04.10.2011 06:53

Bubbi á Sigló


756. Bubbi Mortens sótti Siglufjörð heim á dögunum og skrifar ákaflega fallega um heimsóknina á pressan.is, enda er engin ástæða til annars. Bærinn er eins og þeir vita sem til þekkja gullfallegur og Bubbi fékk ágætar móttökur.

Hann skrifar: "Mikið var ég glaður þegar ég gekk inn í salinn og sá að það var húsfyllir."

Að sjálfsögðu var hann glaður, húsfyllir þýðir nefnilega fullt af peningum. Hvaða kapítalisti yrði yrði ekki kátur með slíkt?
Hann talar um að það hafi verið öskrandi rigning og rok, en svo bætir hann við: ".ég er ekki frá því að bærinn hafi fríkkað". 

Vá maður, hver sér það ekki og það jafnvel í hvaða veðri sem er?

En kannski man hann ekkert sérstaklega vel hvernig bærinn leit út þegar hann kom síðast.

Mín fyrstu og einu kynni af Bubba komu til haustið 1981, þegar hann ásamt nýstofnaðri hljómsveit sinni Utangarðsmönnum spilaði á Höfninni. Ég var einn af þeim sárafáu sem mættu á ballið og fannst bandið sem slíkt býsna athyglisvert og fílaði það vel. En mér var hins vegar ekki boðið í eftirpartýið, líklega af því að ég var strákur.

Á þessum tíma var ég að feta mín allra fyrstu spor í vídeóbransanum. En þá var myndefnið hlutfallslega mun dýrara í innkaupum en síðar varð og titlafjöldinn ekki orðinn upp á nema u.þ.b. 60 spólur. Snemma kvölds fyrir ballið var bankað upp á hjá mér og fyrir utan stóðu fjórir piltar sem spurðu hvort ég gæti ekki leigt þeim nokkrar myndir. Jú, það var auðvitað auðsótt og eftir svolitlar vangaveltur höfðu þeir valið sér fjórar myndir. Ég spurði þá þann sem virtist fara fyrir hópnum hvaða nafn ég ætti að skrifa fyrir leigunni. Hann kunni því greinilega ekki vel að ég skyldi ekki vera með það á hreinu og svaraði stuttaralega að það væri Bubbi Mortens. Daginn eftir var myndunum ekki skilað og ekki heldur daginn þar á eftir. Ég hafði þá samband við hótelið og spurðist fyrir um hvort eitthvað hefði hugsanlega verið skilið eftir sem tilheyrði mér, en ekkert slíkt fannst þrátt fyrir talsverða leit. Þeim á hótelinu þótti þetta miður og flettu upp á símanúmeri leigjandans í bókinni þar sem pantanirnar voru skráðar ásamt tilheyrandi upplýsingum. Næstu dagana á eftir var reynt að ná í pilt og það hafðist á endanum. Jú hann kannaðist vel við að hafa leigt einhverjar myndir þarna og hann hefði farið með þær suður. Þegar spurt var um hvenær og hvernig hann ætlaði að skila þeim auk þess að greiða eitthvað yrir aukadagana, varð fátt um svör. Hann upplýsti í staðinn að hann væri í ágætu sambandi við Steinar Berg og hefði lofað honum að líta eftir ólöglegu myndefni þar sem hann ætti leið um. Honum var þá bent á að myndirnar sem hann hefði undir höndum hefðu ekkert með umboð Steinars Berg að gera, en hann kvaðst svo sem ekkert vita um það og lauk símtalinu einhliða. Áfram var hringt næstu daga og vikur, og þó árangurinn yrði enginn var ljóst að hann var fljótlega búinn að fá meira en hundleið á nöldrinu. Það var svo eitt sinn þegar mín fyrrverandi átti leið suður, að hún heimsótti hann á tónleika á Hótel Borg og rukkaði sjálfan trúbadorinn um myndirnar. Þar gafst hann upp á "frekjunni" í þessu norðanfólki og afhenti góssið.


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480895
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:17:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni