18.10.2012 10:12
Skarðsmótið 1976
844. Ég rakst á þessi stórskemmtilegu glös fyrir stuttu síðan
þegar mér datt í hug að kíkja inn í hið óborganlega og ómissandi magasín "Góða
Hirðinn". Ég hugsaði mig ekki mjög lengi um og festi kaup á þeim þrátt fyrir að
mig vantaði svo sem ekkert endilega fleiri drykkjarílát. Kaupverðið var 10 kr.
stykkið og þar sem stóð sæmilega á hjá mér akkúrat þá stundina, gat ég nokkuð
auðveldlega greitt það út í hönd í reiðufé. Þegar heim kom datt mér í hug að
fræðast svolítið um þetta tiltekna mót og niðurstöðurnar
Þetta ár áttu Siglfirðingar því miður mun færri menn og konur á verðlaunapalli en fáeinum árum áður þegar "við" bárum hreinlega ægishjálm yfir flesta aðra landsmenn þegar skíðaíþróttir voru annars vegar.
Enginn Siglfirðingur var í neinu af fimm efstu sætunum í stórsvigi karla, en Gústi Stefáns bjargaði því sem bjargað varð í þeirri grein og var í þriðja sæti í sviginu. Gamla kempan Jóhann Vilbergs var í þriðja sæti í alpatvíkeppni karla, en garpurinn Magnús Eiríksson var fyrstur í göngu karla og þar með eru siglfirstu nöfnin upp talin.
Athygli vakti að Steinunn Sæmundsdóttir Reykjavík, Aldís Arnardóttir Akureyri og Kristín Úlfsdóttir Ísafirði voru efstar í stórsvigi kvenna, svigi kvenna og alpatvíkeppni kvenna. Og ekki bara það, heldur var Steinunn alltaf efst, Aldís alltaf önnur og Kristín alltaf í þriðja sæti.