26.09.2010 03:50

Sigló ág-sept.



650. Í síðustu Siglufjarðarferð sem spannaði heilan mánuð, átti ég margar ferðirnar niður á gámasvæðið. Ofan á pressunni sá ég þetta gamla "kennslutæki" sem ég mundi vel eftir úr skólanum fyrir rúmum 40 árum. Ég hef grun um að þá hafði það jafnvel verið búið að vera lengi notað sem kennslugagn í heilsufræðitímum. Tilfinningin var líkust því að hitta gamlan félaga á förnum vegi, - eða eitthvað til að gleðjast yfir. Ég sló samt ekki á bak honum og spurði tíðinda...



Á bryggjurúntinum dag einn í góða veðrinu beindist athygli mín að því sem þarna var að gerast hvað sem það annars nú var. Ég hugsði með mér að það sé nú alltaf skemmtilegt að vera hæfilega hátt uppi. Í framhaldinu datt mér líka í hug gamli aulabrandarinn: "Hvað þarf marga til að skipta um peru..."



Þetta myndarlega hús hýsir starfsemi Siglufjarðar Seigs.



Þar er kannski kominn tími á seinni slátt.



Það hafði verið ætlunin að ganga á Siglunesmúla fyrir veturinn, en svo heitir fjallið frá Kálfsdal og fram á Nesnúp. Mér er ekki grunlaust um að þangað fari frekar fáir sem gerir leiðina bara forvitnilegri ef eitthvað er.



En af heilsufarsástæðum varð ég að láta mér nægja að fara góðan rúnt í Skógræktinni. Það hefur aldeilis tognað úr þessum trjám. Þegar ég var að gróðursetja þau í unglingavinnuni forðum hjá Jóhanni Þorvalds, náðu allra hæstu hríslurnar mér upp í mitti og hef ég þó hækkað nokkuð síðan.



Þetta er alveg hrikalega flott og þetta er sko engin "feik" mynd. Ef einhverjum sem ekki þekkir til skyldi detta í hug að fossinn væri eitthvað seytl milli steina, þá er það ekki svo því hann er upp á nokkrar mannhæðir. Trén eru bara orðin  svona stór og svo má það líka fylgja að skógræktin í Skarðdal er nyrsti skógur á Íslandi. Það er líka nokkuð merkilegt.



Þessar tröppur eru vægast sagt mjög vinsælar til "ísetu" og gildir þá einu hvort er um hábjartan sumardag eða dimma vetrarnótt. Hér má sjá svolítinn þverskurð af þeim sem aðstöðuna nota...



Ég sá mælinn á Sparisjóðnum fara upp í 23 stig og frétti að hann hefði farið upp í 25 síðar sama dag. Þá mældust 27 stig inni í Skarðdal.  Ekki slæmt að fá svona sumarauka þegar komið er fram í september.



Það er nú samt alveg greinilegt að haustið er ekki mjög langt undan því Hólshyrnan er farin að máta trefilinn.



Þessar voru á rölti í vegkantinum á ströndinni þessa síðustu sumardaga og það var engu líkara en að þær fyndu það líka á sér að haustið nálgaðist. Ef ég væri í þeirra sporum myndi ég forða mér sem lengst í burtu því haustinu fylgir nebblega sláturtíðin, en líklega hefur enginn sagt þeim af því



Náði þessu skondna skoti þar sem myndavélin er yfirleitt nokkurn vegin við hendina...
Það er ekki hægt að segja annað en að manni sé tekið opnum örmum þegar maður á leið í S.R. Byggingavörur á Siglufirði af "fyrrverandi" Akureyringi sem er óðum að breytast í alveg gegnheilan Siglfirðing.

Og nú fer að styttast í næstu Siglufjarðarferð...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 137
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495514
Samtals gestir: 54629
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 11:47:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni