20.02.2010 01:06

Siglótengt



616. Ég var á ferðinni
inni í Reykjavík sem oftar og sá þá þennan afturenda á strætó. Það verður að segjast sannleikanum samkvæmt, að þessi sýn sem þarna blasti við mér gladdi mig verulega. Ég hef stundum verið að skima eftir þeirri afurð sem þarna sést auglýst, en alls ekki fundið allt of víða - að mínu mati. Þó veit ég það nú orðið að það má alltaf ganga að henni vísri í "verðlaunabúðinni" Fjarðarkaupum. Fyrir ekki svo margt löngu síðan fékk ég "skyndilöngun" í Egils-síld og var þá staddur á Siglufirði. Ég átti leið í tvö stórmagasín nyrðra þann dag sem ég fylltist umræddri löngun og málið bjargaðist, en þó ekki á þann hátt sem ég átti von á. Egils-síld var EKKI til í Samkaupum, en Eysteinn klikkaði hins vegar ekki. En það er sem sagt markaðsátak í gangi hjá Egils-síld.




Þessi mynd er tekin út um framrúðuna á Bláus á Fjarðarhrauninu í Hafnarfirði. Það vakti ekki bara athygli mína að þarna fór um götu gamall Volvo Amazon, heldur var hann líka með F-númeri. Það var hins vegar sama hvað ég gruflaði, ég mundi alls ekki eftir því af heimaslóðum frá árum áður, og þegar ég stoppaði á rauðu ljósi við hliðina á þessum fallega fornbíl kannaðist ég ekkert við ökumanninn.
Veit annars nokkur....?




Ég hef verið að lesa óvenju mikið undanfarnar vikur miðað við að slíkt gerðist bara alls ekki fyrir fáeinum mánuðum síðan. Af þessum fimm bókum sem hafa verið eða eru til lestrarlegrar meðferðar um þessar mundir, eru þrjár "Siglufjarðartengdar" ef þannig mætti að orði komast. Ég byrjaði á efstu bókinni í staflanum "Stjörnuskipið", en það er íslensk vísindaskáldsaga eftir Kristmann Guðmundsson frá árinu 1975. Ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið þeagr ég sá hana í "Góða hirðinum" á heilan hundraðkall, en ég hef verið undarlega veikur fyrir vísindaskáldskap frá barnæsku. "Stjörnuskipið" er alveg stórskemmtileg saga og þó hún sé vissulega svolítið barn síns tíma, þá hefur hún staðist tímans tönn hreint ótrúlega vel. En þessi bók er ein af þeim Siglufjarðartengdu þó óvíst sé að margir átti sig á þeirri tengingu hjálparlaust. En Kristmann Guðmundsson rithöfundur var bróðir Kristins Guðmundssonar útvarpsvirkja sem bjó á Hverfisgötu 1, og því förðurbróðir Steingríms Kristinssonar, hins ötula upphafsmanns siglo.is og ljósmyndagúrús.

Hin eina sanna Star wars eftir George Lucas var svo næst í röðinni og þrátt fyrir að kunna söguna utan að, las ég hana eins og langþyrstur maður myndi teiga glas af köldu vatni. Ég er núna kominn vel inn í "Sjúddirarirei" og verð mikið hissa á sjálfum mér ef hún verður ekki upplesin innan einhverra klukkustunda miklu frekar en daga. Eftir hana bíða mín "Harmleikur í Héðinsfirði" og "Þorskastríð og hvernig á að tapa þeim". Það er því enn til nokkurs að hlakka.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496526
Samtals gestir: 54784
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 00:38:26
clockhere

Tenglar

Eldra efni