29.11.2012 08:37

Flottur bíll, en á röngum stað



851. Það fer líklega ekkert á milli mála að þessum fína bíl er lagt ólöglega, en einhver myndi væntanlega kalla það "að bera í bakkafullan lækinn" þegar ökumenn velja sér stað við hvorki meira né minna en fimm skilti sem öll segja í rauninni það sama, og þá er guli kanturinn ekki talinn með.

Myndin er tekin inni í hringtorgi sem er sérhannað sem strætó stoppistöð og er einungis ætlað til slíkra hluta. Í hringnum eru samanlagt 22 skilti sem benda öðrum ökumönnum á að leggja ekki þarna, svo maður skyldi ætla að boðskapurinn ætti alla vega þess vegna að komast til skila. Það vantar þó mikið upp á slíkt því ég hef talið allt upp í átta bíla í hringnum þegar ég hef átt leið þarna um, og stundum hafa jafnvel rútur teppt leiðina. Það má svo gjarnan fylgja sögunni að við hliðina á hringtorginu er slíkur fjöldi bílastæði að þau ná aldrei að fyllast.

Einn kollegi minn sagði mér ágæta sögu af viðskiptum sínum við einn þeirra fjölmörgu ökumanna sem þarna hafa staldrað við:

"Ég komst hálfa leið eða svo í hringnum þegar bill var fyrir mér sem lokaði leiðinni og hann var greinilega ekkert að flýta sér. Ökumaðurinn sat bara við stýrið og virtist vera svo djúpt hugsi að líkast til hefur hann verið að leysa sjálfa lífsgátuna akkúrat þá þarna. Ég hinkraði svolitla stund og vonaðist til að hann færði sig eins og flestir gera og eru yfirleitt frekar fljótir að því, en þessi ökumaður annað hvort vissi ekki, lét sem hann vissi ekki af mér. Að lokum var lítið eftir af þolinmæðinni mín megin og ég hreinlega lagðist á flautuna. Í nokkrar sekúndur gerðist ekkert, en síðan seig hliðarrúðan bílstjóramegin niður, úfið höfuð bæjarstjórans þáverandi birtist mér í morgungolunni og svipurinn bar það með sér að hann var ekkert of hress með þessa truflun."

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 443
Gestir í dag: 122
Flettingar í gær: 835
Gestir í gær: 148
Samtals flettingar: 477337
Samtals gestir: 52746
Tölur uppfærðar: 3.12.2024 06:00:32
clockhere

Tenglar

Eldra efni