31.10.2012 03:04
Rölt upp í Skollaskál
846. Þann 15. október s.l. var ég staddur norður á Sigló þar sem ég staldraði við í heila tvo daga, en slíktar ferðir eru því miður orðnar allt of fátíðar. Eins og svo oft áður var horft til fjalla, en það verður að segjast eins og er að það hefur verið látið duga undanfarin misseri, því engin afrek hafa verið unnin á því sviðinu í allt of langan tíma. En að þessu sinni var þó búið að taka þá staðföstu ákvörðun að nú skyldi eitthvað gera ef veður yrði með hagfelldara móti. Ekki endilega neitt langt eða hátt, engir toppar gengnir og engin persónuleg met sett, en þó eitthvað meira en bryggju eða bæjarrölt. Það gekk eftir með veðrið og stefnan var tekin upp í Skollaskál, gamalkunnan áfangastað sem alloft hefur verið gengið í og myndavélin var auðvitað upp á vasann eins og vera ber. Það vakti athygli mína að það tók mig heilar 80 mínútur að komst upp á brúnina, en fyrir tæpum þremur árum þegar ég fór þarna síðast tók ferðin upp hlíðina u.þ.b. 50 mínútur. Nokkuð sem segir kannski meira en mig langar mest til að vita.
Hér að neðan eru nokkrar myndir úr skálarferðinni.
Lækurinn sem rennur til sjávar rétt norðan við Ráeyri heitir Naustaá og á upptök sín í skriðunni innst í skálinni.
Hann lítur út fyrir að vera bæði ískaldur og svalandi...
Horft til tindanna tveggja af brúninni. Staðarhólshnjúkurinn sýnist svolítið ávalur og mjúku línurnar eru alls ráðandi frá þessu sjónarhorni sem er nokkuð á annan veg en þegar upp er komið.
Hestskarðshnjúkur og öxlin sunnan skálarinnar en úr henni féll svokölluð Ráeyrarskriða í febrúar 1830, en nokkru sunnan megin við hana er Hestskarðsskálin sem er mun stærri og meiri en flestir halda sem ekki hafa komið þar.
Hér innan við brún skálarinnar getur orðið mjög sumarfallegt
Horft yfir til vesturfjallanna, - Hafnarfjall fyrir miðju, en Illviðrishnjúkur til lengst vinstri.
Það verður ekki annað sagt en að lækurinn við mosagróna bakkana sé tær og svalandi að sjá, þorstlátum göngugörpum eflaust til mikillar gleði...
...enda vel kældur af náttúrunnar hendi.
Ef gengið er innar í Skollaskálina er fljótlega komið í skugga og haustsólin hverfur bak við fjallsöxlina.
Hvanneyrarskálin í klæðum hausts og vetrar gægist upp fyrir brúnina.
Jarðraskið í hlíðinni fyrir ofan bæinn vakti athygli mína.
En þarna er vegurinn alveg að ná upp í Fífladalina. Ég get ekki neitað því að talsverðra efasemda gætir í huga mér varðandi þessa framkvæmd. Er þetta rétta leiðin?
Hefði ekki verið ráð að bæta við einhverju fé og fá túristaveg sem síðar hefði getað orðið góð göngubraut úr Skarðsdal upp fyrir Snók og norður í Leirdali. Vegur sem ekki hefði verið mjög sýnilegur neðan úr bænum og því ekki litið út sem eitthvert ör í fjallið. Þaðan bráðabirgðaveg niður að fyrirhuguðum snjóflóðamannvirkjum sem hefði verið jafnaður út og græddur upp við verklok.
Slíkt hefði verið einstakt í sinni röð og laðað að sér heilu flokkana af útsýnisþyrstum.
Flakið af tunnuflutningaskipinu Skoger hefur farið hratt minnkandi hin síðari ár, en sömu sögu er ekki að segja um einn af steinnökkvunum sem Óskar Halldórsson Íslandsbersi flutti inn seinni hluta fimmta áratugs síðustu aldar.
Og hafið bláa hafið mætir himninum í fjarskanum lengst út við ystu sjónarrönd.
Inni í Skarðsdal er mjög heppilegt upphaf margra skemmtilegra gönguleiða, sérstaklega fyrir þá sem eru í takmörkuði formi og vilja aðeins reyna hæfilega mikið á sig rétt eins og ég þessa dagana. Ofarlega úr dalnum er stikuð leið til norðurs upp á Snók og þaðan áfram eins langt og menn lystir. Norður Hafnarfjall, upp á Hafnarhyrnu, fyrir Hvanneyrarskál, upp á Hvanneyrarhyrnu, yfir Skrámu og alla leið út á Strákafjall. Einnig í hina áttina, fyrir ofan Leyningsbrúnir og áfram til suðurs inn í Selskál, ofan við Geldingahlíð og út á Lágblekkil. Einnig er hægt að aka yfir Siglufjarðarskarð og hálfa læeið niður efstu brekkuna hinum megin. Þaðan er örstutt ganga upp í Afglapaskarð, en úr því er frábært útsýni yfir fjörðinn auk þess sem dúlúð staðarins er hreint yfirþyrmandi.
Og "Illviðrishnjúkurinn" er þarna lengst til hægri, en fjallið milli hans og Siglufjarðarskarðs er líklega einn þriggja fjallstoppa sem sameiginlega eru nefnidir Illviðrishnjúkar.
Illviðrishnjúkur eða Illviðrahnjúkur er annað hæsta fjall við Siglufjörð, örlítið lægra en Almenningshnakki vestan Hólsskarðs. Fyrir ofan Snók er á myndinni Hádegisfjall, en Efrafjall sem lítur út frá þessu sjónarhorni eins og þokkalega stór hóll er hægra megin við það. Einn Illviðrishnjúkanna má svo sjá á bak við það.
Mjög er hann myndarlegur,
og meistaralega gerður.
Svo er það lýginni líkast,
hve lygn og tær fjörðurinn verður.
Í skrautlegu haustlitaskrúði,
þá skammdegið leggst upp að ströndum.
Á sólríkum sumardegi,
sem og í klakaböndum.
Já menn fara hreinlega á flug og detta í einhvern ljóðrænan fíling við að horfa út á fjörðinn í kyrrðinni svona lygnan og bráðmyndarlegan.
Og þessir tveir steinrunnu risar sýnast mér standa vörð um Skollaskál.
Kannski eru þeir ættaðir þaðan?
En Evanger rústirnar eru eilífðarmyndefni.
Og margt býr í þanginu.
Og það hefur greinilega náð að kólna víða, jafnvel hér niður við sjávarmál, utan í bakkanum fyrir ofan fjöruna rétt sunnan við Evanger.
Skrifað af LRÓ.