20.05.2012 09:16

Nokkur minningarorð um Dodge Caravan


816. Þar kom að því að sá sem þjónað hefur svo vel og svo lengi, lagði upp í sína hinstu för fyrir fáeinum dögum. Notkun bílsins sem jaðrað hefur við misnotkun á stundum, hefur verið bæði ótrúlega margþætt og mismunandi. Hann hefur jöfnum höndum verið notaður sem fjölskyldubíll, hljómsveitarbíll, vinnubíll og þá ekki svo sjaldan til efnisflutninga og það jafnvel af grófara tagi, svo sem ef flytja hefur þurft jarðefni, múrbrot, byggingarefni og fleira í þeim dúr. Sætum hefur því ýmist verið fækkað eða fjölgað og pláss hefur verið eftir atvikum fyrir allt frá einn og upp í sjö farþega.

Þessi samferðungur minn hefur lengst af verið góður þjónn en var þó orðinn svolítið óheppilegur húsbóndi undir lokin. En þá var hann farinn að þurfa nokkuð mikið til sín og orðinn bilanagjarn úr hófi fram að mínu mati. Slíkt er erfitt að hundsa og það stefndi í að útgerðarkostnaðurinn færi að valda mér verulegum verkjum í veskinu. Dæmi um hver þróunin var í þeim efnum er að finna á http://leor.123.is/blog/2012/03/28/606379/ en áður en þrautagangan varð lengri fékk hann heilaáfall og hefur síðan ekki farið í gang, alveg sama hvað reynt hefur verið að gera. Hann telst því vera heiladauður og mun því sennilega í framhaldinu rata á þann stað þar sem hans líkar glata gjarnan lögun sinni undir mikilli pressu.

Hljómsveitin hefur lokið leik sínum að þessu sinni ef svo mætti að orði komast og yfirgefið sviðið.

Blessuð sé minning hans.




En rétt eins og maður kemur í manns stað, kemur bill í bíls stað. Þar sem ég var ekki viðbúinn þessum óvæntu tímamótum, flýtti ég mér á netið og leitaði upp vænlegan kreppukost, a.m.k. til nánustu framtíðar, því bíllaus get ég illa verið. Ég rakst þar fljótlega á Micru af árgerðinni 2000 sem aðeins var keyrður 140 þús km. Og þar sem ég hef góða reynslu að tegundinni og hún svarar auk þess kröfum mínum um minni orkukostnað á tímum ört hækkandi bensínverðs á afar jákvæðan hátt, var strax farið að vinna í málunum. Það voru ekki liðnir nema tveir tímar eða svo frá því að leit hófst á bilasolur.is þar til nýr eigandi bifreiðarinnar LV 764 ók út af bílasöluplaninu. Kannski getur þetta flokkast undir svolítið fljótræði, en eitthvað segir mér að niðurstaðan hefði orðið sú hin sama þó lengri tíma hefði verið varið til djúpra pælinga og nákvæmrar skoðunnar. 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 641
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 612
Gestir í gær: 128
Samtals flettingar: 306207
Samtals gestir: 33228
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 18:16:28
clockhere

Tenglar

Eldra efni