06.05.2011 13:55
Metingur og hrepparígur
706. Ég hitti hann Sigga Björns á dögunum, en ég hef þekkt hann síðan síðan á videóárum mínum á Siglufirði. Þá rak hann ásamt Siglfirðingnum Ara Eðvalds, videóleigu í Ólafsfirði og ég átti talsverð samskipti við þá félaga. Ég hef ekki rekist á Sigga í a.m.k. áratug, svo við settumst niður á tröppurnar fyrir framan Bakaríið og tókum spjall saman. Það fór ekkert á milli mála að þarna var mættur alveg sami "Sigginn" og ég man svo vel eftir, a.m.k. þegar hann fór að tjá sig um menn og málefni og viðra skoðanir sínar á öllu mögulegu og ómögulegu. Svo það komist til skila við hvað ég á, er ekki hægt að stilla sig og birta örstutt brot úr spjallinu.
"Býrðu einn núna?" Mig grunaði einhvern veginn að svo væri.
"Já, það tollir engin kjelling hjá mér." Það hnussaði í honum.
"Og af hverju skyldi það vera?" Ég átti auðvitað ekkert með að spyrja að því.
"Ég skil ekkert í því." Hann glotti út í annað og það var eins og hann væri að gera grín að mér fyrir að þykjast ekki vita það. En hann hafði greinilega ekkert of mikinn áhuga á að ræða sína einkahagi svo hann skipti um umræðuefni.
"Rosalega er mikið af gömlum ónýtum kofum hérna á Siglufirði." Ég hváði og sá nú í hvaða gír minn maður var kominn.
"Er eitthvað minna af þeim á Ólafsfirði." Ég taldi mig nú vita allt um það verandi nýkominn þaðan, þar sem ég hafði einmitt séð fullt af feysknum "byggingum" sem mörgum hverjum var ekkert allt of vel við haldið og tók meira að segja myndir af sumum þeirra.
"Því er nú ekki saman að jafna. Það þarf að fara að taka til hendinni hérna og rífa eitthvað af þessi braki sem er hérna út um allt." Ég minntist þá á skúrana sem ég hafði séð á Ólafsfirði og spurði hvort hann hefði ekki tekið eftir þeim.
"Þú meinar þá, ég veit ekki betur en það séu Siglfirðingar búsettir á Ólafsfirði sem eiga þá." Það hnussaði aftur í Sigga og hann hélt áfram í sama dúrnum.
"Hver er svo að steypa sökkul hérna neðar í götunni fyrir einn smákofann enn"? Þarna átti hann geinilega við framtak Örlygs neðan við Sæluhúsið.
"Ég get alveg lofað þér því að þar mun rísa einn flottasti kofi sem um getur." Ég hélt ró minni og vel það, þrátt fyrir að Siggi reyndi greinilega að ýta svolítið við mér og hann gerði eina tilraun enn.
"Rosalegt er að sjá hvað það er miklu meiri snjór hérna í fjöllunum en í Ólafsfirði. Þetta lítur ekki vel út hjá ykkur." Nú gat ég ekki annað en skellt upp úr, en Sigga var ekki hlátur í hug. Ég áttu auðvitað að bregðast allt öðru vísi við athugasemdum hans. Og ég hefði líklega líka gert það ef ég hefði ekki kannast við kauða.
Ég get auðvitað ekki setið á mér og fannst ég þurfa að láta nokkrar myndir fylgja sem ég tók á Ólafsfirði á dögunum.
Siggi er annars ágætur, bara svolítið stríðinn eða þannig...