10.01.2010 03:13

Það sem enn er ósagt úr Skagafirði frá nýliðnu ári


Svavar hestamaður á Keldulandi (t.h.) tekur á móti okkur Ingimar.

611. Það var kaldan dag í byrjun nóvember sl. að Ingimar bóndi á Flugumýri áformaði að líta til hesta sem hann, Agnar á Miklabæ og Páll Dagbjartsson skólastjóri á Varmahlíð höfðu í afrétt inni í Austurdal þar sem þeir hafa verið með hluta af jörðinni Gilsbakka á leigu og hestana þar í hólfi. Einnig stóð til að koma við hjá þeim Tinu og Svavari á Keldulandi og sækja tvær hryssur sem þar höfðu verið í tamningu og hafa þær í hólfinu um tíma. Ég fékk að fljóta með en var minntur á að taka myndavélina með, því þarna uppfrá færi ábyggilega heilmikið myndefni að hafa. Það reyndist rétt vera og það var heilmikið "skotið" þennan dag, þó svo að birtuskilyrðin væru ekki upp á það allra heppilegasta. Ég sá eða kannski miklu frekar upplifði þennan dag, væna sneið af Skagafirðinum sem ég hafði ekki kynnst áður og fram að þessu tæpast vitað að væri til.



Tina að "prufukeyra".


Skammt fyrir ofan Bólu er beygt inn á Kjálka og ég hafð þá þegar á orði að þessa beygju hefði ég aldrei tekið áður. Því var þá svarað til að ýmislegt ættu menn þá eftir sem sannarlega reyndist rétt, og eigilega því réttara sem lengra var haldið frá þjóðvegi eitt og malbikinu.




Eftir stutta ökuferð á malarveginum áleiðis upp eftir Austurdalnum var komið að Keldulandi, en þar reka þau Svavar Hreiðarsson (Svabbi) og Christina Niewert (Tina) tamningastöðina Halahesta.

Svavar sem bjó í Þýskalandi á tíunda áratugnum náði þeim árangri þar ytra að verða þýskur unglingameistari í gæðingaskeiði. Nú er ég ekki það vel að mér í hestafræðunum að ég geri mér grein fyrir því hversu stór sá titill sé þar ytra (og hér heima), en óneitanlega hljómar hann vel. Svavar flutti svo aftur heim árið 1999 en Tina kom til Íslands ári síðar. Þau unnu við tamningar í Ásmúla sem er hrossaræktarbú við Hrútsvatn skammt austan og ofan við Þjórsárósa, en fluttu þaðan á Blönduós áður en þau komu svo að Keldulandi

Árið 2007 varð Svavar Íslandsmeistari í gæðingaskeiði með Johnny frá Hala sem mun vera hans aðal reiðhestur enn í dag.

Tina starfaði við tamningar úti í Þýskalandi og tók tamninga og þjálfunar próf hjá Walter Feldman árið 1998.



Þau Svavar og Tina eru gott og gestrisið fólk og miklir höfðingjar heim að sækja. Fyrir þá sem vilja kynna sér tamningarstöðina og það sem þar er að gerast nánar, get ég bent á slóðina http://halahestar.com/



Nokkuð skiptir í tvö horn þegar húsakosturinn á jörðinni er skoðaður eins og sjá má.
Hér mætast tímarnir tvennir.


Ljósmynd: Friðgeir Guðmundsson.


En "landlordinn" Stefán Hrólfsson von Kelduland sem er kominn  á níræðisaldur fluttist til Akureyrar fyrir nokkum árum síðan. Þó hefur hann dvalið að Keldulandi að sumrum, því fáir sem lifað hafa og hrærst í slíku umhverfi geta sagt skilið við sveit eins og þessa fyrr en í fulla hnefana.




Og Stefán er nægjusamur maður eins og sést á híbýlum hans. Líklega hefur hann heldur ekki lært að bruðla í æsku og hér sannast því eina ferðina enn að "hvað ungur nemur, gamall temur".  




Þegar þau eru skoðuð frá hinni hliðinni, sést að það hefur verið komið fyrir sérstökum stormvörnum sem fest eru í horn hússins. Eðlilega vilja menn hafa sitt annað heimili á sínum stað næst þegar menn vitja þess.




Fátítt er að þetta vörumerki sjáist eins oft í þéttbýlinu og áður var, en það virðist ennþá vera í fullu gildi til sveita. Það er líka eitthvað svo "Kaupfélagslegt" við það.




Við kveðjum Kelduland og íbúa þess bæði tví og ferfætta, svo og þennan gamla Júgóslafneska Universal sem mun ennþá vera gangfær.

 



Og svo var haldið áfram inn í Austurdal að bænum Gilsbakka sem hefur verið í eyði síðan 1992.

Bæirnir sem sjást vinstra megin (eða austan) við gljúfrið eru Gilsbakki nær
og Merkigil fjær. Mun lengra er svo Ábær og Ábæjarkirkja. Hægra megin og vestan við gil eru Bústaðir.

 

Já það er vissulega eitthvað mjög sérstakt og seiðandi við að koma þarna upp eftir, hverfa af malbikaðri þjóðbrautinni og láta hugann reika fullkomlega óbeislaðann aftur til fortíðarinnar. Til þeirra sem ólu allann eða langmestan aldur sinn í þessum magnaða dal og á bökkum þessarra hrikalegu gljúfra. En þarna hafa ýmsar persónur og leikendur í hinu mikla og óendanlega leikriti lífshlaups og baráttu einnar kynslóðar eftir aðra, orðið miklar af verkum sínum og gert út á vonir sínar og væntingar.



Þegar inn í dalinn er komið, kemur gamla Gilsbakkaþulan sem maður lærði talsvert hrafl í sem strákur upp í hugann, en hún er eftir sr. Kolbein Þorsteinssonar (1731-1783) og er því nokkuð komin til ára sinna.

Kátt er á jólunum, kátt er á jólunum, koma þau senn,
þá munu upp líta Gilsbakkamenn,

...en þetta mun reyndar ekki vera sá Gilsbakki sem hann orti um forðum.

En það er engu að síður eitthvað svo ljóðrænt og rammíslenskt við þennan stað.




Á leiðinni upp að Gilsbakka sagði Ingimar mér frá mannkostamanninum Hjörleifi Kristinssyni sem var síðasti ábúandinn þar.

Hann var m.a. mjög hagmæltur og átti það til að kasta fram vísu, að því er virtist með ólíkindum fyrirhafnarlítið. Einu sinni orti hann um skammdegið...

 

Deginum seinkar og myrkrið er meira en nægt

því morgunstjörnurnar lítilli birtu skila.

Jesús minn góður hvað jörðin snýst orðið hægt,

ég held alheimsmótorinn sé að bila.



Eftir að hafa eytt einum seinni parti á þessum slóðum varð mér það eins ljóst og verða má að þarna þyrfti ég að koma aftur, dvelja lengur, skoða meira, fara víðar um, taka fleiri myndir og njóta þessarar paradísar til hins ýtrasta.

Allt umhverfið er svo magnað að því er erfitt að lýsa með orðum. Það er eitthvað svo dularfullt, óútskýranlegt og máttugt sem býr í öllum þessum hólum og hæðum, giljum og lautum.

En kannski finnur maður bara til smæðar sinnar gagnvart tröllslegu landslaginu í sama mund og hugurinn reikar um hina stórfenglega sögu sveitarinnar, svo ekki sé talað um allt héraðið.



En svo við víkjum aftur að Hjörleifi, þá var hann eitt sinn á skemmtisamkomu þar sem maður frá Keldulandi bauð heimasætu einni upp og dansaði við hana.
Þá kvað hann:

Gleði veldur, lund fær létt,
lifnar heldur grínið.
Hryssu geldri á harðasprett
hleypir keldusvínið.

 

Hjörleifur fór eitt sinn í sumarfrí og jafnvel er talið að hann hafi ætlað sér að aka hringveginn sem hafði þá nýlega verið opnaður. Hann tók með sé hund sinn og kött, en á leiðinni orti hann um þessa ferðafélaga sína:

 

Snati lati lá á gólfi

á leið í sumarfrí.

En kötturinn í hanskahólfi

hló bara að því.

 

Kötturinn á að hafa komið sér fyrir í hanskahólfi bifreiðarinnar í upphafi ferðarinnar og haldið því síðan fyrir sig allt fríið.



Hjörleifur var áhugamaður um skógrækt og stofnaði skógarlund við jökulsárgil niðurundan bænum. Þar plantaði hann mörgum tegundum trjáa, annaðist lundinn af mikili kostgæfni og vænti þess að honum yrði við haldið eftir sinn dag.

Sögur eru um að kötturinn sem áður er getið, hafi lifað húsbónda sinn, tekið sér bólfestu í skógarlundinum og sést þar á ferli í mörg ár eftir lát Hjörleifs.




Um 20 bæir munu hafa verið í Ábæjarsókn þegar mest var og Austurdalur ágætlega byggður, en margt annað mun hafa verið á sveimi í dalnum en fólkið sem þar bjó. Draugurinn Ábæjar-Skotta mun hafa gert mönnum lífið leitt í þessum hluta Skagafjarðar og jafnvel látið að sér kveða í einhverjum nágrannasveitum. Hún á að hafa drepið fé, hræddi fólk og það jafnvel svo að það hlaut bana af. Það er líka sagt um hana að þegar hún var orðin þreytt af hrekkjum sínum og kerskni gagnvart mannfólkinu, hafi hún átt það til að setjast aftan á húð Þorgeirsbola og látið hann draga sig.  




Og fleiri skáld og merkismenn hafa búið þarna.

Jón nokkur kenndur við Gilsbakka (1828-1906) kom til Skagafjarðar frá Eyjafirði árið 1856. Dæmi eru um að viðkvæmu fólki hefur verið ráðið frá því að lesa kveðskap Jóns vegna þess hve gróflega hann á til með að taka til orða.

Oft finnst okkur kyndugt að lesa það sem skráð var í kirkjubækur á öldum áður, en í slíku riti er m.a. að finna skrá yfir börn Jóns og Valgerðar fyrri konu hans.
1. Ingibjörg, f. 5. des. 1858. Dó á barnsaldri.
2. Jón, f. 5. júní 1863. Dó 5 ára. Hann var talinn fáviti.
3. Hjörleifur, f. 10. okt. 1864. Hann dó á Akureyri tæplega tvítugur.

Var til lækninga á sjúkrahúsinu, en almennt er talið að hann hafi dáið úr garnaflækju.
4. Gestur, f. 23. des. 1865. Bóndi á Gilsbakka, Stekkjaflötum og Keldulandi. Dó 4. des. 1940.

Þegar Jón var tæplega sextugur kvæntist hann öðru sinni, en seinni kona hans var Aldís Guðnadóttir frá Villinganesi. Var aldursmunur þeirra talsverður, því hún var þá rúmlega tvítug.

 

Maður kom eitt sinn að Gilsbakka að kvöldi dags og spyr Jón hvort hann geti lofað sér að vera um nóttina.

"Við getum nú talað um það í fyrramálið", svaraði þá Jón.



Jón stundaði mikið smíðar utan heimils, enda hagur mjög. Var hann mikið á Hofsstöðum og í góðu vinfengi við það heimili. Þar var vinnukona Sigríður Bjarnadóttir og mun hún hafa þjónað Jóni sem kallaði hann hana jafnan fóstru sína. Um hana orti Jón meðal annars:

 

Ólafsfjarðar forsjónin
fóstru sendi minni
burgeislegan biðilinn
bezta úr eigu sinni.

 

Fóstra mín er full með glens,
flest eru orðin bitur.
Enginn hennar skilur skens,
skelfing er hún vitur.

 

Fegin vildi ég fara upp á fóstru mína,
þó ég af því biði bana,
bara til að gleðja hana.

 

Sigríður situr eitt sinn milli Jóns og annars manns og Jón kveður:

Fóstra mín er fögur öðru megin.
Þaðan fæ ég hýrleg hót.
Hinum megin er hún ljót.




Um Unu sem var húsfreyja á Hofstöðum

Una fyrir ofan Björn
allar nætur sefur.
Dável þessi draugavörn
dugað fljóði hefur.

 

Eitt sinn var Jón tepptur á Silfrastöðum vegna flóða í Norðurá ásamt þremur Jónum öðrum. Þá bjuggu þar Steingrímur Jónsson og Kristín Árnadóttir:

Raunabögu raula ég hér
rétt að gamni mínu.
Ég held þetta Jónager
éti Grím og Stínu.


                             


María nokkur fluttist frá Silfrastöðum að Gilsbakka og nokkru seinna kvað Jón:


María hingað meydóm sinn
mikinn flytja náði.
Nú er hann allur uppgenginn
eins og Grímur spáði.

 

Það er alkunna að grasbítir virða ekki ógirt landamerki. Nú fóru hross Jóns út í Stekkjarfleti og þar á meðal hesturinn Kapall, en hrossin náðust þar í hús. Jón orti svo um það:


Kviknaði bræði búandans
bæði í holdi og sálu,
því hófanaðir náungans
Námu gras og stálu.

 

Bóndi varð í sinni súr,
svelti hross um nætur.
Kapalsþörmum kreisti úr
kúk í skaðabætur.



 

Jón vaggar eitt sinn hvítvoðungi og fór þá með frumsamda barnagælu:


Dúsu sýgur, drullar og mígur undir.
Þykir snótum þráskælinn.
Þú ert ljótur nafni minn.

 

Og um búkonu sem þótti fjölhæf til verka:


Býr til grauta, brækur þvær,
bakar, hnoðar, malar,
kembir, spinnur, kveður, hlær,
klippir gull og smalar.

 

Eitt sinn orti Jón á Akureyrargöngu:


Linnabóla liljan svinn
lyftu upp kjól með hraða.
Stúfinn ólar mýktu minn,
meyjan póleraða.

 

Og þeir sem vilja skoða meira af kveðskap Jóns geta fundið eitt og annað á linknum

http://www.skagafjordur.is/default.asp?cat_id=2152




Áður en við Ingimar yfirgáfum Gilsbakka, sáum við að þarna hafði greinilega mikill dugnaðarforkur grafið fyrir bústað sínum og sinna.

Pínulítil hola en heljarstórt moldarflag.



Skömmu fyrir jól átti ég erindi við Ingólf á Dýrfinnustöðum, en að því frágengnu beindi hann umræðunni að öðru og kom mér með því svo rækilega á óvart að ég er eiginlega enn að átta mig. Ingólfur er ekki maður orðalenginga og skrúðmælgis eins og sá sem þetta ritar, heldur kemur hann sér beint að efninu á skýran og afgerandi hátt. Framsaga hans var nokkurn vegin með eftirfarandi hætti:

"Ég er hérna með svolítinn kassa sem þú mátt eiga, og ef þú vilt hann ekki þá hendi ég honum. Ég veit nebblega ekkert um músik og svona dót er ekkert fyrir mig, en ég er ekki frá því að tækið sé ættað frá Gautlöndum í Fljótum".
Svo mörg voru þau orð, en kassinn sem um ræddi var gamall grammófónn. Ég segi grammófónn en ekki plötuspilari, því mér finnst það orð hæfa betur þessu aldraða antikapparati. Hann var þeirrar gerðar sem hentaði m.a. til feðalaga, því hann var handsnúinn og þurfti þess vegna ekki rafmagn til að skila því sem ætlast var til af honum. Og auðvitað var hann svo gerður fyrir 78 snúninga plötur og í einu horni kassans hans var einkar haganlega fyrir komið sérstakri nálageymslu, því á sínum tíma var endingartími nálanna sáralítill og það varð þess vegna alltaf að vera tiltækur svolítill "lager" af þeim. Ofan á arminum er svo hljóðdósin, en hún gegnir sama hlutverki og hátalari gerir á yngri og nútímalegri útfærslum þessarar uppfinningar Edisons.

Mikill höbbðingi ertu Ingólfur... segi nú ekkert minna en það.



Við fórum einn daginn í fótbolta af einfaldari gerðinni, sem endaði með því að boltinn fór sínar eigin leiðir ef svo mætti segja. Í stað þess að hann sentist fram og til baka á milli okkar sparkaranna eins og til var ætlast og stefnt að, lá leið hans einhverra hluta vegna á skjön við fyrirætlanir okkar og út af svæðinu sem við höfðum helgað okkur til leiksins.



Hann stefndi rakleiðis inn á græna flöt örskammt frá og staðnæmdist ekki fyrr en hann hafði haldið sem leið lá undir appelsínugula og rafmagnaða strenginn sem enginn vill snerta, en þessi lína táknar endimörk yfirráðasvæðis okkar mannanna m.a. til leikja og upphaf lands kálfanna.



Þegar þessi svolítið þunglamalegu jórturdýr áttuðu sig á því að það var komið nýtt leikfang inn á völlinn til þeirra, fjölgaði hratt í kring um boltann og þau komu á harðastökki úr öllum áttum.




Ég vissi ekki að þeir gætu átt það til að vera jafn fljótir til og raun bar vitni, og ég vissi ekki heldur að þeir væru svona yfirmáta forvitnir. Fyrst kom einn, svo komu nokkrir til viðbótar og eftir svolitla stund taldi ég þarna meira en tuttugu kálfa. Líklega hafa þeir fyrstu komið til að skoða boltann, en þeir sem síðar bættust við hafa líklega lítið séð til hans og einungis elt til þess að athuga hvað hinir fyrri væru að athuga o.s.frv.




Þeir ráku snoppuna í leðurtuðruna og hún hreyfðist lítillega. Þá ýttu þeir við henni aftur, - og aftur. Eftir nokkrar slíkar ýtingar og svolitla stund, var hún komin aftur undir markalínuna rafmögnuðu og til mannheima á ný. Sýningu þeirra var lokið að sinni og við gátum haldið áfram leiknum.




Ýmis fróðleikur um þessar "kýr fátæka mannsins" hefur ratað á fjörur mínar eftir stutta ferð upp á Öxnadalsheiði í geitaleit. Reyndar bæði í leiðangrinum sjálfum en síðan hafa líka allmargir molar verið að bætast við.

Geitur hafa verið á landinu allt frá landnámsöld, enda er sá stofn sem telur í dag um 400-500 dýr skilgreindar sem landnámsgeitur. Hann er því að öllum líkindum einn allra minnsti einangraði geitastofn heims. Afurðirnar eru ull, kjöt, húð, mjólk og horn.




Ég er ekki lengur viss um að máltækið sem segir að ekki þýði að fara í geitarhús að leita ullar, sé að ganga upp í mínum huga á sama hátt og áður, eða þá að ég hef einfaldlega alltaf misskilið það. Það er nefnilega heill hellingur af ull í geitarhúsum og hún skiptist í tvö lög rétt eins og á kindum (tog og þel), en er kallað stý og fiða á geitum. Þetta síðasta er reyndar sótt á netið og eins að kasmírull er unnin úr innra laginu, þ.e. fiðunni.




En Agnar Bolvíkingur og prestsbóndi á Miklabæ heldur nokkrar geitur og vegna versnandi tíðar var talið rétt að koma þeim í hús fyrir veturinn. Það var því safnað saman nokkrum körlum úr sveitinni og haldið til heiðar, en sést hafði til nokkurra geita niður við veg uppi á Öxnadalsheiði. Ég fékk að fljóta með (líklega af því að það var laust sæti í bílnum) þótt fyrirséð væri að lítið gagn yrði í mér. Ég veit nefnilega nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut um hegðunarmynstur geita til fjalla og þaðan af síður hvernig hægt er að bera sig að smölun þeirra.




Reyndar hef ég lengst af staðið í þeirri trú að það væri einfaldlega ekki hægt að smala geitum ef þær vildu ekki láta smala sér. Og ég hef líka trúað því að þær vildu það yfir höfuð aldrei nokkurn tíma. En nú kom eins og svo oft áður berlega í ljós hvað ég er illa að mér um einföldustu verk til sveita og mikla fyrir mér það sem lítið sem telst smámál í dreifbýlinu. Auðvitað voru það hundarnir sem sáu um allt erfiðið en ekki við mennirnir. Ingólfur á Dýrfinnustöðum lumaði auðvitað á leynivopni sem dugði, því um leið og hann hafði hleypt Border Collie-unum út úr hestakerrunni sem hékk aftan í jeppanum voru örlög geitanna ráðin. Þeir hlupu sitt hvoru megin við geitahópinn og tóku sér stöðu milli hans og fjallsins, sem í þessu tilfelli var eina leiðin til frelsisins. Það var engu líkara en þær áttuðu sig á þeirri bláköldu staðreynd að þær ættu enga möguleika í stöðunni og skynsamlegast væri að lúta vilja mannsins (og auðvitað hundanna).




Hafrar og huðnur runnu því næst greiðlega inn í hestakerruna og voru komnar í hús skömmu síðar. Það sem ég hélt í einfeldni minni að væri nánast ógerlegt, reyndist vera hið minnsta mál þegar á reyndi.




Vígalegur...!




Og það bar til sem oftar að ein kýrin í fjósinu á Flugumýri átti í miklu basli með að koma frá sér kálfi. Þegar liðinn var alllangur tími frá því að von var
á afkvæminu, var sýnt að "fæðingarhjálp" var bráðnausynleg.




Það var því stormað út í fjós og ég fékk að fara með þó ekki væri ég líklegur til stórra verka, en ég hafði alla vega myndavélina meðferðis.




Ingimar bóndi og "ljósmóðir" fór eftir kálfinum og kom lykkju upp fyrir klaufir hans og síðan var farið að toga.




Ingimar og Katarína heimasæta að aftan, en ég togaði á móti framan frá.




Nokkuð þokaðist áleiðis en ekki nægilega mikið. Sýnt var að þörf var á öflugri hjálpartækjum.




Mér var bent á að það væri ágætt ef ég gæti látið vita ef það ætlaði að líða yfir mig. Ég er ekki frá því að ég hafi séð votta fyrir glottaralegum viprum á andliti Ingimars, en ég lét sem ég heyrði ekki þessa (xxx) athugasemd.

"Líklega kemur hann dauður, því þetta er búið að vera bæði langt og strembið" bætti hann svo við.



En það reyndist vera líf í þeim litla sem var þó með allra stærstu kálfum í marga mánuðuði. Hann braggaðist ágætlega og daginn eftir var hann farinn að standa nokkurn vegin í allar fjórar.

En svona sér maður auðvitað bara í sveitinni.



Þann tíma sem ég dvaldi í Skagafirðinum á síðasta ári, átti ég þó nokkrum sinnum leið út á Siglufjörð. Eitt sinn þegar ég var að koma aftur þaðan, sá ég hvar hvorki meira né minna en heil hljómsveit með öllu, var algerlega úti í móum ef svo mætti að orði komast. Ég staldraði við og átti svolítið spjall við hina ágætu drengi í Hjálmunum sem höfðu einmitt verið að spila á Siglufirði kvöldið áður. Þeir báru sig eftir atvikum vel og sögðu hljóðfærin alveg hafa sloppið í byltunni sem væri ekki svo lítið mál. Þeir minntust reyndar á að bístjórinn hefði sloppið líka nema þá með skrekkinn, en hann hefði alveg unnið sér inn fyrir honum. Reyndar skil ég ekki alveg hvernig hljómsveitarbíllinn gat fokið út af og snúið í smáþýfinu utan vegar eins og sést á myndinni. Um það leyti sem ég var að fara, kom dráttarvél að sem kippti bílnum upp á veg og Helgi Svavar og félagar gátu haldið áfram, en ferðinni var heitið inn á Akureyri þar sem átti að spila á Græna Hattinum.




Þessir fulltrúar nútíðar og fortíðar hittast stundum undir fjósveggnum á Flugumýri þegar dagur er að kvöldi kominn og eyða þá gjarnan nóttinni saman. Hinn grasgræni John Deere undantekningalítið eftir annasaman og erfiðan dag, en "gamli sorrý Gráni" hefur verið þarna allan daginn, því hann hefur skilað því sem hægt er að ætlast til af honum á starfsæfi hans og jafnvel svolítið meira til. Gráni sem kallaður er svo, heitir öðru nafni Ferguson og er árgerð 1949. Hann bar skráningarnúmerið Kd-39, er með 35 hestafla fjögurra strokka bensínvél og var síðast notaður á níunda tug síðustu aldar, þá svolítið kominn á fertugsaldurinn. Hann var keyptur af afa og nafna núverandi bónda á sínum tíma, var fyrsta dráttarvélin sem kom að Flugumýri og leysti þá af hólmi sláttuvél þeirrar gerðar sem dregin var af hestum.




Í nóvember sl. spilaði ég á hjónaballi í Héðinsminni og er þetta í fyrsta skipti sem ég kem inn í þetta merka félagsheimili sem ég heyrði svo oft talað um í mínu ungdæmi. Í þá tíð var engu líkara en þeir sem eldri voru fylltust lotningu og böllin þar sveipuðust sjálfkrafa einhverjum óútskýranlegum dýrðarljóma fortíðarinnar þegar þau bárust í tal. En með batnandi samgöngum og tilkomu Miðgarðs 1967 varð allt einhvern vegin nálægara og venjulegra, en líklega mun það breytast þegar árin hafa einnig sveipað það tímabil mistri fjarlægðarinnar í tíma talið.

 

Saga hússins er orðin bæði löng og merk. Á samkomunni meðan borðhald stóð yfir sté sá ágæti maður Árni frá Uppsölum í pontu og rakti hana í stórum dráttum á þann hátt sem honum er einum lagið. Húsið var upphaflega byggt árið 1921, en endurbyggt og stækkað 1961 og svo aftur 1992. Þegar dragspilið var þanið, svunturnar kipptust, faldarnir lyftust og danslagið dunaði og svall á öldinni sem leið, var til dæmis hvorki rennandi vatn né nokkur snyrtiaðstaða í húsinu. Menn og konur hafa því að öllum líkindum gengið afsíðis og spölkorn frá húsi þegar náttúran kallaði, og hefur þá væntanlega einu gilt með hvaða hætti eða formerkjum hún gerði það.




Það er ekki alveg laust við að það hafi vakið svolitla athygli nefndarmanna sem og ýmissa annarra, að eftir lauslega könnun á verðskrá hugsanlegra ballspilara, kom í ljós að Stúlli ásamt Dúa fylgisveini sínum var nokkru dýrari en Geirmundur sveiflugerðarmaður ásamt meðspilara. Þetta fannst sumum innvígðum og innmúruðum Skagfirðingum ekki alveg samkvæmt bókinni því Geirmundur er jú líklega talsvert frægari að þeirra mati.




Þær Margrét og Unnur höfðu nóg að gera í miðasölunni því mæting var með ágætum, en þetta mun vera í 60. skipti sem Hjónaballið í Akrahreppnum er haldið. Borðhald hófst um áttaleytið, borð svignuðu undan kræsingum, skemmtinefndin átti greinilega góðan dag og fór vægt til orða tekið á kostum, en síðasti dansinn var stiginn kl. hálffimm um morguninn.




Aðeins nokkrum metrum fyrir neðan Héðinsminni og á Akratorfunni sem kölluð er svo, stendur bær Skúla Magnússonar
Ég varð auðvitað að gúggla svolítið eins og svo oft er gert til að afla meiri vitneskju um það sem fyrir augu ber og útkomuna má sjá hér að neðan.

 

Af nat.is

"Skúli Magnússon, landfógeti, var lengstum sýslumaður í Skagafirði og bjó að Stóru-Ökrum.  Eftir standa af bæ Skúla (byggður 1743-45) tvö samhliða hús, bæjardyr og stofa og á milli þeirra eru göng, sem liggja í krók aftan við húsin. Stofan var notuð sem þinghús á sínum tíma, og voru þar haldnir helstu fundir í hreppnum. Nýlunda var að stofan sneri stafni fram á bæjarhlað. Gengið var beint frá hlaði inn í þingstofuna en slík tilhögun varð síðar algeng á Norðurlandi á síðari hluta 18. aldar. Á henni eru nú ekki lengur útidyr. Timburgrind húsanna er sérstök, eins konar millistig af stafverki og grindarsmíð, sem ruddi sér rúms á 18. öld. Þilgerð er forn. Í húsunum er að finna athyglisverða viði úr eldri húsum á staðnum sem bera margs konar ummerki fyrri notkunar, sumir þeirra prýddir strikum til skrauts. Er þar nokkrar gerðir strika að finna, en strikun á viðum er ávallt vísbending um að þeir hafi verið í betri húsum.

-
Þjóðminjasafn Íslands tók húsin í sína vörslu árið 1954. Gagngerar viðgerðir fóru fram ári síðar, og hefur eftir það verið dyttað að bænum eftir föngum.
-

Akratorfa er bæjaþyrping í Blönduhlíð neðan Akrafjalls (1147m), Miðhús, Minni-Akrar, Höskuldsstaðir og Stóru-Akrar.  Þarna bjó Eggert Jónsson (-1656), lögréttumaður.  Hann var sonarsonur Magnúsar Jónssonar prúða í Ögri.  Jón klausturhaldari að Möðruvöllum var sonur Eggerts.
-
Félagsheimilið Héðinsminni er að Stóru-Ökrum, kennt við Skarphéðinn Símonarson (1877-1914), bónda að Litladal.  Hann drukknaði í Héraðsvötnum.  Faðir hans gaf allar eigur hans til byggingar fundarhúss fyrir Akrahrepp.  Það var opnað 1921 en stækkað og endurbætt 1961, þegar það fékk núverandi mynd.  Þar var barnaskóli, landsímastöð og bréfhirðing frá 1954.
-
Hjálmar Jónsson, Bólu-Hjálmar, bjó að Minni-Ökrum ík 27 ár.  Þaðan hraktist hann að Grundargerði í sömu sveit.
-
Ferjustaður á Héraðsvötnum var undan Ökrum fyrrum.  Þar var síðast dragferja árið 1930".


Af Wikipedia

"Stóru-Akrar eða Akrar er bær í miðri Blönduhlíð í Skagafirði og höfðingjasetur fyrr á öldum. Bæir standa þétt í nágrenni Stóru-Akra og kallast þar Akratorfa.

Á Stóru-Ökrum bjó Björn prestur Brynjólfsson á fyrri hluta 14. aldar og afkomendur hans um langan aldur. Sonur Björns var Brynjólfur ríki Björnsson (d. 1381) og síðan Björn sonur hans (d. um 1403). Dóttir hans var Sigríður, sem giftist seinni manni sínum, Þorsteini Ólafssyni lögmanni í Hvalseyjarkirkju á Grænlandi 1408 en vitnisburður um brúðkaupið er síðasta örugga heimild um búsetu norrænna manna þar. Einkadóttir þeirra var kölluð Akra-Kristín. Hún var fyrst gift Helga Guðnasyni lögmanni en síðar Torfa Arasyni hirðstjóra. Dóttir hennar og Helga var Ingveldur, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra á Reykhólum.

Dætur Ingveldar og Þorleifs, Guðný og Helga, eignuðust Akra eftir foreldra sína og bjó Guðný, sem kölluð var Akra-Guðný, lengi á jörðinni með manni sínum, Grími Jónssyni lögmanni. Hinn hlutann eignaðist Gunnar Gíslason á Víðivöllum. Dóttir hans var Solveig kvennablómi, kona Arngríms lærða, og virðist Arngrímur hafa búið þar um tíma og seinna Jón sonur hans. Hann seldi Eggert Jónssyni jörðina árið 1630 og bjuggu afkomendur hans þar þangað til 1743, þegar hún var seld Skúla Magnússyni, sýslumanni Skagfirðinga og síðar landfógeta. Hann byggði þar á árunum 1743-1745 myndarlegan torfbæ sem búið var í til 1938 og stendur enn að hluta. Hann er undir umsjá Þjóðminjasafns Íslands og hefur verið endurgerður.

Kirkja var á Stóru-Ökrum frá því snemma á öldum en hún var lögð niður með konungsbréfi 1765. Þar er líka félagsheimilið Héðinsminni, sem reist var 1921 í minningu Skarphéðins Símonarsonar í Litladal, sem drukknaði í Héraðsvötnum. Þar var skóli hreppsins allt til 2006."




Hann Ingimar á Flugumýri hringdi í mig seint í nóvember og var greinilega svolítið niðri fyrir. Það hafði verið óskað eftir mynd af Flugumýrarbænum ásamt allra næsta nágrenni frá Vélaborg til að nota á dagatal fyrir árið 2010. Varla gat annað verið en að eitthvað væri finnanlegt af hentugu myndefni, en það kom hins vegar svolítið á óvart að þegar farið var að svipast um eftir því að minna var til en menn höfðu talið.




Ég sagðist örugglega eiga eitthvað af slíkum myndum frá liðnu sumri, því myndavélin hefði nú ekki verið svo lítið á lofti. En það sama var uppi á teningnum þegar ég fór að gramsa í mínum afurðum, jú eitthvað var til en fátt eitt sem heppilegt gat talist. Ýmist hvort voru menn eða skepnur svo mikið í forgrunni að lítið sást til bæjar, eða það vantaði hálft fjósið eða íbúðarhúsið öðru hvoru megin á myndflötinn.




Þá var það helst til ráða að fara með myndavélina út á tún og "afla þeirra gagna" sem um var beðið og mönnum var auðvitað ljúft að láta í té.



Ég var að sjálfsögðu hinn kátasti með að vera falið verkefnið og sú ábyrgð sem því fylgdi og í kjölfarið var u.þ.b. tugur mynda sendar á Vélaborg til skoðunar. Nú bíð spenntur eftir að fá að berja augum eintak af umræddu dagatali, því ég hef sannfrétt að það prýði einhver mynda þeirra sem má sjá hér að ofan.




Gamla brúin yfir Héraðsvötn eystri í Akrahreppi gegnt Varmahlíð, er aflögð fyrir allmörgum árum hvað snertir alla almenna umferð. Hún er ekki lengur í þeirri þjóðbraut sem hún var í hér í eina tíð og yfir hana fara ekki lengur blikkbeljur á leið sinni milli hreppa eða jafnvel landshluta.




En hún stendur þó enn á sínum stað og það má hafa af henni gagn. Litli kofinn við brúarsporðinn þar sem hliðvörðurinn hélt til í yfir sumarmánuðina er löngu horfinn, en Héraðsvötnin nýttust afar vel sem sauðfjárveikivarnarlína. Áður en brúin kom til mun hafa verið þarna dragferja eitthvað fram á nítjándu öldina.




Á rölti í vestur eftir brúnni og hugsaði með mér að líklega stæðist hún illa mál og nútíma kröfur hvað breiddina varðaði. Þar sem ég var með málband í vasanum fannst mér upplagt að kanna þær tölulegu staðreyndir. Hún reyndist vera 160 cm á breidd.




Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgjast með æfingu hjá Karlakórnum Heimi, en undirbúningur hafði þá staðið yfir það sem af var vetri vegna "Þrettándaverks" kórsins sem var svo sýnt í Miðgarði þ. 2. jan. sl. Það hefur verið nefnt  "Upp skalt á Kjöl klífa" sem voru hluti lokaorða Þóris Jökuls Steinfinnssonar áður en hann var höggvinn eftir Örlygsstaðabardaga sem er þema tónleikanna.
Reyndar voru lokaorð hans fleiri því hann kvað eftirfarandi vísu:

Upp skal á kjöl klífa,
köld er sjávar drífa.
Kostaðu hug að herða,
hér skaltu lífið verða.
Skafl beygjattu skalli,
þótt skúr á þig falli.
Ást hafðir þú meyja,
eitt sinn skal hver deyja.

Þórir barðist með Sturlungum sem fóru halloka fyrir mönnum Gissurar og Kolbeins unga. Hann komst ásamt fleirum í kirkju á Miklabæ, en fékk ekki grið og var höggvinn eins og áður sagði.
Stefán kórstjóri samdi tvö lög vegna tónleikanna og Agnar H. Gunnarsson á Miklabæ tók saman texta sem hann byggði á Sturlungu og voru leiklesnir á milli söngatriða. 

                              
  
Þann 26. júlí sl. var nýtt altaristeppi afhent Miklabæjarkirkju. Það eru sjö konur í Akrahreppi sem eiga langmestan heiðurinn af gerð þess sem hefur tekið hvorki meira né minna en þrjú og hálft ár. Ekki verður annað sagt en að það sé bæði stórglæsilegt í alla staði og þess utan athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Þarna hefur umfjöllunarefnið verið sótt í bók allra bóka, en helgisögurnar síðan verið stílfærðar á afar skemmtilegan hátt. Ef vel er að gáð af þeim sem þekkja svolítið til, virðast þær heimfærðar upp á hið Skagfirska umhverfi og mannlíf.
Mér þótti það mikill heiður þegar séra Dalla Þórðardóttir spurði mig hvort ég vildi mynda umrætt teppi bæði í einu lagi svo og hvern hluta fyrir sig, því til stæði að setja niður nokkur orð um tilurð þess ásamt skýringum á myndræna þættinum.



En við vorum ekki alveg skilin að skiptum þ.e. ég og Miklabæjarkirkja. Nokkrum vikum síðar var safnað saman nokkrum mönnum að áliðnum degi því nú stóð mikið til, og þar sem ég var staddur í sveitinni þann daginn fékk ég að fljóta með. Það hafði verið keypt pípuorgel sem hafði vikið sæti fyrir nýju og mun stærra hljóðfæri í Blönduóskirkju og nú skyldi bregða á það böndum og lyfta upp í þær hæðir sem hæfir slíkum grip og koma honum fyrir á sínum framtíðarstað. Ekki verður annað sagt en að þær verklegu framkvæmdir gengu bæði hratt og vel fyrir sig eins og vænta mátti undir verkstjórn Agnars Bolvíkings. Og aftur get ég montað mig svolítið, því ég fékk þarna fyrstur manna að setjast við hljóðfærið á nýja staðnum og framkalla nokkra tóna sem hæfðu stað og stund.

Núverandi kirkja á Miklabæ er sú yngsta í Skagafirði byggð 1973, en heimildir eru um að þar hafi verið komin kirkja á staðnum á Sturlungaöld.


                                

Það er aldrei neitt sérstaklega þægilegt við það ef manni verður fótaskortur á ferðum sínum og dettur, en möguleikarnir á slíku aukast til muna ef fótabúnaðurinn er línuskautar. Hann Jón Hjálmar frændi minn virðist þó eiga svar við slíku og kom sér upp viðeigandi varnarbúnaði.




Þessa úthugsuðu hönnun sá ég síðast liðið haust og fannst talsvert  til hennar koma. Þetta fjárflokkunarapparat skýrir sig að mestu leyti sjálft og meira að segja ég malbiksdrengurinn og þorparinn þurfti aðeins örfáar spurningar til að komast í allan sannleika um hvernig það virkar. Féð er rekið í gegn um það úr hólfinu þeim megin sem ljósmyndarinn stendur og vegna lögunnar þess eru litlar líkur á öðru en að það myndi einfalda röð sem gerir allt miklu viðráðanlegra. Þegar kemur svo að þeim endanum sem sést á myndinni, er spjaldið notað til að flokka og hleypa í gegn einni kind í senn. Leiðin liggur þá ýmist til vinstri eða hægri, eða á þessum árstíma þ.e. skömmu fyrir sláturtíð ýmist til lífs eða dauða.



Ég átti svolitla viðdvöl á ónefndum bæ í Skagafirðinum og gekk m.a. ásamt bónda til hesthúss. Þar var boðið upp á svolítið bragð af Gammeldansk, en það vakti hins vegar athygli mína hvar bóndi lagði frá sér staupið meðan hann brá sér frá. Ég laumaðist til að taka mynd af ílátinu þar sem það stóð og bjóst reyndar alls ekki við að það yrði á sínum stað þegar hann kæmi til baka. En viti menn, eftir stundarkorn kemur bóndi mættur aftur og hver dropi á sínum stað.



Árni sem býr á Uppsölum er mikill hagleiksmaður og sérgrein hans er "húsasmíði" eða ættum við kannski að segja "bæjargerð"? Hann hefur komið sér upp ágætri aðstöðu heima við og það eru alltaf næg verkefni fyrirliggjandi að hans sögn. Ýmist nýsmíði eða viðhald og viðgerðir.



Og þeir standa orðið víða um Skagfirskar grundir bæirnir hans Árna.

En mun fleiri myndir tengdar því sem hér er sagt má finna í myndaalbúmi í möppu merktri "Flugumýri 2009".

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481084
Samtals gestir: 53319
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 10:55:15
clockhere

Tenglar

Eldra efni