Hann er líklega nærri því að vera sá næsti sem hér var lagður til hinstu hvílu næst á undan Sveini.


Veit ég ekkert verra flón
vera á heimsbyggðinni.
Andskotinn er eins og sól
hjá íllmennskunni þinni.

 

Þesa vísu orti Árni Gíslason, sýslumaður í Krísuvík um sr. Gísla Thorarinsen, en ekki er fleiri heimildir að finna um ástæður þess.

Árni var sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags. Hann hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi, talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur. (Ísl. æviskrár I, bls. 44.)

 

Erasmus á Botnum býr,
besti maður í Landi.
Áttatíu á hann kýr
en enga rollu í standi.

 

Þessa ferskeytlu kvað Árni um Erasmus á Botnum í Meðallandi. Síðari hlutinn er hreint öfugmæli. Erasmus átti mikið og gott sauðfé en kýr fáar.


Sveinn Björnsson f. 19. febrúar 1925, d. 28. apríl 1997 málari og yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, bar velferð kirkjunnar sér mjög fyrir brjósti eins og fram kemur hér að ofan. Hann málaði altaristöflu sem var sett upp yfir sumarið og hann var sá síðasti sem lagður var til hinstu hvíldar í kirkjugrðinum.

Af sveinssafn.is -
Litla kirkjan í Krýsuvík hafði ekki verið notuð til kristilegra athafna í meir en 70 ár, er Sveinn Björnsson var jarðaður þar. Á tímabili var hún notuð sem íbúðarhús en um tíma einnig fyrir sauðfé. Sveinn hafði reynt að beita áhrifum sínum á ýmsum stöðum til að fá kirkjuna gerða upp og koma þar af stað messuhaldi án árangurs.
En eftir að hann gaf kirkjunni upprisumynd sína sem altaristöflu og síðar var jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði, hefur verið messað í henni a m k tvisvar á ári og henni vel viðhaldið. Í maí er messað þegar altaristaflan er hengd upp í kirkjunni og eins þegar hún er tekin niður í október og flutt til vetursetu í Hafnarfjarðarkirkju. Eftir messurnar er drukkið messukaffi í Sveinshúsi.
Í gestabók kirkjunnar má sjá að fólk leggur leið sína í hana svo þúsundum skiptir á hverju ári. Það sest inn í kirkjuna og hugleiðir. Ferðalangarnir eru frá öllum heimshornum og skrifa í gestabókina hugrenningar sínar og upplifanir hver á sínu tungumáli. Litla kirkjan í Krýsuvík hefur sannað gildi sitt.




Krýsuvíkurkirkja svo yfirlætislaus, svartbikuð reisifjöl með járn á þaki. Einfaldleikinn í náttúrulegu og heilnæmu umhverfi, ekkert síðra afdrep þeirra sem leita að skjóli í lífsins ólgusjó en þau guðshús sem eru bæði háreist og skrauti hlaðin.

Blessuð sé hennar minnig.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 111
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477243
Samtals gestir: 52735
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 05:38:59
clockhere

Tenglar

Eldra efni