30.04.2011 13:56

Tónleikarnir í Bátahúsinu


Ljósmynd Steingrímur Kristinsson.

704. Það er líklega alveg hægt að kalla tónleikana á föstudeginum langa í Bátahúsinu á Sigló upplifun, a.m.k. fyrir okkur sem stóðum á þilfari Týs SK-33 fyrir framan sneisafulla bryggju af fólki. Að lokinni forsölu í Sigló-sport vikuna á undan, voru aðeins 9 miðar óseldir á Vana menn og Þuríði Sigurðardóttur. Þeir dugði skammt fyrir talsverðan hóp prúðbúinna manna og kvenna sem reiknuðu fastlega með að geta keypt miða við innganginn eins og tíðkast hefur. Það dóu þó ekki allir ráðalausir, heldur settu sig í samband við Félagsheimilið Tjarnarborg þar sem Leikfélag Ólafsfjarðar var að sýna stykkið  "Leika, alltaf leika" í leikstjórn Guðmundar Ólafssonar, einnig kl. 20.00 þetta sama kvöld. Sýningunni var seinkað um korter svo að þeir sem ekki komust á tónleikana í Bátahúsi náðu tímanlega í Tjarnarborg.

Þegar ég leit við hjá Sýslumanni fyrir nokkrum vikum til að forvitnast um hvort það væri einhverjum vandkvæðum bundið að fá samkomuleyfi þennan dag, fékkst svarið ekki samdægurs. En þegar það kom var mér bent á þrú atriði sem væru ófrávíkjanleg. Það má ekki spila bingó, ekki dansa og ekki veita áfengi á föstudaginn langa. Ég hafði því samband við Aðalbakarann í bænum sem tók að sér að sjá um veitingar í hléi. Eitthvað mun þó hafa verið um að gestir hefðu með sér hæfilega blautlegt nesti svo lítið bæri á, en ég held að hafi aðeins verið af hinu góða og aukið á gleðina.

Það er ekki einfalt mál að ætla sér að reyna að lýsa hinu magnaða umhverfi í Bátahúsinu og sérstöðu þess sem tónleikahúss. Þeir sem reynt hafa, vita og skilja vel hvað átt er við. Þeir sem eiga það enn eftir verða einfaldlega að upplifa það á eigin skinni, því það er tilgangslítið að reyna að lýsa því sem er ólýsanlegt. Þeir sem vita hvað Síldarævintýrið á síðustu öld stóð fyrir, hafa líklega mestan og bestan skilninginn, en verða jafnframt fyrir þessum þægilegu og svolítið hrollkenndu umhverfisáhrifum þarna inni. Allt það sem fyrir augu ber og hin yfirþyrmandi nálægð við liðna tíma, kallar fram nostalgíugæsahúðina sem læsist mjúklega utan um hryggjarsúluna og veldur einhverju sem líkist kitlandi en þó ákaflega notalegum náladofa.

Myndir frá tónleikunum og fleira þeim tengdum, er að finna á "Myndaalbúm" í möppu merktri "Tónleikar í Bátahúsi" en þær eru teknar af Steingrími Kristinssyni nema annað sé tekið fram

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 248
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 164
Gestir í gær: 31
Samtals flettingar: 317555
Samtals gestir: 34765
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 17:50:49
clockhere

Tenglar

Eldra efni