12.07.2010 18:58

Meira jójó



637. Í seinni tíð, ýmist á norður eða suðurleið er oftar en ekki staldrað við á Flugumýri, heilsað upp á kýrnar í fjósinu og mannfólkið inni í bænum. Þegar ég var þar á ferðinni á dögunum lagði ég vinnubílnum "Bláusi" fyrir aftan dráttarvélina sem renndi í hlað rétt á undan mér. Ég rölti til bæjar en leit um öxl um það leyti sem ég kom í hús og sá þá ekki betur en þarna á hlaðinu gæti að líta "drög að myndefni". Eins og sjá má er sá stutti svolítið siginn að aftan, en það er vegna þess að hann fékk það hlutverk að þessu sinni að flytja búslóð (að vísu af minni gerðinni) á milli landshluta. Sætin fyrir bílstjóra og farþega voru færð fram, aftursæti lögð niður og síðan var staflað og raðað af eins mikilli útsjónarsemi og menn áttu til, þar til ekki var lengur pláss fyrir svo mikið sem haldapoka.




Það var óvenju gestkvæmt
meðan ég staldraði síðast við á Sigló sem var ekkert nema skemmtilegt. Einn af þeim sem áttu leið um og heiðraði mig með nærveru sinni var Ásgeir bakari, en hann hafði með sér amerískan og þýskan hveitibjór sem eru talsvert ólíkir flestu öðru sem ég hef kynnst í þeim efnum. Hann hefur verið á mjög sérstöku námskeiði undanfarið sem hann sagði mér frá um leið og við smjöttuðum á innihaldi glerílátanna. Þegar hann minntist á "bjórnámskeið" datt mér fyrst í hug að það væri auðvitað yfirskin til að komast frá uppvaskinu og bleyjuskiptunum heima fyrir eitt kvöld í viku eða svo, en því var ekki þannig farið. Námskeiðið var á fræðilega sviðinu, farið var yfir sögu bjórsins og þróun síðustu árhundruðin, uppbyggingu, framleiðsluaðferðir og mismunandi efnasamsetningu, mismunandi neyslumynstur og markaðssetningu og svo mætti lengi telja. - Í ALVÖRU.

 

E.S. Hver er annars munurinn á ölgeri opg pressugeri?



Eitt af því sem pirrar mig mjög mikið í umferðinni á þjóðvegunum, svo og eflaust marga fleiri, er algjörlega tilgangslaus og stórhættulegur framúrakstur ökumanna sem eru annað hvort yfir sig stressaðir eða einhverjir heilalausir gerfitöffarar.

Það var einmitt ein slík uppákoma sem gerði mig fúlann (ég verð það víst stundum) á leiðinni niður Norðurárdalinn rétt fyrir ofan Bifröst. Umferðin var nokkuð þétt og ég var aftastur í langri lest sem liðaðist í suðurátt á 80 km. hraða. Umferð var líka nokkur á móti og það var nú einmitt meinið í þetta skiptið. Ég sá í baksýnisspeglinum hvar silfurlitaður jeppi nálgaðist hratt og það skipti engum togum að þegar hann var kominn fast að mér, skellti hann sér fram úr í sama mund og annar bill var rétt um það bil að mæta okkur. Mér dauðbrá því á þessu átti ég ekki von og mín ósjálfráðu viðbrögð voru að nauðhemla. Það var líklega eins gott því að hægra afturbretti jeppans var ekkert mjög marga sentimetra frá vinstra framstuðarahorni mínu þegar hann snöggsveigði fyrir mig og inn á réttan vegarhelming. Honum hefur líklega eitthvað verið brugðið sjálfum því talsverð stund leið áður en hann ók fram úr næsta bíl, og síðan þar næsta, eftir það þar, þar næsta o.s.frv. Ég hugsaði honum þegjandi þörfina og bölvaði í hljóði, en staðan bauð ekki upp á aðrar aðgerðir en skot í gegn um linsuop.



Síðustu Siglufjarðarlotu
lauk annars s.l. föstudag, menn því komnir suður fyrir fjöll og heilmikið búið að vera að gerast um helgina. Ber þar hæst að ég eignaðist nafna, því sveinbarni Svandísar M. E. Leósdóttur og Jóhanns Waage var gefið nafn að sið ásatrúarmanna. Sá kornungi maður fæddist þ. 3. júní s.l. og heitir Ólafur Leó Waage.



 

Og þar sem eitt og annað smálegt liggur fyrir hér syðra sem þarf að sinna næstu daga, þykir ekki vera inni í myndinni að aka norður fyrr en eftir komandi helgi, því það stendur til að "skralla" á Catalinu 16. og 17. júlí n.k. Eftir helgina verður svo brunað norður og dvalið þar eitthvað fram í ágúst við endurbætur á húsinu uppi á Hafnarhæðinni.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 5
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317312
Samtals gestir: 34701
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 00:49:43
clockhere

Tenglar

Eldra efni