18.03.2013 09:07
Bítl í Bátahúsi
861. Það er mikið að gerast þessa dagana, því undirbúningur og æfingar standa nú sem hæst vegna fyrirhugaðs tónleikahalds í Bátahúsi um páskana. Og það á að fara svolítið óhefðbundnar miðlunarleiðir ef þannig mætti komast að orði, því hugmyndin er að tvinna saman hljóð og mynd þannig og áheyrendur verði samtímis einnig áhorfendur. Skilningarvit gestanna fá því væntanlega úr nægu að moða meðan á tónleikunum stendur. Verið er að safna saman bítlatengdum fróðleiksmolum, vinna að ýmis konar kynningarefni svo og að grafíkinni sem nota skal vegna myndasýningarinnar, ásamt því að afla myndefnis héðan og þaðan - einnig vegna hennar, og svo auðvitað að æfa öll flottu bítlalögin. Þá má einnig nefna að einnig er staðið í talsverðum fjárfestingum um þessar mundir, því það er verið að kaupa splunkunýtt hljóðkerfi svo bæði tal og tónar komist til skila eins og best verður á kosið.
Þetta verður vafalaust bæði gaman og skemmtilegt, - en nánar um málið einhvern allra næstu daga.