17.01.2012 10:20

Saltfárið mikla


793. Salt, NaCl eða natríumklóríð hefur verið óvenju mikið í umræðunni undanfarið. Ekki þó vegna þess að það sé hollt eða hinn mesti skaðvaldur eins og slík umræða hefur oft litast af, heldur vegna þess að menn rugluðust á salti og salti. Vissulega ber að hafa það hugfast að of mikið salt hefur slæm áhrif á heilsuna og skiptir þá engu máli hvort það er vottað eða ekki, en við getum ekki lifað án þess og við skulum ekki gleyma því að lífið kviknaði upphaflega í sjónum sem er eins og við vitum, alveg brimsaltur.

Nei umræðan snýst að mestu leyti um Ölgerðina sem kennd er við víkinginn og skáldið Egil Skallagrímsson. Þar á bæ rugluðust menn lítillega á merkingum og töldu að mekingin "INDUSTRIAL SALT" þýddi að þar væri um að ræða salt sem ætlað væri til iðnaðar sem er alveg hárrétt, þar á meðal matvælaiðnaðar sem er hins vegar umdeilanlegra. En svo var víst ekki raunin og þessi smávægilega þýðingarvilla er að koma Egilsmönnum all hressilega í koll þessa dagana. Reyndar hafa þeir afhent u.þ.b. 90 kaupendum sínum saltið í upprunalegum umbúðum og maður gæti því ætlað að einhver úr þeim hópi væri það vel að sér í engilsaxneskri tungu að einhvern tíma sl. 13 ár hefði einhver gáfumaðurinn áttað sig á mistökunum, en það gerðist ekki sem verður að teljast í meira lagi undarlegt.

Framleiðandinn AkzoNobel segir muninn á iðnaðarsaltinu og matvælasaltinu vera í meginatriðum að annað er vottað en ekki hitt. Annað er síað en ekki hitt. Annað er stundum geymt úti en hitt á alltaf að geymast innan dyra hvort sem þeð er þannig í raun eða ekki. Ég hef kannski óeðlilega litlar áhyggjur af málinu, því ég hef miklu meiri áhyggjur af svo mörgu öðru en því hvaða salt hefur farið í grautinn sem ég legg mér til munns. Það hvarflar meira að segja að mér að þeir sem hafa farið hvað mest síðustu dagana, hafi fundið sér fóður og ráð til að ljúka langri og vandræðalegri þögn sem hefur plagað vegna umræðuskorts og gúrkutíðar með tómum hávaða. Ég minnist saltbingjanna við síldarplönin á síldarárunum og hugurinn hvarflar til forfeðra okkar og saltkjötsins sem hélt lífinu í þjóðinni á hörðum vetrum. Hvernig salt ætli hafi verið notað á 17., 18., eða 19. öldinni? En hvert sem svarið við þeirri spurningu er, þá erum við hérna á skerinu og höfum það bara fínt. Eiginlega mun betra en flestir aðrir að undanskildum Noregi, en það er örugglega ekki vegna saltsins.

Það hefur stundum verið all nokkuð skondið að fylgjast með saltumræðunni í netmiðlunum, því hún hefur verið fjölbreytileg svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Mjólkursamsalan baðst afsökunar og innkallaði fimm "eitraða" osta í hvelli. S.S. sagði það þeirra mistök að hafa látið plata sig. Jói Fel var mjög slakur yfir saltfárinu og sagðist ætla að klára að baka upp úr því iðnaðarsalti sem enn væri til og umræðan væri ekkert nema stormur í vatnsglasi. Tommi í Hamborgarabúllunni er sagður vera fullur iðrunar og segist hafa verið blekktur en skaðinn sé skeður. (Ekki kemur fram hvaða skaði). Bubbi Mortens er auðvitað sjálfum sér líkur og lítið fer fyrir hógværð og yfirvegun í orðum hans eins og venjulega, en hann segir í fésbókarfærslu; "Held að ég versli ekki við Ölgerðina í bráð hverskonar skíthælar eru þetta sem stjórna þar. Ölgerðin og flestir þeir sem hafa verslað við þá eru vísvitandi að misnota sér traust okkar hinna og já þetta seigir okkur að eftirlitið er gjörsamlega ekkert". Reyndar kommentaði einhver og taldi að þeir Ölgerðarmenn mættu nú bara vera heppnir að vera lausir við hann.

En eiginlega er mér slétt sama um þetta allt saman, því ég er svo innilega sannfærður um að eitthvað allt annað en umrætt iðnaðarsalt verður mér að fjörtjóni þegar minn tími kemur.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 221
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 740
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 306527
Samtals gestir: 33253
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:33:46
clockhere

Tenglar

Eldra efni