01.01.2012 18:06

Gleðilegt nýtt ár



790. Aftur og enn er komið nýtt ár, tíminn flýgur hraðar með hverju árinu sem líður og mér finnst hann stundum hendast áfram í þvílíkum lotköstum að ég er mest hræddur um að hann skilji mig eftir einhvers staðar á leiðinni inn í framtíðina. Kannski væri það ekki svo bölvað að hægja aðeins á þróuninni eða þannig. Alla vega verð ég yfirleitt ekki svo ýkja frábitinn hugmyndinni í þau fáu skipti sem ég á leið fram hjá spegli og vík frá þeirri meginreglu sem er að líta undan við slíkar aðstæður. En ég ætlaði ekki að fara allt of mörgum orðum um sjálfan mig á nýju ári, því margt merkilega mun eflaust eiga eftir að fanga athygli okkar þegar fram líða stundir og það er jú framtíðin sem við leiðum flest hugann að um áramót. Við munum til dæmis (ef Óli hættir ekki við að hætta sem einhverjir spegúlantar vilja ekki útiloka) kjósa okkur nýjan forseta á árinu. Auðvitað er strax farið að velta fyrir sér vænlegum kandídötum og er þegar kominn dágóður nafnalisti. Þórólfur Árnason, Jón Baldvin Hannibalsson, Salvör Nordal, Þorvaldur Gylfason, Ragna Árnadóttir, Kristín Ingólfsdóttir, Berglind Ásgeirsdóttir, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Páll Óskar, Þorsteinn Pálsson, Stefán Haukur Jóhannesson, Mugison og stjórnmálaspúttnikinn Jón Gnarr. Þá hefur Ástþór Magnússon gefið í skyn að hann hyggist styðja einhvern verðugan skoðanabróðir sinn, haft var eftir stuðningsmanni Hönnu Birnu að gott væri að fá Bjarna Ben á Bessastaði og eitthvað heyrðist um að Björgólfur Guðmundsson væri flottur í djobbið, en það er gömul pæling og slíkar raddir virðast nú með öllu hljóðnaðar.

-

Svo eigum við von á eldgosum bókstaflega út um allt, eða svo segja hinar ýmsustu og vísustu Völvur og draga ekkert úr því. Hekla, Katla, Blöndulón, Krýsuvík, Vatnajökull og einhvers staðar milli lands og Eyja. Sunnlendingar munu þá væntanlega ekki sjá út úr augunum í einhverja mánuði, en þeir eru auðvitað orðnir vanir slíku og kippa sér ekkert upp við svolitla öskuábót. Búfénaður mun líklega allur falla í hvínandi hvelli, heilu sveitirnar hverfa í ösku og hraun og leggjast í auðn næstu þúsund árin eða svo. Ferðamannabúllur munu hins vegar fitna eins og púkinn á fjósbitanum og hamast við að selja túrhestum eldfjallaösku í litlum glösum sem verða merkt hverju eldfjalli fyrir sig. Bömmerinn verður sem sagt ekki alslæmur og eitthvað gott mun af hljótast.

-

Ein af stóru fréttunum frá því milli hátíða er að Ásdís Rán hefur þyngst um heil þrjú kíló um jólin. Auðvitað er þjóðin slegin yfir fréttunum og mun eflaust fylgjast agndofa með þróun mála á næstunni, senda henni hugheilar samúðarkveðjur og óska henni alls hins besta í baráttunni gegn þeim grimmu örlögum sem margt bendir til að bíði hennar. Hún gæti nebblega þurft að þola einelti þar sem hún yrði kölluð Ásdís Rán feitabolla og þyrfti þess utan að fjárfesta í fullt af nýjum fötum í stærri númerum. En hún er sniðug stelpa að upplagi og gæti auðvitað gert auglýsingadíl við verslunina "Stórar stelpur" við Hverfisgötu.

-

En burtséð frá öllu ofanrituðu sem hefði vissulega mátt sleppa frá fyrsta til síðasta stafs, þá skrapp ég á Tjarnarvelli og leit þar aðeins á brennuna hérna í Hafnarfirði, en síðan lagði ég leið mína til Reykjavíkur þar sem ég staldraði ögn við á Tjarnargötunni. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá báðum stöðum, en meira í Myndaalbúmi ef vill.

-

Já og innilegar nýjársóskir

















Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 428
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306734
Samtals gestir: 33259
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:29:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni