30.01.2013 10:14

"Miklihvellur"



857. Það má líklega vel halda því fram og það með góðum og gildum rökum að sannkallaður "Miklihvellur" hafi gengið yfir Siglufjörð síðustu dagana með heilmiklu brauki og bramli. Stundum er komist þannig að orði að elstu menn muni vart annað eins og gæti það eflaust átt við um það sem gengið hefur á í bænum. Sú kenning hefur verið sett fram að snjóflóðavarnargarðarnir gætu hugsanlega haft áhrif á vindstýringu og hnútamyndum sem er kannski ekkert verri kenning en aðrar. Alla vega virðist vera talsvert um tjón á húsum efst í bænum, við fjallsræturnar rétt neðan við garðana, en reyndar einnig neðst á eyrinni.
Mér bárust þau frekar fúlu tíðindi að Kári hefði komið við í híbýlum mínum nyrðra og gert þar talsverðan usla. 



Suðurgata 46 stendur hátt og út um stofugluggann er hreint ótrúlegt útsýni yfir bæinn og höfnina. Verulegar endurbætur hafa verið gerðar á húsinu og enn meiri slíkar voru fyrirhugaðar.



En á vetrum getur þurft að hafa svolítið fyrir hlutunum.



Húsið séð ofan frá. - Það var efsti hluti þaksins sem hreinlega lyftist ofan af veggjunum. Það var í októbermánuði sem við Óli Kára trömpuðum þarna á þakinu, spegúleruðum mikið og áformuðum að fara í einhverjar endurbætur á því með vorinu.



Svona leit eitt herbergjanna út eftir að hvellurinn ógurlegi hafði gert þar usla.



Og svona var umhorfs inni á baði.
En nú þýðir líklega lítið annað en að spýta í lófana og taka á sínum málum eins og það er kallað.



En því er við að bæta að gott er að eiga góða að þegar þörf er á.
Nokkrir vaskir piltar úr björgunarsveitinni Strákum svöruðu kalli íbúanna sem búa á neðri hæðinni, mættu á staðinn og björguðu því sem bjargað varð. Böndum var komið yfir þakið og þau fest í fiskikör sem síðan voru fyllt af vatni. 
Einfalt trix sem alveg svínvirkaði. Ég kann þeim mínar mestu og bestu þakkir fyrir.

En ef einhver eða einhverjir skyldu vilja skoða fleiri myndir af Suðurgötu 46 og því sem þar hefur verið að gerast, gerjast og breytast, þá er slóðin að myndasafni því tengdu http://leor.123.is/photoalbums/173804/ 

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 197
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 2796
Gestir í gær: 383
Samtals flettingar: 480914
Samtals gestir: 53310
Tölur uppfærðar: 5.12.2024 05:38:55
clockhere

Tenglar

Eldra efni