02.03.2010 15:24

Snurparinn hans Óskars


Heimili fiðurfénaðarins hans Óskars. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar

618. Ég er mikið búinn að reyna að komast yfir mynd af hinu afar sérstaka hænsnahúsi hans Óskars Sveinssonar. Hún fannst að lokum og þó talsvert hafi vantað upp á að myndgæðin, flaggaði ég henni engu að síður hér að ofan. Ekki var hún þó búin að vera þar lengi þegar Steingrímur (siglo.is) sendi mér aðra mun betri og tók hún með það sama við hlutverki þeirrar eldri. En "húsið" er ekki bara einhver súðbyrðingur á hvolfi þar sem fyllt er að með torfi og grjóti, heldur getur hér að líta snurpubát sem er svolítið sértækara fley. Þegar síldveiðar hófust við íslandsstrendur var yfirleitt veitt í reknet, en bylting varð í veiðunum þegar hringnótin (sem einnig hefur verið nefnd herpinót og snurpunót) kom til sögunnar.


Óskar fyrir framan hænsnabúið. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.


Ég kynntist Óskari lítilsháttar þegar ég vann í frystihúsi S.R. við Vetrarbraut sem síðar varð frystihús Þormóðs Ramma, og ekki er ofsagt að hann hafi verið hinn skemmtilegasti karl.


Snurpubátar á Ráeyri - Ljósmynd Gestur Fanndal um 1970

 

Ágæta lýsingu má finna á netinu skrifaða af Ingibjörgu Jónsdóttir nema í fiskifræði við HÍ.

"Hringnót er netgirðing sem lögð er hringinn í kringum fiskitorfu. Hringnætur eru notaðar við loðnu- og síldarveiðar við Ísland. Hringnót samanstendur úr aflöngum netstykkjum úr næloni sem eru saumaðar saman lóðrétt og mynda mjög stórt net. Meðalsíldarnót er 550m löng og 180m djúp. Á efri brún netsins eru flot sem halda netinu á floti og við neðri brún netsins er teinn sem á eru festar blýsökkur til að þyngja netið. Einnig eru snurpuhringir festir á neðri brún netsins og í gegnum þá þræddur snurpuvír. Netið er lagt utan um torfuna og neðri teinninn látinn síga til að komast niður fyrir torfuna. Nótinni er lokað að neðan með því að hífa snurpuvírinn inn. Því næst er annar endi nótarinnar dreginn inn í skipið og minnkar þá nethringurinn þar til aðeins lítill netpoki er við hliðina á skipinu og í honum liggur fiskurinn. Fisknum er svo dælt upp í skipið. Hringnót er stærsta veiðarfærið sem notað er við Ísland og vegur meðalsíldarnót um 40 tonn. Hringnótin er einnig afkastamesta veiðarfærið við Ísland, þ.e.a.s. tekur mestan afla. T.d. getur kolmunnatroll tekið allt að 200 tonnum í einum drætti."



Auglýsing í Mbl. frá árinu 1940.

 

En gömlu snurpubátarnir urðu úreltir þegar menn höfðu tileinkað sér nýrri og þróaðri tækni við síldveiðarnar og með tilkomu kraftblakkarinnar hurfu þeir síðan endanlega


Óskar Sveinsson. - Mynd úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

 

Ég rakst á alveg frábæra mynd af hænsnabúinu sem er teiknaða af snillingnum Örlygi Kristfinnssyni. En þar sem ég gaf mér ekki tíma til að sækjast eftir leyfi hans til birtingar, læt ég slóðina fylgja því hana er reyndar að finna á gamla sksiglóvefnum. 

Hún er: http://old.sksiglo.is/e107_images/newspost_images/18kort.jpg

 


Snurpubátur á hvolfi við Síldarminjasafnið.

 

Þegar ég var "lítill" var oft farið suður á Langeyrina og leikið sér, en þar voru tugir slíkra báta geymdir. Lengi vel var svo hefð fyrir því að taka a.m.k. einn bát á ári, saga hann í sundur þvert yfir miðjuna, reisa hlutana upp á endann, snúa þeim saman og nota sem aðaluppistöðu í áramótabrennuna. Nú munu aðeins þrír snurpubátar í sæmilega heilu lagi vera eftir af þeim hundruðum sem eitt sinn flutu við Íslandsstrendur.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 188
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317812
Samtals gestir: 34820
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 08:33:40
clockhere

Tenglar

Eldra efni