03.06.2011 20:04

Þeir fiska sem róa


718. Í gær uppstigningardag tók talsverður slæðingur ferðafólks daginn snemma hérna á Sigló, og skömmu fyrir hádegi var komin rúta á stæðið fyrir framan Síldarminjasafnið sem opnaði kl. 10 f.h. Ég heyrði nokkrum sinnum tekið í hurðina á Aðalbakaríinu undir opnum stofuglugganum hjá mér, en þar var allt í lás og ég sá að sama gilti um Samkaup. Svolítið bæjarrölt varð til þess að ég komst að því að eini veitingastaðurinn sem var opinn í hádeginu og einhvern matarbita var að fá, var Allinn. Jú og auðvitað bensínstöðin sem opnaði eldsnemma, en þar var setið við hvert borð yfir hamborgurum með frönskum. Eigum við kannski að telja bensínstöðina með veitingastöðum staðarins? Er kannski alveg nóg að hafa bara Allann og bensínstöðina, - eða hvað? Nei, líklega finnst okkur það ekki eftir að hafa reynt og upplifað annað, þó báðir þessir staðir séu vissulega ágætir til sins brúks. En það rættist reyndar eitthvað úr þegar leið fram á dag, því Samkaup opnaði á slaginu 13.oo og Torgið á svipuðum tíma, en þá er reyndar hinum hefðbundna matartíma lokið. Annað er líka það sem er ekki í nægilega góðu lagi. Mikið vantar upp á að upplýsingar um opnunartíma séu nægjanlega vel sýnilegar eða þær sjást jafnvel alls ekki. Á einum af áður nefndu stöðunum hékk þó myndarleg auglýsing úti í glugga um opnunartíma skíðasvæðisins í Skarðsdal. - Ekki seinna vænna.

Nokkuð bar á því síðast liðið sumar en einnig um páskana í ár, að ferðafólk kæmi að lokuðum dyrum veitingastaða. En væru þeir opnir, mátti allt eins búast við að þeir sem á undan komu væru búnir að tæma búrið svo rækilega að sáralítið ef þá nokkuð matarkyns væri eftir. Vonandi verða þannig uppákomur þjónustuaðilunum svo góð kennslustund í "hagnýtum fræðum" um alla framtíð, að þær endurtaka sig ekki. Hér getur ferðamannaiðnaðurinn allt eins orðið að hinu nýja "síldarævintýri" ef rétt er á haldið. En sá bransi er viðkvæmur ekkert síður en síldarfarmur var á leið af fjarlægum miðum, í steikjandi sól og án nokkurrar kælingar hér í eina tíð. Spegúlant nútímans þarf því að vera á varðbergi ekkert síður en sá sem tilheyrði hinum liðnu tímum sem enn er þó verið að höndla með.

Júnímánuður er byrjaður, ferðasumarið er hafið og sumarið 2011 gæti hæglega orðið það langbesta og glæsilegasta til þessa. Einhvern tíma var sagt að ekkert þýddi annað en að vaka eins og eina vertíð ef þörf krefði, því nægur tími yrði til þess að sofa þegar maður væri dauður. En burtséð frá því, þá fiska þeir sem róa en hinir ekki.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 7
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306313
Samtals gestir: 33236
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 00:32:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni