15.11.2012 09:47

Risar á brauðfótum



848. Einu sinni var., en á þeim orðum byrja öll skemmtileg ævintýri og þau sömu orð eiga nú ágætlega við Videóhöllina Lágmúla sem er búin að skella í lás í síðasta sinn.

Videóhöllin í Lágmúla var um áratuga skeið risinn í bransanum, langflottust, langstærst, þar var langmesta úrvalið og þangað fóru allir sem vildu eitthvað eitthvað meira, betra, merkilegra og menningarlegra en hinn ótölulegi fjöldi af misjafnlega sjoppulegum og sjúskuðum smáleigum sem eitt sinn voru á hverju götuhorni bauð jafnan upp á.

Það eru vissulega breyttir tímar frá því sem áður var því niðurhalið og VOD-inn  eru smátt og smátt að taka við hlutverki leiganna. Ég átti spjall við annan uppgjafa videókarl snemma á síðasta ári og okkur taldist til að hvorki fleiri né færri en 27 leigur hefðu lokað árið 2010. Það segir sína sögu og víst er að þróunin hefur ekkert verið að hægja á sér. Hérna í Hafnar firði voru eftir fjórar leigur í ársbyrjun, en nú hefur þeim fækkað um helming. Aðeins Snæland við Reykjavíkurveg og Snæland í Setbergi standa eftir og hvorug þeirra getur talist mikil að vöxtum eða hafa standard yfir meðallagi.

Árið 2005 seldi ég minn helming í Laugarásvideó og lokaði svo gott sem á allt sem heitir kvikmyndir í hvaða formi sem er. Ég fór síðast í bíó árið 2002, en á síðasta ári datt mér þó í hug að skella einni DVD í tækið. Það gekk þó ekki því þá kom í ljós að það hafði verið lánað árið 2009 og var enn í láni. - Öðru vísi mér áður brá.

Gunnar fyrrum meðeigandi minn í Laugarásvideó hefur ekki farið varhluta af þróuninni frekar en aðrir. Nú neyðist hann til að standa einn og afgreiða flesta daga fram á rauðanótt, en áður rak hann leiguna að mestu á aðkeyptri vinnu. Reyndar var það svo í mínni tíð á þeim ágæta stað að ekki þýddi að reyna að afgreiða alla þá sem bar að garði öðruvísi en að tveir, jafnvel þrír afgreiðslumenn væru til staðar.

Það hlýtur því miður að vera aðeins tímaspursmál hvenær fer fyrir síðustu leigunum eins og risaeðlunum forðum, þ.e. þær deyja út sem slíkar, en einhver stökkbreytt afbrigði eru þó líkleg til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.


                       

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 983
Gestir í dag: 156
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496360
Samtals gestir: 54774
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 23:07:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni