14.02.2013 01:57

Í minningu vagns 310


858. Það rata ekki allar fréttir "í fréttirnar", það hef ég upplifað og sannreynt nokkrum sinnum um dagana og þessi uppákoma er greinilega og svo sannarlega ein af þeim. Sennilega hafa allir fréttaöflunarmennirnir verið steinsofandi  kl. 06.20 þegar atburðurinn átti sér stað.

Í morgunsárið fórum við "strætókallarnir" í Kópavogi af stað laust upp úr kl. 06, komum okkur fyrir á sínum byrjunarreit að vanda og hófum síðan akstur saamkvæmt skipuriti. Ég ók þetta morgunsárið frá Hamraborg kl. 06.36 áleiðis í Mjódd um Vatnsenda. Á leiðinni heyrði ég í talstöðinni að eitthvað hefði greinilega farið úrskeiðis hjá einhverjum og þegar ég ók inn á Lindarveg eftir að hafa farið fram hjá Smáralindinni blasti við það sem má sjá á myndinni hér að ofan.

Eldur í strætó er eins langt frá því að vera nokkurt grin og hugsast getur og ég velti því strax fyrir mér hvort einhver slys hefðu orðið á fólki, - en vonaði auðvitað að svo væri ekki.

"Þetta er sennilega vagn sem hefur verið á leið 2" hugsaði ég og ók áfram upp Hlíðardalsveg.

Þegar ég var kominn upp á það sem ég kalla "hálendi Kópavogs" (Lindir, Salir, Kórar, Þing og Hvörf) fór mig þó að gruna eitt og annað. Ég ók öðrum vagni morgunsins sem fylltist von bráðar og eiginlega mun fyrr en venjulega eða grunsamlega fljótt. Margir kvörtuðu yfir að næsti vagn á undan mér (þ.e. fyrsti morgunvagninn) hlyti annað hvort að hafa verið á undan tímanum eða hreinlega ekki mætt. Sumir voru greinilega frekar súrir, reiðir og fúlir, enda hugsanlega orðnir of seinir til vinnu eða annarra tímasettra verka. Mér leist hins vegar ekki á málið í heild sinni þegar þarna var komið sögu og kallaði á Þjónustuver sem vissi ekkert um brunann. Ég hafði því samband niður á Kynnisferðir þar sem ég fékk að vita að kviknað hefði í vagni 310 (sem er einn af oss) og væri hann sennilega mjög illa farinn eða jafnvel ónýtur þar sem slökkviliðsmenn hefðu nánast klippt afturendann af honum til að komast að upptökum eldsins, þrátt fyrir að bílstjórinn (gamall kunningi úr videóbransanum frá því í denn) hefði farið langt með að slökkva hann áður en "liðið" mætti á staðinn.

Ég reyndi að segja þeim sem gagnrýndu hina "lélegu" þjónustu Strætó frá því hvað hafði gerst þarna um morguninn, en flestir horfðu á mig með fyrirlitlegu og vorkunarblöndnu augnaráði fullu af vanrtú og fannst afsökunin um strætisvagninn sem brann vera með lélegustu, aumkunnarverðustu og dapurlegustu afsökunum ever eða þannig...

Það var jú ekkert um þetta mál í fréttunum - og svo gerðist þetta á sjálfan ÖSKUDAGINN...


Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni