07.12.2011 01:27

Aage Schiöt fertugur

                                                            

778. Allar götur síðan ég eignaðist húsið að Aðalgötu 28, hef ég gjarnan lagt við eyru þegar ég hef heyrt eitthvað af eða um manninn sem byggði það. En það var Aage Schiöth lyfsali sem fæddist á Akureyri, en fluttist til Siglufjarðar að námi loknu þar sem hann opnaði lyfjaverslun árið 1928. Fyrstu tvö árin bjó hann í bárujárnsklæddu timburhúsi við Aðalgötu þar sem Hótel Hvanneyri stendur nú, en það brann einhverjum árum eftir að hann flutti þaðan. Apótekið opnaði hann í timburhúsi að Aðalgötu 28, en ári síðar var það flutt innar á lóðina og stórt steinhús byggt á sama stað við götuna. Í gamla húsinu rak hann síðar Efnagerð Siglufjarðar, en Apótekið í því nýja næstu þrjá áratugina. Síðar var byggður skúr á milli húsanna sem tengdi þau saman og þannig var húsakosturinn þegar ég keypti eignina árið 1981, alls 560 fermtrar. Ég rakst á greinina um fertugsafmælið á netflakki á dögunum og datt þá í hug að gúggla svolítið meira um manninn, sem svo sannarlega setti sterkan svip á síldarbæinn allan þann tíma sem hann lifði og starfaði þar.


MORGUNBLAÐIÐ. 26.06.1942.

"Í dag er einn af mestu dugnaðar og athafnamönnum Siglufjarðar fertugur. Það, er Aage Schiöth lyfsali. Það eru nú 14 ár síðan hann fluttist til Siglufjarðar og stofnsetti þar Lyfjabúð Siglufjarðar. Hefir lyfjabúðin eflst og dafnað, og er nú orðin eitt af stærstu þess kyns fyrirtækjum landsins, utan höfuðstaðarins. Schiöth er áhuga mikill fylgismaður Sjálfstæðisflokksins, og hefir jafnan staðið í fremstu röð í baráttu flokksmannasinna norður þar. Hann hefir setið 6 ár í bæjarstjórn Siglufjarðar. Fyrir nokkrum árum stofnsetti Schiöth Efnagerð Siglufjarðar h.f. og hefir það fyrirtæki blómgast vel undir stjórn hans. Hann hefir einnig rekið útgerð í nokkur ár. Þá var hann einn af aðalforgöngumönnunum að stofnun hraðfrystihússins Hrímnis h.f., sem er stór og myndarlegt fyrirtæki og vafalaust á eftir að bæta mjög atvinnu skilyrði Siglfirðinga, bæði til sjós og lands. Schiöth er ágætur áhuga maður um hvers kyns íþróttir, og landskunnursöngvari er hann Þess væri óskandi að Siglufjörður mætti sem lengst að njóta starfskrafta hans og athafnaáhuga.

S. Bj."

 

Það er greinilegt að Schiöth hefur byrjað kornungur að syngja eins og fram kemur í blaðinu ÍSLENDINGUR þ. 16.04.1920, en þá er hann aðeins 18 ára að aldri.

"Þriðjudaginn 6. Apríl var haldin kvöldskemtun í leikfimishúsi Gagnfræðaskölans til ágóða fyrir sjúkrasjóð skólans. Þar kom fram á sjónarsviðið stud. art. Aage Schiöth og söng solo "Hvorfor svulmer Weichselfloden som et Heltebryst" og nokkur fleiri lög, öll af frábærri list. Systir hans ungfrú Oda Schiöth aðstoðaði bróður sinn með því að spila snildarlega undir á píanó. Hefir Aage Schiöth af Drottni þegið einhverja þá dásamlegustu gáfu, sem nokkrum dauðlegum manni má hlotnast sem sje töfrandi fagra söngrödd og má óhætt spá honum frægðar og frama í sönglistinni ef honum endist aldur til, lærist honum æ betur og betur að beita sínum undurfögru hljóðum. Eins og nærri má geta urðu áheyrendunir stórhrifnir og vottuðu söngmanninum margsinnis aðdáun sína með dynjandi lófaklappi, og var hann kallaður fram hvað eftir annað."

 

Í sama blaði er að finna stutta tilkynningu þ. 21.11.1924.

"Þann 5. nóv. voru gefin saman í hjónaband í Kaupmannahöfn ungfrú Gudrun Juulsöe og Aage Schiöth stud. pharm. héðan úr bænum."

 

Blaðið HÆNIR á Akureyri 22.11.1924.

"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöth bakara á Akureyri, söng hér kvöldið 17. þ. m. Um söng hans er það skjótast aö segja, að rödd hans er látlaus og allmikil, og virðist hann hafa óvenjulega mikiö vald yfir tónunum og voga sér þó nokkuð hátt. Hann hefir notið kenslu hjá söngkennara í Höfn í 3 ár, en hefir annars samtímisstundað nám í lyfjafræði og lokið nýlega prófi í henni,"

 

Í blaðinu "FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR" sem gefið var út á Siglufirði um skeið birtust eftirfarandi línur þ. 14.05.1927 

"Aage Schiöth, sonur Axels Schiöths bakarameistara, hefur nýlega lokið fullnaðarprófi í lyfjafræði með ágætri einkun. Prófið tók hann í Hamborg."

 

Það vakti athygli mina að að HÆNIR á Akureyri segir Schiöth hafa lokið prófi í lyfjafræði í Höfn árið 1924, en FRÉTTIR OG AUGLÝSINGAR að hann hafi tekið fullnaðarpróf í Hamborg 1927 eða þremur árum síðar.

VÖRÐUR segir frá fjölgun lyfjaverslana þ. 28.04.1928.

"Lyfjaverslunum fjölgar.

Heyrst hefur, að stofnaðar verði þrjár lyfjaverslanir hjer á landi í sumar. Á að reisa tvær hjer í Reykjavík. Á aðra Jóhanna Magnúsdóttir, en hina Mogensen, forstjóri vínverslunarinnar. Sú þriðja kvað eiga að koma á Siglufirði, og er eigandi hennar Aage Schiöth frá Akureyri."


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477337
Samtals gestir: 52746
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 06:00:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni