03.03.2010 06:24

Litli maðurinn og vinur litla mannsins



619. Hugtakið "litli maðurinn" er oftast notað þegar átt er við þann sem hefur orðið undir í lífsbaráttunni, manninn sem má sín alla jafnan lítils gagnvart ofureflinu, nær ekki "standard" og er oftar en ekki láglaunamaður, öryrki, ellilífeyrisþegi eða eitthvað í þá veruna. Stundum er "litli maðurinn" hvunndagshetjan sem allir dá, ímynd Davíðs sem leggur Golíat að velli og hann er hylltur og borinn á gullstóli þann tíma sen hann nýtur athygli fjöldans. Dæmi um slíkt er fyrirsögn sem ég rakst á frá árinu 2007. "Litli maðurinn leggur olíufélögin í héraðsdómi". Síðan segir frá Sigurði Hreinssyni frá Húsavík sem vann mál gegn olíufélaginu Ker, en það var dæmt til að greiða honum 15.000 krónur í skaðabætur vegna samráðs olíufélagana á árunum 1993 til 2001. En nú eru reyndar flestir búnir að gleyma Sigurði.

En stundum er líka átt við þann sem er lítilmótlegur í hugsun og gjörðum eins og Sigurgeir Orri átti við á Moggablogginu á dögunum.

"Þetta er nákvæmlega það sem búast má við af litlum manni. Það voru myndir af Brown um daginn í sjónvarpinu þar sem hann stóð meðal stjórnmálaleiðtoga heimsins. Það sem ég sá var lítill maður, lítill aumur maður. Því það eru bara litlir menn sem haga sér gagnvart Íslandi eins og hann gerði."

Ef slegið er inn leitarorðinu "litli maðurinn" á Google, kemdur ýmislegt skondið í ljós. Í tilefni þess að sveitastjórnankostningar eru á dagskrá með vorinu á eftirfarandi ágætlega við:

"Litli maðurinn er okkar innri kjarni segir Margrét St. Hafsteinsdóttir: Litli maðurinn dreginn fram í dagsljósið og skellt í fangið á framboðsfólki sem rífst um það hvert þeirra ætlar að gera mest fyrir hann."

Aðalsteinn Á Baldursson formaður Framsýnar skrifar um litla manninn í svolítið yfirfærðri merkingu:

"Já, litli maðurinn er ekki ánægður um þessar mundir þar sem þjóðarskútan er strand og brimgarðar ganga yfir hana í flæðarmálinu. Áhöfnin með skipstjórann í fararbroddi er komin á þurrt og telur sig ekki bera neina ábyrgð á strandinu. Strandið sé öðrum að kenna, jafnvel litla manninum sem gagnrýnt hefur skipstjórann og aðra yfirmenn skútunnar fyrir eyðslusemi og stefnuleysi undanfarin ár. Litla manninum fari best að þegja þar sem hann sé bæði vitlaus og gamaldags og skilji því ekki mikilvægi útrásarinnar fyrir efnahag þjóðarinnar. Það eigi hins vegar ekki við um forseta vorn og stjórnmálamenn sem haldið hafi útrásarvíkingunum veislur og veitt þeim orður eftir þörfum fyrir góð störf í þágu þjóðfélagsins. Skipstjórinn gengur í burtu af strandstað og raular lagið, Ekki benda á mig."


Ein birtingarmyndin af litla manninum er sagan af Siglfirðing nokkrum sem átti ekki fyrir rafmagnsreikningnum svo Rarik sendi mann frá Blönuósi til að loka. Það tók sveitungann tvo daga að aura saman fyrir hinum ógreiddu reikningum, hann borgaði þá og bað síðan náðarsamlegast um að aftur yrði opnað fyrir rafmagnið. Í fyrstu var það ekki hægt fyrr en maðurinn frá Blönduósi kæmi aftur í bæinn, en síðan var það ekki heldur hægt vegna bilunar í tölvukerfi orkufyrirtækisins því þar komu ekki fram meinar hreyfingar á greiðslum. Heil vika leið í rafmagnsleysi frá því að reikningar voru greiddir og uppistaða matseðilsins á heimilinu var nær eingöngu dósamatur og kaldar samlokur.

"Vinur litla mannsins" er svo undantekningalítið hinn póllinn, sá jákvæði og sá góði. 

Ég rakst á athyglisverða upptalningu á þeim sem gætu talist vinir litla mannsins, en auðvitað voru verulega skiptar skoðanir á þeim lista. Hér kemur hann og dæmi nú hver fyrir sig...

Jóhanna Sigurðardóttir

Linux

Frjálslyndi flokkurinn

Herra Sigurbjörn Einarsson

Obama

Bónus

Albert Guðmundsson

Jólasveinninn og þá helst Stekkjastaur (sem heldur sig mest í fjárhúsum um fengitímann).

Steingrímur J.

ASÍ

Ögmundur Jónasson

Fjarðarkaup

Ólafur Ragnar Grímsson

Davíð Oddsson

Netið

Castro

Mörður Árnason

Ástþór Magnússon

Mandela

Leikfélag Reykjavíkur

Þrotabú Baugs

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 424
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 481141
Samtals gestir: 53320
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 12:01:54
clockhere

Tenglar

Eldra efni