30.12.2011 14:38

Snjór



789. Snjór, snjór, snjór. Það er ekki laust við að það sé eins og að vera kominn á heimaslóðir þegar litið er út um gluggann þar sem sjá má snjómoksturstækin, ruðningana, fjúkið, og spólandi, vanbúna bílana pikkfasta í sköflunum. Úti er alvöru vetur og manni líður ágætlega í eigin skinni, inni í hlýjunni og "réttu megin" við glerið. Samt er eitthvað sem togar í og léttur fiðringur seytlar niður fæturna, niður í iljar og þaðan alla leið fram í stórutær. 




Það væri líka svolítið gaman að fara í þykka úlpu og auðvitað ullarpeysu, ullarhúfu, ullarsokka og ullarvettlinga (helst þessa sem eru með tveim þumlum) og bregða sér aðeins út fyrir. Endurlifa löngu liðnar stundir, þegar snjórinn kom fyrr, varð meiri og ófærðin var viðvarandi um lengri tíma. Ærslast, byggja snjóhús, gera engla og fara í snjókast. En að fara út núna jafnast auðvitað á við fasta áskift að líkamlegum átökum svo sem að ýta bílum á sumardekkjum sem standa hálfir úr heimkeyrslum og botnlöngum út á þær götur sem þegar hafa verið mokaðar. Flest þessarra ökutækja eiga hins vegar sáralítið erindi út í umferðina og ættu auðvitað að vera áfram í stæðunum, inni í bílskúrum eða undir vegg.




Siglfirðingurinn Steini Birgis stendur í ströngu jafnt nætur og daga meðan tíðin er eins og hún er, og honum bregður sennilega minna við en suðvesturhyrningum (eða á ég að segja suðvesturhornsbúum), því víst er að hann hefur séð snjó áður og það í talsverðum mæli. Það hefur hins vegar eflaust verið átak fyrir hann að láta af galgopaskapnum í svolitla stund rétt á meðan hann ræddi við fréttamann í gær, en það verður að segjast að þessi ágæti drengur tekur sig ágætlega út í mynd þrátt fyrir að vera að byrja að skríða á sjötugsaldurinn og verður að teljast bara nokkuð sjónvarpsvænn.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að Þorsteinn Birgisson rekstrartæknifræðingur sé tæknilegur rekstrarstjóri þjónustumiðstöðvarinnar á Stórhöfða sem sinni umferðarmerkingum, umferðarljósum, snjóruðningi, hálkueyðingu og fleiri þáttum.




Ég átti leið í Bónus á Völlunum í gær sem telst ekkert sérlega fréttnæmt svona eitt og sér. Fyrir nokkrum mánuðum þegar ég var staddur á sama stað í sams konar erindagjörðum, vakti það athygli mina hve margi stórir og glæsilegir jeppar voru þar á stæðinu. Einhvern vegin flaug mér í hug að eðlilegast væri að fyrir framan þessa lágvöruverðsverslun væru aðallega ódýrir kreppubílar, aðeins betri bílar fyrir framan Fjarðarkaup, enn flottari bílar úti fyrir Hagkaupum o.s.frv. En svo getur auðvitað annar flötur verið til á sama máli. Þeir sem reistu sér hurðarás um öxl fyrir kreppu, gætu verið að sligast undan lánunum á óseljanlegum og yfirveðsettum bílum "sínum" og þess vegna haft lítið sem ekkert handa á milli til að brauðfæða sig og sína.

En ég átti sem sagt leið í Bónus á Völlunum í gær og segja má að jeppa og afkomukenningin hafi þá verið rækilega toppuð. Því inn á stæðið rennir glæsilegur Hummer sem er lagt nærri dyrunum og leifði engu að heilum tveimur stæðum undir glæsivagninn. Ég fylgdist með lávaxinni konu á miðjum aldri feta sig gætilega til jarðar og taka síðan stefnuna í átt að umræddri verslun. Ég þreifaði eftir myndavélinni en mundi þá að hún var heima í hleðslu. Æ, æ, þetta hefði getað orðið mynd mánaðarins.

En það er auðvitað ekkert að því að versla þar sem verðið er hagstætt sama hver á í hlut, en samt fannst mér eitthvað bogið við þetta. Veit bara ekki alveg hvað.



Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 332
Gestir í dag: 82
Flettingar í gær: 317
Gestir í gær: 82
Samtals flettingar: 317956
Samtals gestir: 34862
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:53:17
clockhere

Tenglar

Eldra efni