28.06.2010 04:12
Auglýsingin í sjoppunni hjá Matta
635. Hér kemur svolítil upprifjun á gamalli færslu sem er núna talsvert aukin og endurbætt, auk þess sem Steingrímur fann mynd í fórum sínum sem hann tók af herlegheitunum.
Við strákarnir vorum að spila flestar helgar þetta sumar þó svo að eftirtekjan væri ekki alltaf í samræmi við fyrirhöfnina. Hljómsveitin hét Frum og hún starfaði frá því sein á árinu 1971 og lítillega fram á 1974. Ég, Biggi Inga, Gummi Ingólfs, Viddi Bö, Guðni Sveins, Gummi Ragnars og Tóti Ben áttum að vísu svolítið mislanga dvöl í bandinu en einhverju sinni eftir æfingu stóðum við inni í Pósthússkotinu og horfðum á sveitunga okkar sækja Moggann sinn í sjoppuna til Matta. "Af hverju setjum við ekki ballauglýsingar þarna?" Biggi trommari og auglýsingagúrú spurði bæði sjálfan sig og okkur, en við sem minna vissum um auglýsingar og markaðssetningu áttum svo sem engin svör. Þetta var eiginlega alfarið deildin hans Bigga. Við vorum bókaðir á Ketilásnum næstu helgi og nú var komin miðvikudagur, það var því hvort sem er orðið tímabært að láta vita af sínum fyrirætlunum. Biggi rölti yfir Grundargötuna og við horfðum á eftir honum fara inn til Matta og sáum að þeir tóku tal saman. Eftir svolitla stund kom hann til baka og sagði okkur að Matti vildi alveg hengja upp auglýsingu frá okkur um Ketilásballið. "Ég sagði bara hverra manna ég var og þá var allt í lagi" sagði Biggi en það hefur eflaust ekki skemmt fyrir að Ingi Bald hefur greinilega verið metinn réttu megin í pólitíkinni að mati Matta því sonurinn var þá ekki kominn með aldur til að kjósa. Við fylgdumst síðan Bigga meðan hann gerði auglýsinguna.
"Þetta verður alls staðar bannað" sagði ég þegar útlínurnar myndarinnar tóku að skýrast á blaðinu.
"Sjáum til" sagði hann og kláraði myndina og textann á ótrúlega stuttum tíma. Síðan var beðið eftir að einhver leysti Matta af og þá var farið inn með auglýsinguna inn og hún hengd upp. Mótmæli afleysingamannsinns voru kæfð í fæðingu.
"Matti var búinn að lofa okkur þessu og sagði að þetta væri í góðu lagi."
Auglýsingin var gerð á breiðan renning af umbúðapappír og var vel á annan metir á hæðina svo varð hreinlega dimmt inni í sjoppunni, en af einhverjum ástæðum lét Matti þetta yfir sig ganga. Hann vissi auðvitað að menn áttu að standa við loforð sín, en fannst eflaust að hann hafi verið plataður svona pínulítið. Myndin á auglýsingunni var af bakhluta einhvers sem var með allt niður um sig og stutt skilaboð voru dreifð út um allt. Textinn var: "Hver er þetta? Komið á ballið og fræðist". Síðan var minnt á dagsetninguna sexta maí og að sjálfsögðu var minnt á sætaferðirnar.
Það var svo Jóhannes lögga en ekki Matti sem bað okkur að taka auglýsinguna niður því hann taldi að hún gæti hugsanlega legið vitlausu megin við þá hárfínu línu sem skilur að velsæmi og siðferðisskort. Biggi varð við beiðni yfirvaldsins og tók auglýsinguna niður en setti aðra minni í staðin. Tilgangnum var náð því hún hafði þá þegar vakið talsverða athygli í bænum og það voru hvort sem er flestir búnir að sjá hana, og nú gat sólin farið að skína aftur inn í sjoppuna til Matta.